149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Kannski ég byrji aðeins á því að bregðast við því sem fram kom í máli hv. þm. Loga Einarssonar sem talaði hér á undan mér um þróunarsamvinnu og þróunaraðstoð. Ég held að mikilvægt sé að halda því til haga að framlög til þróunarsamvinnu aukast um 700 milljónir milli ára. Það er rétt að á milli umræðna hefur þessi þáttur verið dreginn niður en engu að síður erum við enn þá í þessum 0,28% af vergum þjóðartekjum sem upphaflega var lagt upp með við gerð fjárlagafrumvarpsins. Ég held að það sé mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu.

Virðulegur forseti. Við ræðum fjárlög næsta árs við 2. umr. Við höfum fengið fimm nefndarálit og allnokkrar breytingartillögur á níu þingskjölum. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum í fjárlaganefnd fyrir sína vinnu. Það sést glöggt á þessu að nefndin hefur farið mjög ítarlega yfir málið og lagt í það mikinn tíma og mikla vinnu og ég vil þakka fyrir það.

Það er líka mjög ánægjulegt að við stöndum hér um miðjan nóvember að taka þessa umræðu en það er frekar hefð fyrir því að við séum um mánuði seinna, um miðjan desember, að leggja lokahönd á fjárlög næsta árs undir lok ársins. Það er líka gaman að við séum kannski núna í fyrsta skipti að ná að fara fullkomlega eftir lögum um opinber fjármál, eða alla vega með fyrstu skiptunum, að fylgja þessu kerfi. Fjármálastefna ríkisstjórnarinnar kom fram fyrir um ári og var samþykkt á fyrstu mánuðum þessa árs. Fjármálaáætluninni kom svo fram í apríl og var samþykkt í júní og svo ræðum við núna fjárlögin. Við erum kannski fyrst núna að sjá þetta ferli eins og það á að vera. Og við höfum í rauninni verið að ræða fjármál hins opinbera nánast í heilt ár. Það er að mörgu leyti mjög jákvætt. Ég hef reyndar heyrt marga þingmenn býsnast svolítið yfir þessu verklagi og finnast hlutirnir ekki nógu góðir. Ég verð að segja það að þrátt fyrir að þekkja ekki fullkomlega hvernig málum var háttað áður fyrr held ég að með lögum um opinber fjármál séum við komin með miklu betra verkfæri og verklag í hendurnar þar sem við horfum til lengri tíma. Áætlanir ættu þar af leiðandi að vera ábyrgari. Við tengjum þær við stefnur viðkomandi ráðuneyta. Þetta á að auka tækifæri okkar á þinginu að fylgjast með og hafa eftirlitshlutverkið í heiðri. Ég held að þrátt fyrir að við séum enn þá að aðlagast breyttu ferli séum við á mjög góðri leið.

Í lögum um opinber fjármál er ákvæði um framkvæmd fjárlaga sem ætlað er að stuðla að virkara eftirliti með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár og leiða til aukins aga við framkvæmd fjárlaga með því að skýra ábyrgð og skyldur. Lögð er áhersla á stefnumótun ríkisaðila og eftirlit hvers ráðherra með útgjaldaþróun málaflokka og ábyrgð forstöðumanna á rekstri. Hver ráðherra ber ábyrgð á og hefur virkt eftirlit með framkvæmd fjárlaga á sínu málefnasviði og ber ábyrgð á að ráðstöfun fjárheimilda sé innan þess ramma sem Alþingi ákveður. Forstöðumaður eða stjórn stofnana A-hluta ríkissjóðs ber svo ábyrgð gagnvart hlutaðeigandi ráðherra á að starfsemi skili tilætluðum árangri og að rekstur og afkoma séu í samræmi við fjárveitingar og áætlanir sem samþykktar hafa verið.

Það er engin tilviljun að ég ákvað að nota smátíma af ræðu minni í að ræða nákvæmlega þetta því að þetta er gríðarlega mikilvægt. Þetta verklag held ég að ætti að auðvelda okkur eftirlit með framkvæmdarvaldinu og tryggja að fjármunum sé vel varið, þeim sé varið í þær aðgerðir sem tilgreindar eru í stefnumörkun fyrir viðkomandi málaflokka.

Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að nefndin hafi breytt verklagi sínu og endurbætt í tengslum við fjárbeiðnir og tillögur sem berast. Í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Áður en nefndin tók afstöðu til þeirra var óskað eftir afstöðu viðkomandi ráðherra og kallað eftir upplýsingum um hvort viðkomandi beiðni félli að stefnumörkun málaflokksins og hvort ráðherra hefði gert samning eða hygðist gera samning við viðkomandi aðila. Svör ráðuneyta voru ekki alltaf viðunandi en meiri hlutinn fyrirhugar að fylgja þessu breytta verklagi frekar eftir í tengslum við erindi sem berast nefndinni framvegis.

Tilgangurinn með þessu breytta verklagi er að tengja fjárbeiðnir betur saman við stefnumörkun í viðkomandi málefnaflokki þannig að ákveðin samfella myndist í fjárveitingum sem aftur hefur áhrif á uppfærslu fjármálaáætlunar að vori og kallar jafnframt eftir því að gerð sé grein fyrir árangri breyttra fjárveitinga í ársskýrslu hvers ráðherra.“

Þetta er mjög gott mál. Það er kannski ekki gott mál að svör ráðuneytanna hafi ekki alltaf verið viðunandi en ég vil hvetja hv. fjárlaganefnd áfram í þessu verklagi og legg enn og aftur áherslu á mikilvægi eftirlitshlutverksins og í rauninni þess mikilvæga eftirlitshlutverks sem fjárlaganefnd gætir fyrir hönd okkar sem sitjum á hinu háa Alþingi.

Að fjárlögunum sjálfum fyrir árið 2019. Eðlilega eru uppi mismunandi skoðanir á því hvernig ráðstafa skuli þeim tæpu 900 milljörðum sem hér um ræðir. Reyndar finnst mér of lítil umræða vera um það hvort rétt sé að ríkið eigi að hafa svo mikla fjármuni til ráðstöfunar. Látum það liggja milli hluta. En fjármálastefnan bindur okkur þó hvað útgjaldagleði okkar varðar til að skila alla vega 1% afgangi og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við höfum þann ramma.

Þá er þýðingarmikið að muna að við erum í hreint ótrúlegri stöðu núna tíu árum eftir alþjóðlegt fjármálahrun. Eftir mjög svo erfið ár stuttu eftir hrun hefur okkur gengið einstaklega vel. Hér eru lífskjör með því sem best þekkist í heiminum, hér er lítið sem ekkert atvinnuleysi, hagvöxtur er mikill og verðbólga hefur haldist lág. Það er engin tilviljun að aðstæður eru með þessum hætti, þetta datt ekki af himnum ofan. Við höfum einfaldlega staðið okkur vel.

Ríkissjóður hefur nýtt þennan tíma vel til að auka sjálfbærni ríkisfjármálanna til langs tíma litið, skuldir ríkissjóðs hafa lækkað og háar fjárhæðir hafa verið greiddar inn á lífeyrisskuldbindingar. Heildarskuldir ríkisins hafa lækkað um 658 milljarða kr. á sex árum og sem hlutfall af landsframleiðslu hafa skuldir farið úr 86% árið 2011 í 31% fyrir næsta ár. Frá því um mitt ár 2017 til miðs árs 2018 hafa skuldir ríkissjóðs lækkað um 88 milljarða kr. Það samsvarar því að skuldir hafi lækkað um 10 milljónir á klukkustund. Skiljanlega eykur þessi ráðstöfun, þessi mikla niðurgreiðsla skulda sem lækkar þar af leiðandi vaxtagreiðslur okkar, svigrúm okkar til að ráðstafa fé til mikilvægra málaflokka.

Kannski aðeins til samanburðar: Þrátt fyrir að við höfum staðið okkur svona vel í að greiða niður skuldir eru vaxtagreiðslur ríkisins í dag enn háar. Þær eru um 40 milljarðar á ári sem er svipuð fjárhæð og við verjum til fjarskipta- og samgöngumála. Þar fara um 43 milljarðar. Vaxtagjöld ríkisins eru sem sagt þrátt fyrir þennan mikla árangur og mikla átak í niðurgreiðslu skulda sambærileg við það sem við verjum til fjarskipta- og samgöngumála.

