149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:49]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2019. Ég hef fylgst ágætlega með umræðunni í dag sem er um margt athyglisverð. Það er til að mynda athyglisvert hvað gagnrýnin á frumvarpið er gríðarlega misjöfn eftir því hvaðan hún kemur, þ.e. frá hvaða örmum eða flokkum stjórnarandstöðunnar hún kemur. Stjórnin er ýmist gagnrýnd fyrir að taka ekki nógu vel á í ýmsum málaflokkum eða fyrir að vera allt of eyðslusöm og eyða allt of miklu og sýna ekki nægilega mikið aðhald. Þetta er svona á ýmsa kanta og kannski ekki skrýtið í ljósi þess að ríkisstjórnin er óvenjuleg og við erum líka með óvenjulega stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnin er óvenjuleg í því tilliti að hana mynda flokkar sem í hefðbundnum íslenskum skilningi hefðu ekki þótt líklegir til þess að fara saman í eina ríkisstjórn, þ.e. spannar í rauninni allt litrófið í stjórnmálaflórunni, eða a.m.k. allt litrófið í hinni hefðbundnu stjórnmálaflóru, skulum við segja, og hins vegar er stjórnarandstaðan sem segja má að spanni einnig allt litrófið í stjórnmálaflórunni og kannski að einhverju leyti líka, ef maður getur talað um það, hið óhefðbundna litróf. Kemur það m.a. til af því að í stjórnarandstöðunni eru flokkar sem hafa ekki viljað skilgreina sig á hinu pólitíska litrófi og/eða þeir sem eru kannski enn þá að finna sig svolítið á þeim velli. Á þetta hefur verið mjög áhugavert að hlusta.

Herra forseti. Það eru nokkrar staðreyndir í þessum fjárlögum sem menn hafa jafnvel verið að reyna að komast hjá að ræða, hefur maður haft á tilfinningunni á köflum, t.d. hefur verið fleygt hér í þingsal að um einhvers konar niðurskurð sé að ræða í fjárlögunum, að verið sé að draga úr. Raunin er hins vegar sú að það er náttúrlega alls ekki þannig. Þessi fjárlög og fjárlög yfirstandandi árs eru umtalsvert hærri en fjárlög áranna á undan og munar þar einum 90 milljörðum. Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að ríkisstjórn væri að bæta svona verulega í. Segja má í þessu samhengi að sá flokkur sem hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, veitir forystu lofaði fyrir síðustu kosningar, eða, já, lofaði skulum við segja, við lofuðum einhvers staðar á bilinu 40 milljörðum plús/mínus í aukin útgjöld. Þessi ríkisstjórn er komin töluvert mikið fram yfir það og ríkisstjórnin er raunar komin fram yfir öll þau loforð sem allir flokkarnir lofuðu í auknum útgjöldum á kjörtímabilinu.

Nú má svo sem segja að ríkisstjórnin hafi að því leyti til verið lánsöm að ytri aðstæður, a.m.k. þegar við vorum að byrja, voru tiltölulega hagstæðar en það breytir því ekki að við erum að bæta verulega í ríkisreksturinn og raunaukningin, heildaraukningin í rauntölum, er ríflega 4% milli ára. Það er ekkert smotterí. Það eru gríðarlega miklir peningar og munu skipta verulega miklu máli fyrir íbúa landsins.

Það er eitt sem hefur angrað mig svolítið í sambandi við fjárlög og fjárlagagerð, það er þessi tiltölulega stífi rammi sem ríkisfjármálastefnan og fjármálaáætlunin setja við fjárlagagerðina. Það t.d. að gólfið í ríkisfjármálaáætlun, sem sagt við 1% afgang, skuli vera svona sem ég myndi kalla hart gerir það að verkum að erfiðara er fyrir ríkisstjórn á hverjum tíma að bregðast við, til að mynda eins og gerist núna, breytingum sem verða á þjóðhagsspá á milli gerðar fjárlagafrumvarpsins og 2. umr. Þetta er afar óþægilegt og ef maður hugsar það af einhverri skynsemi gerir þetta þá kröfu til ríkisstjórnar að ef hún ætlar að hafa eitthvert svigrúm til að bregðast við verður hún í raun að leggja fram fjárlagafrumvarp að hausti með sennilega einhvers staðar á bilinu 1,3–1,4% í afgang til að geta mætt breytingum sem kynnu að verða á þjóðhagsspá. Auðvitað gæti yfir sig bjartsýn ríkisstjórn alltaf spilað alveg við eitt prósentið, en til langs tíma litið væri það kannski ekki skynsamlegasti kosturinn, en þetta er eitthvað sem m.a. Vinstri græn bentu á þegar lögin um ríkisfjármál voru sett á sínum tíma, að það gæti orðið erfitt. Ef mig misminnir ekki hrapallega hefur sú umræða komið upp áður í sambandi við fjármálaáætlun og fjármálastefnu að skynsamlegra væri kannski að leyfa einhvers konar vikmörk í þeim tölum.

