149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:42]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að nota ræðutíma minn til að ræða nokkra málaflokka sem ég kem helst að, fara yfir breytingarnar sem hafa orðið milli fjárlaga 2018 og núverandi tillagna o.s.frv.

Ég byrja á samgöngumálum þar sem er um 12% útgjaldahækkun til samgöngumála sem allir hljóta að líta svo á að sé mjög jákvætt, svo langt sem það nær. Þetta er hægur bati eftir hrunið og ljóst er hvað varðar þá 160 milljarða sem eru í ríkisfjármálaáætluninni að bæta þarf í þann málaflokk með einhverjum ráðum, betur má ef duga skal. Þar þarf að finna, ég kalla þær félagslegar leiðir til þess að finna viðbótarfé til úrbóta í þeim málaflokki. Það er augljóst þegar farið er yfir mál með gestum, t.d. hjá umhverfis- og samgöngunefnd, að gríðarlega stór pakki bíður okkar. Ég þreytist aldrei á að minna á að við höfum 12.000 km af því sem við getum kallað vegi og helmingurinn er alvöruvegir sem þarf að huga vel að og byggja upp með hraði. Þetta er gríðarlegt verkefni í landi þar sem eru ekki nema 350.000 íbúar eða þar um bil. Það kostar nokkurn veginn það sama að leggja þokkalegan veg í Finnlandi og á Íslandi og ólíku saman að jafna.

Þetta er stórt verkefni og hvort sem menn vilja kalla þetta sókn eða stórsókn hefur það verið mjög jákvæð þróun.

Annað sem ég vil koma að í samgöngumálum eru almenningssamgöngurnar sem var rætt um áðan. Núna er verið að tryggja að það verði eitthvert heildstætt samgöngukerfi í gangi árið 2019 á vegum sveitarfélaganna. Það er mjög gleðilegt. Það er líka verið að endurskoða allt fyrirkomulagið. Ef kjörorðið skynsemin ræður á einhvers staðar við er það þegar kemur að almenningssamgöngum. Þarna er þó verið að tryggja annars vegar framhald í eitt ár og síðan endurskoðun sem leiðir örugglega til þess að hægt verði að halda úti þokkalegu almenningssamgangnakerfi í þessu stóra landi.

Allt að öllu sést í þeim málaflokki aðeins lítils háttar skerðing og ég tel það mjög vel í ljósi hagspárinnar sem við glímum við, þó að samdrátturinn sé ekki mikill.

Í utanríkismálum vil ég stansa við þróunarsamvinnu. Þar er 6,2% raunhækkun milli fjárlagaára. Það er áfram stefnt að 0,7% markmiði, 0,7% af vergum þjóðartekjum, og þróunin hefur verið jákvæð frá 2013 þegar þetta voru 2,2 milljarðar, rúm 0,23% af vergum þjóðartekjum, og síðan 2017 þegar það var komið upp í 7,3 milljarða, 0,28%. Markmiðið er að 2020 verði það komið upp í 0,35 eða helminginn af því sem er í raun og veru ásættanlegt þegar allt kemur til alls. Við erum sem sagt komin hálfa leið þangað og við höfum auðvitað efni á að standa við hlið annarra auðugra ríkja í þeim efnum. Ég minni á að það eru fjölbreyttar leiðir í því og vil vekja athygli á nýmæli sem er í stefnumótun þróunarsamvinnu, þ.e. að umsóknir félagasamtaka og fyrirtækja í sérstakan sjóð verða mögulegar til nýrra skrefa í þróunarsamvinnu. Það þarf að setja þeim ákveðin skilyrði og ég ætla ekki að fjalla um þau en það er þó verið að brydda upp á nýjungum sem vonandi efla þetta starf.

Þegar kemur að rannsóknum og vísindum á háskólasviði er upphæðin 3,8 milljarðar og hækkunin 12%. Heildaraukning til háskóla er rétt rúmlega 700 milljónir, eins og kom fram hjá hv. ræðumanni á undan mér. Við erum öll sammála um að þau þurfa að hækka á næstu fjárlagaárum og það er þá sérstakt verkefni að finna þær leiðir sem til eru til að svo geti orðið.

Samkeppnissjóðir og nýsköpun. Þar er nokkuð haldið í horfi, einkanlega með auknum framlögum í upphaflegri tillögu fjárlaganefndar eða fjárlaga. Sú skerðing sem er á einhverjum liðum þar jafnast þó þannig út að eftir því sem ég get séð er aukning upp á fáein prósent í þeim flokki. Það þarf auðvitað að bæta þarna í eins og víða annars staðar, bæði á næsta fjárlagaári og svo áfram, vegna þess að nýsköpun er lykilatriði í hagkerfinu, eins og allir vita og þarf ekki að fjölyrða um það.

