149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:42]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst aðeins um það þegar ég sagði áðan, að á komandi árum myndi reyna á lögin um opinber fjármál, held ég að ég hafi tekið fram að ég væri að tala um afkomumarkmiðin að því leyti. Auðvitað hefur reynt á lögin um opinber fjármál frá því að þau tóku gildi en ég er að tala um að í fyrsta skipti muni reyna á þetta afkomumarkmið vegna þess að ég held að við séum komin á þá brún. Og við þurfum að vanda okkur.

Hvernig líður hv. þingmanni með fjárlögin? var spurt. Ja, heiðarlega svarið er: Ef einhver í þingsalnum heldur að fjárlagafrumvarpið liti svona út ef ég réði einn, að það liti út með þeim hætti sem það gerir, vita menn ekki fyrir hvað ég stend. Auðvitað er ýmislegt sem ég vil hafa með öðrum hætti, en það er þannig og það er nú það sem er kannski að mörgu leyti fallegt við þennan þingsal að við þurfum náttúrlega að taka tillit til ákveðinna sjónarmiða og skoðana. Við þurfum að miðla málum og ég hef reynt að gera það, taka tillit til ýmissa sjónarmiða sem eru réttmæt. Ég get kannski haft efasemdir um skynsemina, en þau eru réttmæt.

Áhersla ríkisstjórnarinnar er á velferðarmál. Það eru rök fyrir því vegna þess að eftir efnahagslegu áföllin sem við gengum í gegnum var gengið mjög nærri velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu, tryggingakerfinu o.s.frv. Sú endurreisn sem átt hefur sér stað undanfarin ár gengur vel og það sem meira er, (Forseti hringir.) haldið er áfram og bætt í betur og byrjað að byggja upp, hv. þingmaður.