Talandi um samgöngumál: Í þessu frumvarpi er enn gefið í í þeim málaflokki, vex um 14% og það eftir mikla aukningu á síðustu misserum. En þrátt fyrir þessa miklu aukningu er það svo að við hefðum viljað sjá, alla vega geri ég ráð fyrir að flest okkar hefðu viljað sjá, enn meira um nýframkvæmdir í vegasamgöngum.

Ég verð þá sérstaklega sem þingmaður höfuðborgarsvæðisins, að fá að nefna höfuðborgarsvæðið, það hefur orðið út undan í uppbyggingu samgöngumannvirkja. Ég held að það sé nauðsynlegt að horfa sérstaklega til höfuðborgarsvæðisins á næstu árum. Það er nauðsynlegt að fara í uppbyggingu á stofnvegakerfinu en ekki síður í að framkvæma fyrsta áfanga borgarlínu. Ég bind miklar vonir við það samstarf sem hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur gert við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og vænti þess að út úr því komi einhver aðgerðaáætlun um hvaða leiða skuli leitað í þeim efnum. Í því samhengi held ég að við þurfum einfaldlega að finna nýjar leiðir til að fjármagna samgöngukerfin okkar. Við þurfum að þora að stíga ný skref í þeim efnum og stíga út úr því boxi sem við erum í, bæði vegna þess að okkur vantar enn frekari fjármuni inn í þessa mikilvægu innviði en ekki síður vegna þess að tekjugrunnur okkar er að breytast umtalsvert með þeim jákvæðu skrefum sem við erum að stíga í rafbílavæðingu.

En það er ekki bara auknu fé varið til samgöngumála heldur til nánast allra málaflokka og svo sannarlega svo um munar. Það er reyndar ekki bara í þessu fjárlagafrumvarpi sem útgjöldin vaxa heldur hafa útgjöld til allra helstu málaflokka vaxið á síðustu árum og enn er kallað eftir meiri fjármunum.

Umhverfismálin hafa aldrei áður fengið jafn mikla fjármuni, enda eru umhverfismál eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og ég held að okkur ætti öllum að vera ljóst mikilvægi þess að fara í markvissar aðgerðir til að draga úr útblæstri og bæta stöðu kolefnisspors þjóðarinnar.

Við aukum framlög til háskólanna. Þau verða um 47 milljarðar, fara upp um rúmlega 700 milljónir. Ég tek heils hugar undir mikilvægi þess að við leggjum áherslu á menntun, rannsóknir og nýsköpun, það þurfa einfaldlega að vera okkar áherslur til næstu ára.

Ég fagna líka tillögu meiri hlutans um fjármögnun til lýðháskólanna tveggja. Ég tel það mikilvægt. Ég tel mikilvægt að auka fjölbreytni í framboði til menntunar. Ég held að það sem lýðháskólarnir bjóða upp á sé mikilvægt þegar horft er inn í framtíðina og til þess hvað ungmenni þurfa að kunna og geta og kunna skil á á næstu árum. Það er ekki bara hefðbundið nám eins og hingað til hefur boðist í háskólum. Ekki síst snýst framtíðin um að við kunnum að vinna saman, afla okkur upplýsinga og stunda jákvæð og góð samskipti. Ég held að þessir ágætu lýðháskólar vinni einmitt að því og svo er það ekki síður ákveðið byggðamál þegar um þessa lýðháskóla er að ræða en þeir eru annars vegar á Flateyri og hins vegar á Seyðisfirði.

Þá eru það heilbrigðismál, stóri málaflokkurinn. Þar er aukningin um 15 milljarðar, gríðarleg aukning. Nýverið sat ég heilbrigðisþing sem var ætlað að vera hluti af þeirri vegferð að móta heildstæða stefnu í heilbrigðisþjónustu. Ég fagna því. Ég held að það sé afar mikilvægt því að þótt við verjum auknu fé til heilbrigðismála á hverju ári, og með mjög markvissum aðgerðum núna, er líka mikilvægt að við vitum nákvæmlega í hvað fjármunirnir fara, þeim sé varið í þá stefnu sem við viljum sjá í þessum málaflokki. Það er ljóst að þessi málaflokkur hefur alla burði til að vaxa svo um munar, nánast út í hið óendanlega. Þess vegna er mikilvægt að tryggja sem besta nýtingu fjármuna. Þá verð ég náttúrlega að koma inn á lýðheilsumál sem ég held að séu mikilvæg í ljósi þeirrar þróunar sem á sér stað. Við verðum að huga í auknum mæli að lýðheilsu og forvarnamálum.

