149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í upphafi þessa kjörtímabils setur ríkisstjórn sér fjármálastefnu sem á að gilda allt kjörtímabilið og sú fjármálastefna er síðan grunnurinn undir fjármálaáætlun og fjárlagafrumvörp. Ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður væri að gagnrýna þá fjármálastefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett sér og stjórnarmeirihlutinn hefur samþykkt með fjármálareglu um ákveðið hlutfall af vergri landsframleiðslu sem á að vera afgangur af ríkissjóði.

Ég vil fyrst spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að hann hafi einmitt verið að gagnrýna þá fjármálareglu sem hann samþykkti sjálfur í upphafi kjörtímabils, sem ætti að vera grunnur undir bæði fjármálaáætlun og fjármálastefnu.

Sú sem hér stendur var ekki ánægð með þá fjármálareglu og greiddi atkvæði gegn henni þegar við vorum að fjalla um frumvarp um opinber fjármál. Í atkvæðaskýringum við afgreiðslu frumvarpsins sögðum við í Samfylkingunni að um leið og við kæmumst hér að völdum myndum við gera breytingar á lögum um opinber fjármál og taka út fjármálareglu í lögunum. Hins vegar væri auðvitað eðlilegt að hver ríkisstjórn gæti sett sér fjármálareglu, en það ætti ekki að vera skrifað inn í lög.

Ég vil spyrja hvort hv. þingmaður og Vinstrihreyfingin – grænt framboð í því samstarfi hafi hugsað sér að leggja fram tillögu um að breyta (Forseti hringir.) lögum um opinber fjármál og taka út fjármálaregluna.