Mig langar að minnast á eina gleðilega viðbót sem er skattfrádráttur vegna framlaga fyrirtækja til nýsköpunar og þróunar. Það er bætt við hann heilum milljarði, þannig að það er ekki eins og ekki sé verið að hyggja að þeim málum á jákvæðan hátt.

Herra forseti. Ég ætla aðeins að víkja að orkumálum. Þar eru í fjárlögunum um 4 milljarðar til ráðstöfunar. Þetta er þá stjórnsýsla annars vegar og sérgreind verkefni sem á að sinna. Þetta er 2,3% aukning. Í hvað á það að fara? Það á að hraða þrífösun rafmagns. Eins og allir vita er það mjög mikilvæg byggðastefna. Það á að ljúka við að móta langtímaorkustefnu, sem er eitt af lykilatriðum í loftslagsmálum. Það á að auka orkuöryggi, þ.e. bæta flutningskerfið. Þar inn í kemur aukin jarðstrengjavæðing. Eins og allir vita er þetta vaxandi vandamál, þ.e. lélegt orkuöryggi vegna úrelts, að hluta til, flutningskerfis, og mjög ánægjulegt að þarna skuli vera settir í peningar.

Annað atriði, sem er kannski smámál að einhverju leyti, er virkjanir undir 10 MW sem á að efla hvort sem er rannsóknir eða framkvæmdir í kringum. Þar er mjög mikilvægt að menn gleymi ekki mati á umhverfisáhrifum framkvæmda, þó að það sé ekki nefnt í fjárhagsáætlun. Ég nefni það vegna þess að hingað til hafa þær virkjanir sloppið við það, nema virkjunaraðilar hafi sérstaklega beðið um það eða farið fram á það. Það er mjög mikilvægt að menn muni þetta því að 9,9 MW virkjun er engin smávirkjun þó að við notum þetta orð.

Það er varmadæluvæðing, sem er mikilvægt byggðaþróunarverkefni til viðbótar, og síðan er kannski einna mikilvægast af því öllu að halda áfram að styðja við orkuskipti í samræmi við aðgerðaáætlun. Þar eru líka fjölþættar lausnir eins og í svo mörgu. Það verða ekki tekin mörg skref án samvinnu ríkisins, fyrirtækja, sveitarfélaga og almennings. Í loftslagsmálum dettur engum raunverulega í hug að hið opinbera, eins og þetta heitir, kosti öllu til en aðrir njóti. Þetta er verkefni sem allir þurfa að sameinast um að taka á.

Það eru mörg verkefni í orkumálum sem blasa við og þurfa bæði umræður og fjármagn til að ýta þróuninni áfram. Ég nefni í orkumálum, eða í þessu tilviki, framleiðslu innlendra orkugjafa. Það hefur komið til tals í þinginu hversu nauðsynlegt er að einblína ekki aðeins á rafmagn til að koma í stað jarðefnaeldsneytis í samgöngum heldur innlent eldsneyti líka. Hvort sem það er alkóhól, lífdísill, vetni eða annað er um stórt verkefni að ræða og mikilvægt að ríkið komi þar inn af verulegum krafti.

Verið er að kanna bæði vind- og sjávarorku. Það eru auðvitað verkefni sem eru fyrst og fremst á könnunarstigi og regluverk og fjármagn til þess arna er ekki inni og mun vanta þegar fram í sækir. Síðan eru það ný verkefni í jarðvarma, bæði lághiti og djúpborun, og fleiri skyld verkefni. Ég lít svo á að ríkisstjórnin sinni því öllu saman ágætlega og hafi réttan skilning á, þrátt fyrir að ég sé þingmaður Vinstri grænna og gæti séð auknar fjárveitingar og meiri hraða frammi fyrir veröldinni eins og hún hefur þróast. En ég get vel við unað í bili.

Ég ætla að lokum að víkja aðeins að samblandi af umhverfismálum og ferðaþjónustu. Til ferðaþjónustunnar sjálfrar í fjárlögunum, og þá er það fyrst og fremst til stjórnsýslu og sérgreindra verkefna, er aukning upp á 200 millj. kr., 9% aukning. Þar eru þá 2,3 milljarðar til ráðstöfunar. Í hvað eiga þeir að fara? Þetta er undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og á að fara í þolmarkagreiningar sem ég þreytist ekki á að klifa á. Það er ekki einasta svo að Ísland sem ferðamannaland hafi sín þolmörk heldur hefur Ísland sem t.d. móttökuland flugfarþega líka sín þolmörk. Þolmörk eru, eins og allir vita, bæði náttúruleg, félagsleg og efnahagsleg. Það liggur í augum uppi að þegar kemur að þolmörkum samfélagsins er hvorki hægt að taka við endalaust mörgum ferðamönnum né endalaust mörgum flugvélum.

