149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:22]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur spurninguna. Ég held að ef gólfið væri mjúkt, eins og ég orðaði það áðan, hefði náttúrlega verið langeðlilegast að setja fram fjárlög á miðgildi gólfsins til að geta brugðist við því t.d. ef hagspáin versnaði, að þurfa þá ekki að grípa til þess að færa gólfið enn þá neðar heldur geta haldið því á sama stað, og hv. þingmaður áttar sig væntanlega á því. Í því tilliti hefði til að mynda verið hægt að bregðast við með því að halda öllum útgjöldum nánast í sömu tölum, alla vega eins og staðan er í dag.

Varðandi það sem ég býst við að hv. þingmaður sé að fiska eftir, hvort þetta hefði til að mynda átt við um breytinguna sem er á framlögum vegna fyrirhugaðra breytinga á grundvelli örorkulífeyris, veit hv. þingmaður það alveg eins og ég að formið á þeim breytingum liggur ekki fyrir, það gerir það ekki. Sú nefnd er því miður enn að störfum. Við verðum því núna, við skulum segja sem ábyrgt stjórnvald, að bíða eftir því að þær breytingar líti dagsins ljós. Ég held þess vegna að það sé varlega áætlað hjá hv. fjárlaganefnd að gera þá breytingu sem hún þó gerir á frumvarpinu, en ítreka það sem ég sagði áðan að þegar breytingarnar líta dagsins ljós verða þær fullfjármagnaðar. Því hefur ríkisstjórnin lofað og við það mun hún standa.