149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að bæta við spurningum. Árangur samstarfs? Tvímælalaust. Ég lýsi þessu oft eins og handboltanum, við vinnum yfirleitt best úr slæmri stöðu. Það er þannig sem við vinnum sætustu sigrana.

Aðeins að framfærsluhlutfallinu sem hv. þingmaður minntist á. Við erum komin niður í 2,7 vinnandi á eldri borgara 2050 eða svo og það er stefna stjórnvalda að framfærsluhlutfallið í kjördæmunum, í rauninni í landshlutunum, breytist ekki neitt, þ.e. hversu margir á skólaaldri og eldri eru á móti þeim sem eru vinnandi. Það á að haldast óbreytt, það er stefna stjórnvalda, og mér þætti áhugavert að vita hvernig við ættum að ná því markmiði ef þetta er raunin sem við erum að horfa á, úr 4,7 niður í 2,7 eða hvernig sem það var.

Einnig þætti mér vænt um að heyra aðeins skoðanir hv. þingmanns á fjárbeiðnum, eins og hún talaði um úr nefndaráliti meiri hluta, til nefndar sem voru sendar ráðherra og þau svör, í rauninni engin svör, sem fjárlaganefnd fékk til baka. Það voru einhver svör en eins og er sagt voru þau alls ekki viðunandi. Þrátt fyrir þetta tekur fjárlaganefnd þá ákvörðun að fjármagna ýmis verkefni, þrátt fyrir að við höfum ekki hugmynd um hvort ráðherra myndi í rauninni fjármagna þau verkefni eða ekki ef Alþingi gerði ekki neitt. Við erum ekki með sundurliðun á þeim útgjöldum sem ráðherra hyggst leggjast í. Ef við erum ekki með sundurliðunina og erum samt að fjármagna þessar beiðnir og vitum ekki hvort ráðherra ætlar að fjármagna þessi verkefni eða ekki, erum við þá kannski að tvífjármagna hlutina? Þá bætir Alþingi við en ráðherra getur nýtt peningana sem hann ætlaði hvort eð er að redda í verkefnið, ef Alþingi gerði ekki neitt, í eitthvað annað sem við höfum ekki hugmynd um í hvað á að fara. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé eðlileg notkun á almannafé.