Við erum að gera átak í biðlistunum. Það er átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila þar sem er verið að setja aukna fjármuni og fjölga hjúkrunarrýmunum. Ég tek undir það sem fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans um að fylgja eftir kostnaðargreiningu til hjúkrunarheimilanna. Það er einfaldlega staðreynd að daggjöldin duga ekki fyrir þeirri þjónustu sem ákveðin hefur verið og mörkuð stefna um hér á þingi og með reglugerðum úr ráðuneytinu. Þess vegna er mikilvægt að fylgja því eftir.

Það fara umtalsverðir fjármunir í aukningu í málefnum öryrkja og í rauninni allt frá árinu 2010. Það er ágætismynd sem birtist hér á bls. 14 í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem sýnir 30 milljarða kr. raunaukningu útgjalda frá árinu 2010. Það segir líka í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Örorkulífeyrisþegum fjölgaði um 2.615 talsins á sex ára tímabili, eða sem nemur 17%. Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að hægi á þessari þróun og miðað við árlega fjölgun um 1,9% að jafnaði fram til ársins 2030, þá leiðir það til þess að öllu óbreyttu að örorkubætur hækki úr 41 milljarði kr. nú í ár í um 90 milljarða kr. árið 2030. Heildarþróunin hérlendis er ekki einsdæmi en skoða þarf samspil bóta, endurhæfingar og atvinnuþátttöku öryrkja og sjálfsagt er að líta til reynslu og árangurs Norðurlanda á því sviði. Ástæður aukinnar örorku eru einkum geðraskanir og stoðkerfissjúkdómar, auk lýðfræðilegra breytinga.“

Þetta er málefni sem við verðum að skoða til hlítar, sérstaklega í ljósi þess að fæðingum er að fækka og það eru alltaf færri og færri vinnandi hendur til að standa undir velferðarkerfinu. Þess vegna held ég að sé gríðarlega mikilvægt að vinnuhópur á vegum velferðarráðuneytisins nái að klára sínar tillögur sem allra fyrst og að við komumst í mikilvæga kerfisbreytingu á þessu málefnasviði. Velferðarkerfi okkar þarf sannarlega að vera þannig uppbyggt að það grípi alla sem á því þurfa að halda. En það þarf líka að vera þannig að við getum hjálpað fólki til sjálfshjálpar og að fólk eigi möguleika á að fá vinnu við hæfi þegar það stígur upp úr veikindum. Því á að sjálfsögðu að vera umbunað fyrir það. En á sama tíma verðum við að tryggja að fjármunum sé varið til þeirra sem á mestri aðstoð þurfa að halda. Þetta er ákveðið jafnvægi sem við verðum með einhverjum hætti að ná og það er verkefni okkar að fást við það. Þá vil ég minna á það sem ég sagði áðan varðandi lýðheilsuna, endurhæfingarþjónustuna og forvarnirnar, hvernig það spilar inn í þessa ótrúlegu staðreynd um þá fjölgun öryrkja sem á sér stað hér á landi.

Varðandi málefni aldraðra ætla ég að fá að vísa hér í stöplarit á bls. 15 sem sýnir þróun útgjalda til málefna aldraðra, þar sem er um 49 milljarða kr. raunaukning frá árinu 2010. Þetta er 150% á þessum árum. Við skulum líka hafa það í huga að í dag eru 4,7 einstaklingar á vinnualdri fyrir hvern 65 ára og eldri en árið 2050 verði þeir orðnir um 2,7. Það er því mikilvægt að tryggja að fjármunum sé vel varið í þessum málaflokki sem öðrum. Við þurfum að tryggja sjálfbærni eins og við höfum verið að gera með því að greiða upp lífeyrisskuldbindingar og byggja upp lífeyriskerfi.