Það er nokkuð sem þingið ætti kannski að skoða því að eins og til að mynda núna þar sem lögð eru fram fjárlög með nánast sléttum 1% afgangi bjóða þau í rauninni ekki upp á neinar breytingar, a.m.k. ekki til hins lakara í þjóðhagsspánni.

En að sértækari málum í frumvarpinu. Það er verið að bæta verulega í heilbrigðismál og þetta eru önnur fjárlögin í röð þar sem það er gert. Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við er aukningin til málaflokksins heilbrigðismál sennilega rétt rúmlega 13% í það heila, þ.e. raunaukning. Þetta eru alveg gríðarlega miklir fjármunir og skipta okkur sem þjóð mjög miklu máli.

Eins og fleiri þingmenn hafa komið inn á í dag höfum við í kjölfar hrunsins dregist töluvert aftur úr í þessu og löngu tímabærar fjárfestingar í kerfinu höfðu dregist aftur úr. Við höfum ekki hafið nauðsynlegar framkvæmdir á Landspítalanum nema að litlu leyti og þannig mætti lengi telja. Þess sjást raunar merki á breytingartillögum hv. fjárlaganefndar, eins og t.d. í tækjakaupunum þar sem bætt er í til að mæta þörfum sjúkrahúsanna á landsbyggðinni, að við höfum verið of sein að taka við okkur, en ríkisstjórnin hefur þó reynt að bæta þar úr.

Annar þáttur sem við höfum dregist aftur úr, og er raunar sett inn í stjórnarsáttmálanum að við ætlum að breyta, er að greiðsluþátttaka sjúklinga hefur verið of mikil. Við síðustu fjárlög voru stigin fyrstu skrefin til að draga úr henni og við þessi fjárlög eru enn stigin skref í sömu átt til að tryggja að á þessu kjörtímabili verði greiðsluþátttaka sjúklinga á Íslandi sú sama eða sambærileg og hún er annars staðar á Norðurlöndunum. Það er afar mikilvægt.

Ríkisstjórnin ákveður, og fjárlaganefnd þar með, að þær upphæðir sem hafa verið í biðlistaátakinu undanfarið ár, þ.e. 840 milljónir, eru teknar inn í grunn fjárlaganna. Einhverjum kann að finnast þetta ekki stór upphæð í því samhengi, en þegar við lítum á hvað hægt er að gera fyrir þá peninga og hvað þetta getur skipt máli fyrir marga sjúklinga breytist myndin svolítið. Vegna þessara breytinga og ákvarðana munu hundruð einstaklinga fá aðgerðir fyrr en ella hefði verið og er þó ekki nóg að gert. Það mun taka einhvern tíma að vinda niður þá biðlista sem höfðu myndast á árabilinu 2008–2017 til að ná þeim markmiðum sem við höfum talað um að ná niður, sérstaklega fyrir kannski stærri bæklunaraðgerðir, að ná þeim niður í þrjá til fjóra mánuði. Á þeirri leið erum við og sú ákvörðun að fella þessa fjármuni inn í grunn fjárlagafrumvarpsins er merki um að ríkisstjórninni er alvara með þetta.

