149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að fá trúlega að ljúka þessari umræðu í dag, með tímamótaræðu reikna ég með. Það er alltaf svolítið sérstakt þegar rædd eru svo mikilvæg mál sem fjárlög næsta árs að vera að tala inn í nóttina. En svona er það, einhver verður að vera síðastur og þá verður maður kannski fyrstur einhvern tímann ef einhver sanngirni er í lífinu.

Við ræðum hér fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019. Það er af ýmsu að taka. Við sem samfélag erum sem betur fer á góðum stað, efnahagur þjóðarinnar er góður og við höfum kannski á mörgum sviðum verið að takast á við ákveðin velmegunarvandamál. Við sjáum fram á eins og hagspár sýna að það dragi úr þessum mikla efnahagsvexti sem verið hefur. Við erum samt langt frá því að vera á slæmum stað, en við þurfum að stilla fjárlagafrumvarp hverju sinni inn á þær spár sem gerðar eru. Það verður þó að viðurkennast líka að þær spár sem hafa verið gerðar í gegnum árin hafa ekki alltaf gengið eftir á hvorn veginn sem þær eru. En það verður að stíga varlega til jarðar þegar almannafé er undir og við höfum brennt okkur illa á að það er ekki gæfulegt að fara óvarlega í fjármálum eins og gerðist hjá fjármálafyrirtækjum þjóðarinnar fyrir aðeins tíu árum.

Ég get alveg verið sátt við þessi fjárlög eins og þau liggja fyrir. Þau endurspegla að á bak við þau eru þrír flokkar sem eru með ólíkar stefnur í mörgum málum, en samt liggja stefnur þeirra líka saman í ýmsum málaflokkum. Það hefur tekist ágætlega að tvinna þetta saman, sýnist mér. Þegar við horfum fram á að það sé í raun 4% aukning á fjárlögum á milli ára hljótum við að vera að auka í innviðauppbyggingu og til þeirra málaflokka sem hafa orðið fyrir niðurskurði eftir hrun og uppsöfnuðum vanda. Þörfin hefur verið víða eins og við þekkjum. Það er því mjög ánægjulegt að sjá fram á að við séum að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl. Það vita allir að það er alltaf hægt að gera enn betur. Við gerum það með því að hafa fjármálastefnu og fjármálaáætlun þar sem við höldum áfram að byggja ofan á það sem við leggjum grunn að í þessum stóru málaflokkum, hvort sem það eru heilbrigðismál, samgöngumál, velferðarmál heilt yfir, menntamál og svo mætti endalaust áfram telja.

Ég vil fyrst nefna heilbrigðismálin. Þau hafa verið einn af þessum stóru málaflokkum sem taka stærstan hluta af skatttekjum þjóðarinnar. Sá málaflokkur á eftir að verða stærri og stærri þar sem þjóðin er að eldast og við gerum þá kröfu að við séum í fremstu röð með þjónustu gagnvart þjóðfélagsþegnum okkar og í fremstu röð varðandi aðgengi að þjónustunni og með góðan búnað.

Framlög til heilbrigðismála eru aukin um tæpa 15 milljarða. Það er mjög ánægjulegt að sjá það og að það sé ekki eingöngu höfuðborgarmiðað heldur nýtur landsbyggðin þar góðs af. Síðast hér á milli 1. og 2. umr. bættust við 200 milljónir til að kaupa tækjabúnað, myndgreiningartæki, fyrir heilbrigðisstofnanir vítt og breitt um landið. Það hefur líka verið uppbygging í hjúkrunarrýmum. 200 hjúkrunarrými bætast við á næstu tveimur árum. Það er mjög ánægjulegt. Það hefur verið uppsöfnuð þörf þar eins og víða og við höldum þeirri uppbyggingu áfram.

Það hefur komið fram að á milli 1. og 2. umr. hefur dregist eitthvað saman í framlögum. Það hefur þá skýringu að þær áætlanir sem voru um uppbyggingu á ákveðnum stöðum hafa breyst og þær dragast eitthvað. En áfram skal haldið af fullum krafti með það verkefni að fjölga hjúkrunarrýmum. Framlög til reksturs hjúkrunarrýma eru aukin um tæpar 1.300 milljónir frá fjárlögum 2018. Þetta eru allt upphæðir og tölur sem skipta gífurlegu máli og sýna á hvaða vegferð við erum. Við leggjum áherslu á að spýta verulega í þessa málaflokka þar sem þörf er fyrir og hefur því miður verið uppsafnaður vandi. Nú er komið að því að við sinnum þessum málaflokki af fullum heilindum og krafti.

