149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:07]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Þegar fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp kom til 1. umr. hélt ég því fram að ef hægt væri að lýsa þróun ríkisfjármála á síðustu árum með einu orði væri líklegast best að nota orðið útgjaldaþensla. Það er því sérkennilegt að verða vitni að því upphlaupi eða uppnámi sem hefur orðið hér eftir að tilkynnt var að meiri hluti fjárlaganefndar væri fremur að reyna að létta aðeins á bensíngjöfinni en að stíga fastar eins og margir hér vilja gera. Hér eru jafnvel ásakanir um að það sé verið að skera niður, þvert á staðreyndir, og öllu snúið á haus.

Gangi fjárlagafrumvarpið eftir með þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til verða rammasett útgjöld til málaflokka liðlega 33 milljörðum kr. hærri á næsta ári en á þessu. Það er ekki síst verið að auka framlög til velferðarmála sem hafa verið í forgangi hjá þessari ríkisstjórn. Ef við horfum til útgjalda ríkissjóðs sem hækka hér ár eftir ár þá verða útgjöld til málefnasviða u.þ.b. 220 milljörðum hærri á næsta ári en 2015. Þetta er 38% hækkun á fimm árum. Ef við lítum aftur til ársins 2012 er hækkunin yfir 50% að raunvirði.

Ég geri mér grein fyrir því að til eru hv. þingmenn sem krefjast þess að útgjöldin verði aukin enn meira. Sumir þeirra sem kalla eftir auknum útgjöldum snúa sér síðan við og saka ríkisstjórnina og stjórnarflokkana um að gæta ekki nægjanlegs aðhalds í ríkisfjármálum. Mér líður stundum eins og það sé farið að verða sérstakt markmið að auka ríkisútgjöld, svona til að við hér getum klappað hvert öðru á bakið, það sé orðinn sérstakur mælikvarði á árangur okkar á þingi hversu mikið við aukum ríkisútgjöld. Við veltum því ekki mikið fyrir okkur hvaða gæði eða hvaða þjónustu við erum að fá fyrir þá fjármuni sem við leggjum fram, sem eru sameiginlegir fjármunir okkar allra. Það er nefnilega ágætt að við minnum okkur á það hér, a.m.k. af og til, að við erum að sýsla með fjármuni launafólks og fyrirtækja. Það er eðlilegt að almenningur geri þá kröfu að við a.m.k. verjum þessum fjármunum af eins mikilli skynsemi og við getum og fáum eins mikið og hægt er fyrir þá.

Þessi gríðarlega aukning útgjalda sem ég nefndi áðan, 38% síðustu fimm árin og yfir 50% frá 2012, hefur verið möguleg vegna þess að okkur Íslendingum hefur vegnað nokkuð vel, í rauninni betur en flestum öðrum þjóðum í heiminum á undanförnum árum. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu útgjalda hefur tekist hressilega að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það er í rauninni með töluverðum ólíkindum að þessi mikla aukning útgjalda hafi ekki valdið kollsteypu í efnahagslífinu. Þvert á móti hefur okkur tekist að tryggja stöðugleika yfir lengri tíma og meiri stöðugleika en við höfum mátt kynnast á undanförnum áratugum eða a.m.k. svo lengi sem ég man eftir. Ég hreinlega efast um að nokkurri þjóð hafi tekist að auka ríkisútgjöld með þeim hætti sem gert hefur verið og á sama tíma tryggja um og yfir 40% kaupmáttaraukningu launa. Það er afrek sem við ættum að hafa í huga og halda til haga. (SJS: Kannski Rómverjum til forna.) Það gæti verið, hv. þingmaður. Þú manst lengra aftur í tímann en ég.

Þrátt fyrir þetta hefur afkoma ríkissjóðs verið jákvæð, hún verður jákvæð á komandi ári og í ágætu samræmi við það sem við höfum ákveðið og lagt línurnar með, bæði í fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Að þessu leyti er vert að hrósa hv. fjárlaganefnd og meiri hluta fjárlaganefndar fyrir að gæta að þessum atriðum, að við fylgjum því sem við höfum ákveðið, fylgjum þeirri stefnu sem mörkuð var í fjármálastefnunni og fjármálaáætluninni.