Áfram um heilbrigðismál sem snúa að hjúkrunarrýmunum. Eins og kemur fram á heimasíðu velferðarráðuneytisins í dag þar sem birtar eru upplýsingar um uppbyggingu hjúkrunarrýma á næsta ári er það því miður þannig að hluti þeirra rýma sem menn höfðu verið að vonast til að yrðu til á næsta ári verður það ekki af ýmsum ástæðum, m.a. vegna málaferla, og kannski er sérstaklega vert að nefna í því sambandi stækkun hjúkrunarheimilisins í Boðaþingi í Kópavogi. Það er mjög vond niðurstaða, því að það hjúkrunarheimilið hefði í rauninni getað farið af stað og eins og þingmönnum er vafalítið kunnugt um hefði það átt að vera komið af stað fyrir allnokkru og hefði í rauninni átt að klárast á næsta ári. Það mun ekki verða. Fyrir vikið eru fjármunir til reksturs hjúkrunarrýma, þ.e. frá því sem ætlað var, lækkaðir lítið eitt, en engu að síður er rekstrargrunnur hjúkrunarrýmanna leiðréttur. Ég vil trúa því að þetta sé bara byrjunin, ekki sé verið að ganga alla leið í því. Eins og segir í nefndaráliti hv. fjárlaganefndar, þ.e. meiri hlutans, er verið að bregðast við aukinni hjúkrunarþyngd. Hjúkrunarheimilin telja að gera þurfi meira og eins og ég nefndi áðan er það nefnt í stjórnarsáttmálanum að þetta sé eitt af þeim verkum sem þurfi að fara í.

Mér er kunnugt um að sú vinna er þegar farin af stað í heilbrigðisráðuneytinu, þ.e. skoðun á þessum málum, og það er mikilvægt. Engu að síður verða yfir 160 ný hjúkrunarrými tekin í gagnið á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári. Eins og margir þingmenn vita er ég búinn að vera í þessum bransa í 17 ár eins og þar stendur, þ.e. í þeim geira sem heitir öldrunarþjónusta á Íslandi. Í fljótu bragði man ég ekki eftir mörgum árum né nokkru þar sem jafn mörg ný hjúkrunarrými voru tekin í gagnið á einu ári. Það er vel. En þetta er bara höfuðborgarsvæðið. Eins og kemur fram á vef velferðarráðuneytisins eru líka rými fyrirsjáanleg úti á landi eða annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Þar er líka fjölgun sem kemur þá á næsta ári og þarnæsta og mun vafalítið bæta stöðuna.

Eins og hv. þingmenn þekkja hefur það nokkuð verið í umræðunni að undanförnu að biðlistar hafi lengst úr 110 eða 111 dögum í 120 daga á höfuðborgarsvæðinu eða þar um bil. Það er of langur tími, sérstaklega þegar haft er í huga að stór hluti þessa biðtíma í seinni tíð er á sjúkrahúsum, sem er afar óheppilegur staður fyrir eldra fólk sem hefur lokið meðferð til að bíða. Aðstæður á sjúkrahúsum eru, eins og þingmönnum ætti að vera kunnugt um, náttúrlega ekki neinar heimilisaðstæður og við eigum ekki að sætta okkur við að gamalt fólk þurfi að bíða mánuðum saman inni á sjúkrahúsum eftir úrræðum.

Það leiðir mig hins vegar að öðru, en þó undir sama málaflokki, og það er hvernig við hugsum framtíðina í þessum málaflokki. Eins og kom fram í máli hv. þm. Óla Björns Kárasonar áðan er fyrirsjáanleg veruleg fjölgun í hópi aldraðra á næstu 30 árum. Ef við höldum áfram með sama módel í öldrunarþjónustu á næstu 30 árum, miðum við að eldri einstaklingar sem þurfa þjónustu að jafnaði fari inn á hjúkrunarheimili á sama aldri og þeir gera í dag og í sama mæli og þeir gera í dag, munum við á næstu 30 árum þurfa að byggja 55 ný hjúkrunarheimili sem taka 100 íbúa hvert. Það mun kosta á annað hundrað milljarða á ári að reka þau, þ.e. þessi breyting ein myndi krefjast þreföldunar á heildarframlagi til þjónustunnar innan heilbrigðiskerfisins. Það er engin smáupphæð. Við hljótum að sjá það, hv. þingmenn, að ef við veldum að fara þá leið værum við sennilegast ekki bara að fara illa með opinbert fé, heldur værum við líka að sigla á móti þeim straumi sem eldri íbúar landsins hafa verið að reyna að sigla, þ.e. að minnka áhersluna á stofnanaþjónustu og auka áhersluna á þjónustu heima. Það væri að mínu viti afar sérkennilegt ef við veldum að halda áfram í sama módelinu. Ég vona að í nýrri heilbrigðisstefnu verði a.m.k. einhverjar vangaveltur og vonandi ákvarðanir um að taka nýjan kúrs í þessum efnum.

