149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:27]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mig langar í seinna andsvari mínu að víkja að hinum skelfilegu, voðalegu veiðigjöldum sem hann hafði stór og mikil varnaðarorð um í ræðu sinni áðan og varaði alveg sérstaklega við válegum tillögum Samfylkingarinnar um veiðigjöld. Þau eiga að gefa okkur 7 milljarða samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi sem er svipuð tala, eins og fram hefur komið, og við fáum af tóbaksgjaldi. Samt eru eiginlega allir hættir að reykja.

Veiðileyfagjöld eru minna en 1% af tekjum ríkisins. Íslenskur sjávarútvegur hagnaðist um 340 milljarða á árunum 2009–2016. Það er meira en heilbrigðiskerfið okkar kostar. Það fer sem sagt ekkert á milli mála að það er gríðarleg arðsemi í þessari grein sem byggir á veiðum úr sameiginlegri auðlind landsmanna.

(Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann hvort honum finnist of í lagt að hækka þessi gjöld svolítið svo þessi grein greiði sitt eðlilega gjald til samfélagsins.