Þegar kemur að afkomu ríkisins, ríkissjóðs, er staða okkar, hvort heldur er skuldastaða eða afkoman, öfundsverð í hugum flestra þjóða, miklu betri en aðrar þjóðir þekkja, a.m.k. þær sem við berum okkur saman við. En það breytir ekki hinu, að sú útgjaldaaukning sem átt hefur sér stað undanfarin ár getur ekki haldið endalaust áfram, við munum fyrr eða síðar rekast á vegg. Og það er líka alveg ljóst að það mun reyna á komandi ári á afkomumarkmið sem við höfum sett og ég fullyrði að það er í fyrsta skipti sem raunverulega reynir á lög um opinber fjármál að þessu leyti. Ég hygg að það sé vert að við höfum það í huga.

Ég er einn af þeim sem hafa talið að við þurfum að fara að huga að því að innleiða nýja hugsun þegar kemur að ákvörðun um útgjöld og með hvaða hætti við skipuleggjum ríkisreksturinn. Við þurfum nefnilega að fara að straumlínulaga ríkið. Við þurfum að fara að viðurkenna að það er ekki bara skylda okkar í þessum þingsal að tryggja nægilega fjármuni til að reka sameiginlegt heilbrigðiskerfi og menntakerfi og byggja upp vegi, heldur verðum við um leið að tryggja að þeir fjármunir sem renna í þessa mikilvægu málaflokka og við erum sammála um séu nýttir skynsamlega. Við verðum líka að fara að standast þær freistingar að reyna að leysa allan vandann með því hreinlega að auka útgjöld. (ÓGunn: … skatta.) Já, það er alveg rétt, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, að það er alltaf hægt að hækka skatta þangað til skattar gefa ekki lengur neitt af sér. Menn hafa reynt það og rekist á vegg í þeim efnum. Það er nefnilega þannig í þessu eins og öllu öðru að það er hófsemdin sem er gullna reglan í skattheimtu sem og útgjöldum. Hófsemdin gefur af sér góðæri.

En við þurfum ekki bara að huga að því að nýta fjármunina, útgjöldin, sameiginlegu fjármunina okkar af skynsemi, heldur líka eignirnar sem við höfum bundið fjármuni í. Ég hef haldið því fram að ríkið, ríkissjóður, hafi bundið fjármuni í eignum og að þeir fjármunir nýtist ekki með sama hætti og þeir myndu gera ef þeir væru settir í aðrar sameiginlegar eignir. Þetta á við um t.d. að nýta eignir ríkisins sem eru bundnar í flugstöð eða í jörðum, mörgum fasteignum; nýta þá fjármuni frekar og umbreyta þeim m.a. í menntastofnanir og samgöngukerfi. Ég geri mér grein fyrir því að í þessum sal er hörð andstaða við það og þá hugmynd að hægt sé að umbreyta ákveðnum eignum ríkisins í aðrar eignir sem nýtast kannski landsmönnum með skynsamlegri og betri hætti.

Í þessu sambandi er líka vert að hafa í huga að við verðum að fara að marka fjárfestingarstefnu fyrir ríkið til lengri tíma. Á meðan við gerum það ekki er mjög erfitt að átta sig á því hvort fjárfestingarþörf okkar í mikilvægum samfélagslegum innviðum, hvort heldur er í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu eða í samgöngumálum, er raunveruleg. Langtímafjárfestingarstefna fyrir ríkið liggur ekki fyrir en það breytir ekki því að margir hafa reynt að meta hana, hver hún er, og við vitum að við erum þar í skuld.

Það er rétt sem hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði fyrr í dag, það eru kannski tvær tegundir skulda. Ég hygg að ég hafi átt orðastað hér fyrr í vetur við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson á þessum nótum. Það er rétt að það eru annars vegar fjármálalegar skuldir ríkisins en síðan eru líka aðrar skuldir sem eru fólgnar í því að við ræktuðum ekki fjárfestingar í samfélagslegum innviðum. Það hefur verið talið að fjárfestingarþörf hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, séu á næstu tíu árum að lágmarki 500 milljarðar, uppsöfnuð og ný fjárfesting. Að lágmarki. Ef þetta er rétt eru það 50 milljarðar á ári. Og ég held að það megi færa rök fyrir því að uppsöfnuð fjárfestingarþörf sé mest þegar kemur að heilbrigðiskerfinu og samgöngukerfinu.

Mér finnst rétt að vekja athygli á þessu. Mér finnst rétt að við hefjum þá umræðu að í tengslum við fjárlagagerð hvers árs, og ég tala nú ekki um fjármálaáætlun til fimm ára, séu gerðar ítarlegar fjárfestingaráætlanir, ekki einhver saldótala, heldur ítarlegar fjárfestingaráætlanir sem segja til um í hvað og af hverju.

