149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:39]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég byrja aftast, á fjárbeiðnunum. Þar sem hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd þekkir hann betur hvernig þessum málum hefur verið háttað. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að koma inn sem varaþingmaður á árinu 2005, ég kom þá inn í fjárlagagerðina og sá hvað fjárlaganefnd var að fást við. Það var 300.000 kr. styrkur til kórs á Austfjörðum eða 500.000 kr. til einhvers safns á Vestfjörðum. Við erum að tala um svona upphæðir og svona verkefni. Þarna sat stór fjárlaganefnd og tók á móti nánast öllum landsmönnum með bænabréfið. Ég segi: Það verklag okkar með lögum um opinber fjármál að hér séu sett niður markmið í málaflokkunum, að við séum með töflur um aðgerðir og vitum hverjir eru framkvæmdaraðilarnir hefur orðið til bóta. Ég er alveg viss um að það er hægt að útfæra þetta betur. Ég held að það sé það sem hv. þingmaður er að vísa í og ég styð hann í þeirri vinnu.

Vinnandi hendur? Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður er að tala um þegar hann talar um að það sé stefna stjórnvalda en ég held að þetta sé eitt af þeim stóru verkefnum sem við stöndum frammi fyrir, öldrun þjóðarinnar. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort ekki sé eðlilegt að leyfa fólki að vinna lengur ef það vill það. Við erum líka heilbrigðari eftir því sem við eldumst. Kannski þurfum við að huga einmitt að því að hingað komi fleiri innflytjendur. Kannski þurfum við að vera með hvatningaraðgerðir fyrir fólk til að eignast fleiri börn.

Þetta er a.m.k. verkefni sem þurfum að huga að.

Samgöngumálin eru í uppáhaldi hjá mér. Ég vissi ekki að viðkomandi nefnd átti að skila af sér í dag en ég held að það sé rosalega mikilvægt að samgöngunefnd þingsins, fjárlaganefnd og við þingmenn hlustum á sveitarfélögin því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru búin að leggja í margra ára vinnu við að útfæra hvernig á að þróa byggð á höfuðborgarsvæðinu. Það er búið að leita til fjölda sérfræðinga og um þetta mál hefur verið þverpólitísk sátt. Hluti af þessari þróun snýst um eflingu almenningssamgangna með nokkru sem kallast borgarlína. (Forseti hringir.) Þetta er bara skynsemi, þetta er leiðin sem við finnum til að nýta fjármunina best. Með því er ég ekki að segja að það sé eina lausnin en það er stór hluti af lausninni og við leysum ekki samgöngur á höfuðborgarsvæðinu öðruvísi en með eflingu almenningssamgangna og borgarlínu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)