149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:28]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér varð fótaskortur áður þegar ég ætlaði að nefna skuldir ríkissjóðs þannig að ég ætla nú að bæta úr því. Ég átti við 1.500 milljarða, um 86% af landsframleiðslu.

Hv. þingmaður spyr um veiðigjöld og nefnir tóbaksgjaldið í því samhengi. Kannski er bara tóbaksgjaldið allt of hátt. Það mætti lækka það til að laga þennan samanburð en það er útúrsnúningur að svara með þessum hætti.

Mín pólitíska sýn á veiðigjöldin er einfaldlega sú að ég hef séð í byggðarlögum í mínu kjördæmi að sú þyngd sem á þeim var orsakaði að úr einyrkjarekstri féllu fjölmargar útgerðir. Það finnst mér ekki góð þróun.

Fyrir mér er það lífskraftur byggðanna að okkur takist að varðveita þessar litlu útgerðir. Oft er talað um meðalstórar útgerðir þó að það hugtak sé teygjanlegt (Forseti hringir.) en sé vandamálið að við tökum of há veiðigjöld þýðir það einfaldlega meiri samþjöppun og þá horfum við á allt annað byggðamynstur í þessu landi en við horfum á í dag.