149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:02]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Risastórt verkefni? Já, mikil ósköp. Og Kyoto-bókunin? Já, mikil ósköp. En ég er svo einfaldur að ég segi hreinlega: Það er bara okkur að kenna ef svo fer, vegna þess að þegar við brugðumst við eftir 2008 vorum við þegar farin að syndga, þ.e. þegar farin að búa okkur undir að vera of sein með litlum athöfnum og það er enginn flokkur, ef við getum sagt sem svo, undanþeginn þeirri ábyrgð. Ef það kostar okkur einhverjar sektir er það bara svoleiðis. Maður ók yfir á rauðu ljósi.

En þetta á eftir að koma í ljós og kannski tekst okkur að minnka losun um tæpar 2 milljónir tonna fyrir 2030; þetta eru 40% af 5 milljónum og það er hægt að skrifa 700.000 tonn á samgöngurnar og síðan er hægt að fara með 1–300.000 tonn á aðra hluti hagkerfisins. Ég tel þetta vera mögulegt.

En við skulum tala um árangursmatið. Jú, það væri gott að gera það, og því gerum við það ekki á næstu 12 árum? Þetta er alveg rétt gagnrýni, auðvitað þurfum við að árangursmeta það sem við erum að gera til að stilla af aðgerðirnar. En vegna þess hvernig komið er fyrir okkur þurfum við að gera tvennt í einu. Við þurfum að aðhafast, þó að það sé þá með þeim formerkjum að það sé ekki fullkomlega árangursmetið eða hvað við köllum það, og byrja á að árangursmeta. Þetta er þannig að þegar maður er kominn í svokallaða krísu verða menn að geta riðið tveimur hestum, ef ekki fleirum.