Það er hægt að halda áfram. Fjölskyldumál. Þar er hækkað um 4,6 milljarða út frá þeirri forgangsröðun og áherslum sem ríkisstjórnin hefur lagt á fjölskyldumál. Þar er fyrst og fremst um að ræða barnabætur.

Það væri svo sem hægt að halda lengi áfram. Mig langar þó, virðulegur forseti, að flétta þessu saman við annað mál sem lætur ekki mikið yfir sér en heyrir undir umhverfismál. Það er lagt til að 180 millj. kr. verði varið til þróunarverkefnis á vegum Skútustaðahrepps sem byggir á aðskilnaði fráveitukerfa í byggingum á svæðinu, að nýta svokallað svartvatn til uppgræðslu auðna á Hólasandi. Þetta er mikilvægt mál og Skútustaðahreppur hefur leitað til okkar í töluverðan tíma.

Mig langar að ítreka það sem ég hef sagt svo sem áður úr þessum ræðustól, hvort ekki sé ástæða til að horfa heildstætt á þennan málaflokk. Hann heyrir undir sveitarfélögin og ég myndi gjarnan vilja horfa til fráveitumála og í rauninni úrgangsmála allra, hvernig við hugum að flokkun sorps, endurvinnslu, brennslu, gasgerð eða hvað. Ég hef velt því fyrir mér hvort það væri skynsamlegra að horfa heildstætt á þetta mál og þar af leiðandi væri það á herðum ríkisins en ekki sveitarfélaganna. Við myndum frekar horfa til þess að önnur nærþjónusta, eins og til að mynda málefni eldri borgara, heyrði undir sveitarfélögin en ekki ríkið. Þetta kann að vera smáútúrdúr hjá mér en mig langaði þó að nota tækifærið til að nefna þetta.

Það hafa svo sem verið haldnar margar ræður í dag og búið að fara yfir flesta þætti en ég vildi tæpa á því helsta og ljúka ræðu minni á því að segja að ég er stolt af þessu fjárlagafrumvarpi. Ég er stolt af þeirri vinnu sem fjárlaganefnd hefur unnið á síðustu vikum. Við höfum náð ótrúlegum árangri í ríkisfjármálum á síðustu árum og við erum ótrúlega lánsöm þjóð. Með því er ég ekki að segja að hér höfum við sinnt öllu því sem sinna þarf, hér lifi allir í miklum vellystingum. Það er enn þá verk að vinna á því sviði og við þurfum að huga sérstaklega að veikum hópum, eins og til að mynda öryrkjum eins og ég fór yfir áðan. Það er algerlega nauðsynlegt að gera kerfisbreytingu og tryggja að við hjálpum fólki til sjálfshjálpar.

Þrátt fyrir þennan mikla árangur og þessa miklu niðurgreiðslu skulda höfum við stöðugt aukið ríkisútgjöldin frá því að ég tók sæti á þingi. Það er að mörgu leyti gott því að við verjum fjármunum í mjög mikilvæga innviði og þjónustu. En við skulum líka horfa til þess að það er ekki endalaust hægt að auka við útgjöld til þessara málaflokka. Það er að hægja á hagvexti og við höfum lifað mikla uppsveiflu og náð gríðarlegum árangri í að greiða niður skuldir og verja fjármunum til mikilvægra verkefna. En við þurfum að vera vakandi og huga að því hvernig fjármunum er best varið. Við þurfum að horfa líka á hagræðingu í kerfinu og hvernig ný tækni og framþróun getur hjálpað okkur að veita góða þjónustu fyrir minni fjármuni. Við þurfum að horfa til rafrænnar stjórnsýslu og hvernig hægt er að nýta slíkar lausnir í velferðarþjónustunni og svo mætti lengi telja áfram.

En ég ætla ekki að vera ein af þeim sem fullnýta ræðutíma sinn hér í kvöld því að ég veit að það eru margir á eftir mér sem vilja líka komast að og hafa sitthvað að segja. Ég vil enda á þessu: Ég held að við gleymum því stundum í þessum sal hvað við erum ótrúlega heppin og lánsöm, þessi þjóð, og hvað við höfum náð miklum árangri. En að sjálfsögðu eru ýmis verkefni óunnin enn þá.