149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:47]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni um að við þurfum að huga betur að nýsköpun í ríkisrekstri. Ég vil líka ganga lengra og segja: Heyrðu, við erum að samþykkja rafrænar þinglýsingar. Við erum að taka upp ný vinnubrögð í alls konar þjónustu ríkisins, síðan er verið að leggja á gjöld sem eiga að standa undir þjónustu, þ.e. þeir sem nýta sér hana, hvort heldur það er að skrá hlutafélag eða fá vegabréf o.s.frv. Ég held að við þurfum að fara að ræða það hvernig við tryggjum að almenningur fái að njóta aukins hagræðis í ríkisrekstrinum.

Þá kemur að öðru atriði, sem ég hefði kannski átt að eyða einhverjum tíma í áðan í ræðu minni, þ.e. að eitthvað skrýtið er við það að við skulum ræða eingöngu útgjöld í staðinn fyrir að ræða í samhengi útgjöldin og tekjufrumvörpin (Gripið fram í: Og markmiðin.) og markmiðin, hv. þingmaður, alveg kórrétt.

Mér finnst því á margan hátt vont að vera að slíta í sundur annars vegar fjárlagafrumvarpið, sem er útgjaldafrumvarp, og hins vegar þau tekjufrumvörp sem liggja fyrir. Kannski ætti það að vera öfugt. Við í efnahags- og viðskiptanefnd, félagar mínir hér í salnum sem sitja þar, erum á eftir, við eigum eftir að vinna þá vinnu. Og eitthvað er í land þó að einhver tekjufrumvörp hafi verið. Eitt af því sem er þó til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd er einmitt skattalegar aðgerðir til að ýta undir nýsköpun, (Forseti hringir.) ekki í ríkisrekstri, heldur í einkafyrirtækjum. Ég veit að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson mun styðja það mál heils hugar.