149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lokaorðin — lánsöm þjóð og heppin — vil ég tengja aðeins við það sem hv. þingmaður sagði um að það væri engin tilviljun að við værum hérna, að við hefðum staðið okkur svo vel. Ég skal alveg taka undir það en ástæðuna fyrir því að við erum hérna, með það tækifæri t.d. að hafa greitt niður skuldir og ýmislegt annað, má óhjákvæmilega rekja til atburða sem hvorki við né stjórnvöld höfðum nokkra stjórn á, að nokkrir útlendingar kæmu í heimsókn, t.d. ferðamenn og makríll, á mjög krítískum tíma í hagsveiflunni á Íslandi.

Engin stefna stjórnvalda bjóst við svona mikilli ferðamennsku. Það var aldrei inni í myndinni. Að sjálfsögðu var hvatt til þess að ferðamenn kæmu hingað en aldrei var búist við að áhrifin yrðu svona mikil. Það heppnaðist mjög vel, að sjálfsögðu, og kannski á slæmum forsendum af því að við vorum í niðursveiflu og þá var gjaldeyririnn í dálítið slæmu ástandi sem hjálpaði til. Það þurfti kannski einmitt óheppnina á þann hátt. Ég ætla samt ekki að segja að ástæðan fyrir því að við höfum lent í hruni hafi verið óheppni. Það er eiginlega óréttlátt að segja það. En það þurfti a.m.k. þær aðstæður til.

Hv. þingmaður talaði líka um höfuðborgarsvæðið með tilliti til samgangna og mig langar að taka dálítið undir það. Það er áhugavert að heyra stundum þegar ráðherra eða annar kemur í umhverfis- og samgöngunefnd aðeins of seint af því að það var svo mikil traffík í Ártúnsbrekkunni. Þá hugsar maður: Hvað á að gera í því? Ja, samgönguáætlun gæti kannski hjálpað til með það.

Í dag (Forseti hringir.) átti starfshópur um verkefni borgarlínunnar að skila og ég heyrði að það væri verið að reyna að fresta ákvörðun um Sundahöfn og ef það væri umræðuefni hérna þætti mér það vel.