Ég lít á það sem skyldu okkar þegar við tökum ákvörðun um útgjöld að tryggja að þeir fjármunir nýtist með eins hagkvæmum hætti og hægt er og að við fáum bestu þjónustu sem hægt er að veita fyrir þá fjármuni sem við ætlum að láta renna í viðkomandi þjónustu eða rekstur. Ég held að það sé nauðsynlegt að við gerum þetta áður en við t.d. veltum við því fyrir okkur hvort það eigi ekki bara að hækka skatta. Auðvelda svarið er að hækka skatta. Ég geri mér grein fyrir því að það er erfiðara fyrir okkur hér að fara ofan í ríkisreksturinn og reyna að tryggja að hann sé straumlínulagaður og eins hagkvæmur og hægt er. Það er erfiða aðferðin. Auðvelda aðferðin er að leggja til sirka 26 milljarða skattahækkun á komandi árum.

Þegar við lítum yfir síðustu ár verða skatttekjur ríkisins á komandi ári með tryggingagjaldi u.þ.b. 290 milljörðum meiri en fyrir fimm árum. Svo telja menn að það sé nauðsynlegt að hækka skatta enn frekar og afla enn frekari tekna. Það gera menn áður en þeir svara spurningunni: Hafa þeir fjármunir sem við höfum verið að taka ákvörðun um og aukið útgjöld um nýst með þeim hætti sem eðlilegt er og sanngjarnt að gera kröfu um? 290 milljarða aukning í skatttekjum jafngildir liðlega 800.000 kr. á hvern einasta Íslending. Það er tekjuauki ríkisins á komandi ári miðað við það sem var fyrir fimm árum, 2015 réttara sagt, það eru fimm ár á milli. Þessi gríðarlega tekjuaukning er talin merki um að ríkisstjórnin sýni af sér alveg sérstakt getuleysi í að afla tekna og að tekjustofnar ríkisins séu vannýttir. Ég held akkúrat að þeir séu blómstrandi og að það sé ástæðan fyrir því hve mikið tekjur hafa aukist.

Frú forseti. Ég sagði hér áðan að við yrðum að innleiða nýja hugsun. Þessi nýja hugsun í ríkisrekstrinum krefst þess að við sem kjörnir fulltrúar í nafni almennings gerum auknar kröfur til forstöðumanna ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja um að þeir séu með hagkvæman rekstur, veiti skilvirka og góða þjónustu. Markmiðið er alls ekki að draga úr þjónustunni. Markmiðið er akkúrat að auka hana og auka gæði. En um leið og við gerum þetta og um leið og við förum í það verkefni að marka fjárfestingarstefnu til langrar framtíðar er nauðsynlegt að við förum að huga að framtíðinni í öðrum efnum. Það er ljóst að okkar bíður að taka ákvarðanir sem sumar hverjar geta orðið erfiðar, ekki síst ef við látum reka á reiðanum.

Ég hef vakið athygli á því oftar en einu sinni í þessum ræðustól og annars staðar að við stöndum frammi fyrir breyttri lýðfræðilegri samsetningu þjóðarinnar og við getum sagt að einhverju leyti „óhagstæðari“. Hlutfall fólks sem er 67 ára og eldra af mannfjöldanum hækkar úr 12% í 19% árið 2040. Þá verða eldri borgarar orðnir 76.000. Árið 2060 verður þetta hlutfall 22% og fjöldi eldri borgara 97.000. Sex árum síðar verða eldri borgarar 114.000. Frá og með árinu 2053 mun samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar fólk á vinnualdri, þ.e. 20–67 ára, þurfa að framfleyta fleiri eldri en þeim sem eru yngri. Í fyrsta skipti í sögu landsins verða eldri borgarar sem eru utan vinnumarkaðar að óbreyttu fleiri en þeir sem eru undir tvítugu. Við sjáum sem sagt að hlutfallslega eru æ færri á vinnumarkaði. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að okkur hefur mistekist á undanförnum árum að glíma við nýgengi örorku. Við þurfum að viðurkenna að heilbrigðiskerfið og við hér höfum ekki náð þeim árangri að rétta fólki hjálparhönd, fólki sem glímir við geðræn vandamál eða stoðkerfisvandamál og getur ekki tekið þátt í vinnumarkaðnum af þeim sökum. Kerfið hefur sem sagt brugðist. Ef við förum ekki að fjárfesta í forvirkum aðgerðum mun nýgengi örorku halda áfram að aukast eins og við höfum séð á undanförnum árum. Ef þróunin verður með sama hætti og verið hefur og að teknu tilliti til þess að fæðingartíðni hefur verið að lækka, að teknu tilliti til breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og að teknu tilliti til þess að við breytum í engu eftirlaunaaldri, verða fleiri utan vinnumarkaðar árið 2060 en taka þátt í honum. Og til að gera þetta erfiðara eru það hins vegar ánægjuleg tíðindi að meðalævi okkar Íslendinga er stöðugt að lengjast og heilsan að batna. Frá 1970 hefur meðalævilengd karla lengst um 9,1 ár og hjá konum um 6,2. Við lifum lengur og eigum betra líf. Það er ánægjulegt, en í því eru áskoranir.

Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu er að þetta mun hafa áhrif á ríkissjóð á komandi árum og áratugum. Ef við tökum ekki ákvarðanir í dag, hvernig við ætlum að bregðast við?

Við stöndum frammi fyrir því og við verðum, og hjá því verður ekki komist, að hækka eftirlaunaaldur á næstu árum og það tiltölulega hratt. Ef minnið svíkur mig ekki var ákveðið árið 2016 að falla frá því að hækka eftirlaunaaldurinn upp í 70 ár á 24 árum. Ég gagnrýndi þá að það væri of skammt gengið. Ég taldi að það yrði að hækka eftirlaunaaldur upp í 70 ár á 12 árum. Það eru tvö ár liðin af þessum 12. Ég hygg raunar að við þurfum að hækka eftirlaunaaldurinn jafnvel enn meira á næstu 24–25 árum, líklegast upp í 72 eða 73 ár. Við þurfum hugsanlega að fara að velta því fyrir okkur að það sé sjálfvirkt endurmat þar sem tekið er tillit til ævilengdar og heilsu fólks þannig að starfsævin verði lengri, hlutfallið á milli þess tíma sem maður er á vinnumarkaði og utan vinnumarkaðar, í skóla, eða sem maður sem hefur lokið góðu ævistarfi og er sestur í helgan stein, verði að haldast nokkuð stöðugt á komandi áratugum. Ég hygg að þetta sé ákvörðun sem við komum okkur ekki hjá að taka. Ef við gerum það ekki kann það að leiða til gríðarlega mikillar útgjaldaaukningar á ríkissjóði á komandi árum.

Eins og ég vék að áðan stöndum við samhliða frammi fyrir því að við þurfum að fara að fjárfesta í forvörnum og baráttu við lífsstílstengda sjúkdóma. Ég hygg að það sé kannski fjárfesting frekar en útgjöld. Það er kannski arðsamasta fjárfestingin sem við getum lagt í.

Frú forseti. Þetta verkefni er að einhverju leyti kannski auðveldara en fyrir fimm, sex, sjö, átta árum, auðveldara að því leyti að staða ríkissjóðs er sterk, auðveldara vegna þess að við höfum tekið gríðarlega stór skref þegar kemur að útgjöldum til velferðarmála á síðustu árum. Það er ljóst að við höfum t.d. frá árinu 2010 stöðugt aukið útgjöld til velferðarmála, þá á ég við heilbrigðismál, félagsmál, húsnæðismál og tryggingamál, almannatryggingar, um 158 milljarða að raungildi. Bara fyrir þá fjárhæð væri hægt að reka alla framhaldsskóla landsins í fimm ár. Við erum þannig ágætlega í stakk búin. En það breytir ekki hinu, frú forseti, að verkefnið sem ég er að tala um hér er með þeim hætti að við getum ekki vikist undan því. Eftir því sem við drögum það lengur því erfiðara verður að taka ákvörðun.

Frú forseti. Ég held að flest af því sem ég ætlaði að ræða hér um sé komið. Rauði þráðurinn í því sem ég er að segja er að ekki er forsvaranlegt í mínum huga að ganga lengra í aukningu ríkisútgjalda að öðru óbreyttu. Nú er verkefnið á komandi árum og áratugum að huga að því að fara að nýta fjármunina betur og skynsamlegar en við höfum gert. Við þurfum að gera raunverulegar kröfur til allra þeirra sem fara með opinbera fjármuni og er treyst til þess að reka opinberar stofnanir sem eru okkur mikilvægar, hvort heldur það eru skólar eða heilbrigðisstofnanir, að fara með þá fjármuni af skynsemi og að við fáum þá þjónustu sem við ætlumst til að verði veitt.