Það er styrkur til markaðsstofa landshlutanna sem, eins og allir vita, er mjög mikilvæg byggðastefna. Það eru viðbætur og uppbygging á áfangastöðum á landsbyggðinni, sem er sömuleiðis vænleg byggðastefna. Það eru aukin framlög til rannsókna í ferðaþjónustu, sem er mjög mikilvægt. Það er endurskoðun skipanar stjórnar ferðamála, sem er líka mjög mikilvægt, og þá er verið að tala um Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála og annað slíkt þar sem breytingar eru í farvatninu.

Eins og allir vita tilheyra þau mál líka umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Þar er verulegt átak í umhverfismálum á ferðinni. Til náttúruverndar eru aukin framlög upp á 18%. Til vöktunar náttúru eru aukin framlög upp á 9%. Til úrgangsmála eru aukin framlög upp á 22%. Reyndar er samdráttur til framlaga til náttúruvár en það snýst um að sex verkefni eru undir og til þeirra þarf minna fé en talið var, það er skýringin á samdrættinum ásamt því að hluti lækkar út af breyttri meðferð markaðra tekna. Þarna er því ekki stór vá á ferðinni.

En hvernig sem er er útgjaldasvigrúmið í ný verkefni 1 milljarður og 320 milljónir og önnur verkefni sem þegar hafa verið fjármögnuð halda áfram að vinnast. Ég ætla að nefna nokkur af þeim verkefnum. Það eru 80 milljónir til landvörslu og 354 milljónir til að vinna eftir landsáætlun um uppbyggingu til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Ég ætla að nefna 250 millj. kr. viðbót til að vinna eftir aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, þ.e. skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, og ég ætla að nefna 60 millj. kr. í svokallaðan nýjan loftslagssjóð.

Þarna er meira að segja fleira gott að finna. Það er áætlun um aðgerðir gegn plasti og plastmengun, sem er einmitt dæmi um fjölþætta þátttöku almennings, sveitarfélaga, fyrirtækja og ríkisins í sameiningu. Síðan er mjög gleðilegt að verið sé að fjölga friðlýsingum. Af því má draga þá ályktun að umhverfismál séu tekin föstum tökum enda þótt hægt væri að sjá hærri fjárlög í þeim efnum. Samvinna aðila og einhvers konar samátak í þeim efnum er nauðsyn, eins og ég hef áður bent á, og á það er lögð mikil áhersla í stefnumótun og starfsemi ríkisstjórnarinnar.

Ég get líka gagnrýnt ákveðin atriði. Ég er svekktur yfir því að ekki er fram haldið ákveðnum aukaframlögum til náttúrustofa á landsbyggðinni. Þær eru átta talsins. Framlögin lækka um 45 milljónir. Að vísu kemur á móti 16 millj. kr. verkefnaframlag, en betur má gera. Eins hefði ég viljað sjá bætt í betur í skógrækt, landgræðslu og votlendi, verandi sá sem ég er.

Herra forseti. Engu að síður er engan sáran samdrátt í framlögum að sjá til umhverfismála að mínu mati. Ekkert ráðuneyti er undanþegið því að taka þátt í samdrætti útgjalda, reyndar varla upp á 1‰, þannig að sá samdráttur er lítill, hvaða mælikvarða sem menn vilja nota.

Þegar kemur að umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er því gert að skera niður um 127 milljónir og líta má svo á að stór hluti af því stafi af því að verið er að bæta í fé til frárennslismála í Mývatni, þ.e. það reynist vera nokkru dýrara en menn gerðu ráð fyrir, en gríðarlega mikilvægt verkefni engu að síður því að eins og allir vita eru séraðstæður þar sem þarf að bregðast við.

Fjárlögin eru ágæt að mínu mati og við erum að skila til samfélagsins í skrefum því sem týndist með hruninu. Ég hef alltaf litið á það sem megintilgang þessarar ríkisstjórnar, fyrir utan loftslagsmálin. Þetta eru sem sagt alvöruumbótafjárlög í samræmi við þá hagspá og þau ýtrustu útgjöld sem hægt er að sjá fyrir sér án þess að farið sé í einhverjar stórherferðir í öflun nýrra tekna sem myndu þá ekki rúmast innan þessara fjárlaga.