Nokkrir hv. þingmenn hafa þegar nefnt í ræðum sínum í dag að með endurhæfingu og endurhæfingarþjónustu fyrir eldra fólk og raunar yngra einnig hafi tekist að minnka þörfina á annarri þjónustu. Það er frábært. Það er eitt af þeim úrræðum sem geta skipt máli. Með því að auka framlög til dagþjálfunar, dagdvalar, eða leggja meiri áherslu á þann þátt, gætum við líklega einnig haft veruleg áhrif á þörfina fyrir hjúkrunarrými og með því að fjölga endurhæfingarúrræðum fyrir eldra fólk væri það líka hægt. Allt þetta kostar eitthvað. En það er algerlega ljóst að kostnaðarmódel sem við erum að vinna með í dag mun ekki virka fyrir okkur eftir 30 ár. Það mun ekki gera það. Við getum ekki haldið áfram á þeirri braut ef við viljum halda áfram að sinna öllum þeim þáttum velferðarkerfisins sem við sinnum í dag.

Það er ýmislegt annað sem núverandi ríkisstjórn, þessi óvenjulega ríkisstjórn eins og ég nefndi í upphafi, hefur áorkað frá því að hún byrjaði. Hún hefur til að mynda bætt verulega í atvinnuleysisbætur. Hún hefur lofað, eins og komið hefur fram í máli margra þingmanna, að hefja breytingar á almannatryggingakerfinu. Á þessu ári var upprunalega gert ráð fyrir að þeir 4 milljarðar myndu nýtast sem voru í upprunalegu útgáfunni af fjárlagafrumvarpinu. Því miður hefur hins vegar komið í ljós að þær kerfisbreytingar sem búist var við að gætu tekið gildi í upphafi ársins munu ekki verða tilbúnar og því beinlínis óábyrgt að gera ráð fyrir að allir fjármunirnir myndu nýtast strax á næsta ári.

Hins vegar liggur fyrir, og mikilvægt er að það komi fram, að þegar kerfisbreytingarnar liggja fyrir mun ríkisstjórnin fjármagna þær að fullu. Það má ekki vera neinn misskilningur í því. Það er líka mikilvægt að halda því til haga að ríkisstjórnin hefur frá því að hún tók við völdum aukið framlög til félagsmála um ríflega 20%. Nú kunna einhverjir þingmenn að segja: Ja, það var nú auðvelt að gera það, búið var að svelta málaflokkinn svo lengi. En engu að síður eru þarna verulegar upphæðir og verulegar úrbætur. Eins og kemur fram í fjármálaáætlun, sem þingmenn kannast vafalítið við, er gert ráð fyrir að halda áfram á sömu braut.

Það mætti nefna fleiri málaflokka, t.d. samgöngumál og umhverfismál. Þar er verið að bæta verulega í. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur m.a. orðað það svo að samgöngumál séu í rauninni heilbrigðismál og þau eru það að vissu leyti, sérstaklega þegar við hugsum til þess að mjög miklar breytingar eru að verða á heilbrigðiskerfinu sem krefjast þess beinlínis að við getum tryggt það á hverjum tíma að íbúar landsins komist um langan veg með öruggum hætti á sjúkrahús, sem er kannski ekki endilega í næsta nágrenni við þá. Þá þarf vegakerfið og samgöngurnar að vera í lagi.

Eins og ég kom inn á í ræðu minni eru margir góðir þættir undir í frumvarpi þessu. Og jafnvel þó að ríkisstjórnin hafi nú þegar komið fram með aukningu til ýmissa málaflokka sem eru langt umfram þau kosningaloforð í fjármunum talið, sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu fyrir kosningar, er verkefninu engan veginn lokið. Ríkisstjórnin mun halda áfram að styrkja stoðir velferðarkerfisins. Hún mun halda áfram að styrkja innviðina í landinu og hún mun halda áfram á þeirri braut sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum, að tryggja að almannatryggingakerfið þjóni þeim tilgangi sem það þarf að gera til þess að allir geti notið sín í samfélaginu.

Ég ætla ekki að hafa orð mín miklu fleiri við umræðuna, en vil að lokum þakka hv. fjárlaganefnd fyrir ljómandi góða vinnu, bæði meiri hlutanum og minni hlutanum, því að ábendingar frá minni hlutanum eru vissulega mikilsverðar. Þó að við séum ekki endilega nákvæmlega sammála þeim öllum er afar mikilvægt að geta átt þetta samtal og rætt um kosti og galla fjárlagafrumvarpsins og náð vonandi lendingu þar.