Ég get nefnt líka málaflokka eins og málefni öryrkja og málefni fatlaðs fólks. Þetta eru önnur fjárlög þar sem framlög til öryrkja eru komin í 10 milljarða. Það er mjög ánægjulegt. En vissulega eru það vonbrigði að ekki hafi tekist að klára þær kerfisbreytingar sem hefur verið unnið að svo hægt væri að halda sig við þá áætlun að setja 4 milljarða á næsta ári aukalega til þess að styrkja enn frekar stöðu örorkulífeyrisþega í landinu þar sem er mjög mikil uppsöfnuð þörf. Við vitum að stór hópur öryrkja er staddur á vondum stað og bíður eftir því að gerðar verði lagabreytingar og tekið á þeim málum sem vitað er að þarf að taka á, t.d. króna á móti krónu skerðingin sem allir flokkar hafa viljað vinna að. Starfshópur hefur verið að störfum þar sem þeir aðilar sem best þekkja til mála, fulltrúar öryrkja og fagaðilar á þessu sviði af hálfu ríkisins, vinna að því að nýta þá fjármuni sem best þeim öryrkjum til handa þar sem þörfin er mest og nýta þá þannig að menn geti verið sáttir við það til lengri tíma hvernig þeim sé ráðstafað. En við skulum ekki láta fallast hendur því að fjármunirnir eru þar til staðar og þeir fara strax í vinnu fyrir öryrkja þegar niðurstaða fæst í þeim málum sem unnið er að.

Það má nefna Landspítalann sem lengi hefur verið beðið eftir að hefjist bygging á. Það var tekin skóflustunga í haust. Það er uppbygging upp á 4,7 milljarða á árinu 2019. Það er sama með það verkefni, það ýtist eitthvað lengra fram í tímann vegna þess að framkvæmdir eru ekki algjörlega tilbúnar fyrir næsta verk og þá fjármuni sem þar eru til staðar. Þó er engin hætta á öðru en að staðið verði við þær áætlanir þegar því er lokið. Og áfram er gert ráð fyrir því að meðferðarkjarninn verði tilbúinn árið 2024. Það er fyrir öllu.

Aðeins um menntamál á landsbyggðinni. Það er verið að auka framlag á hvern nemanda í framhaldsskóla um 180.000 kr., en framhaldsskólarnir hafa margir hverjir átt við ákveðna erfiðleika að stríða. Það verður að halda áfram að bæta stöðu þeirra sem eru enn þá að reyna að vinna sig upp úr uppsöfnuðum vanda. En það er líka mjög ánægjulegt að við erum komin með fjölbreyttari flóru. Í haust fór af stað lýðháskóli á Flateyri og á Seyðisfirði hefur verið starfandi lýðháskóli í nokkur ár. Núna á fjárlögum er verið að fjármagna báða þessa lýðháskóla sem vonir eru bundnar við að verði til að auka framboð á fjölbreyttri menntun og styrkja þessa staði sem þar eru, Flateyri og Seyðisfjörð, og auka möguleika ungs fólks á að fara í nám sem er ekki hefðbundið en ýtir undir sköpunarkraftinn. Við þurfum svo í framtíðinni að treysta þessa skóla í sessi og eins og ég skil það er byrjað á því að vinna að slíkri lagaumgjörð.

Þessi ríkisstjórn hefur líka sett samgöngumál á oddinn. Heildarútgjöld til samgöngumála eru um 40 milljarðar. Það er verið að auka útgjöld til samgöngumála um tæp 14%. Þetta er ofan í 10% aukningu á fyrstu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar, svo að við erum á góðri leið, þó að ég viðurkenni alveg að ég hefði viljað sjá enn þá meiri fjármuni í samgönguþættinum. Það er svo víða uppsafnaður vandi sem hefur ekki fengið fjármuni síðustu árin og dregist og dregist, bæði út af hruninu en forgangsröðunin hefur líka, því miður, ekki alltaf verið rétt af hálfu stjórnvalda hverju sinni. Það eru vegir eins og á sunnanverðum Vestfjörðum, í Gufudalssveitinni og á Ströndum, ég nefni Veiðileysuháls og Skógarstrandarveg á Snæfellsnesi, uppsveitir Borgarfjarðar, svo ég sé nú stödd í mínu kjördæmi og láti aðra um að telja upp þá staði sem eftir eru annars staðar á landinu. Allt eru þetta vegir sem hefði átt að vera búið að byggja upp og malbika fyrir 30 árum. Þetta er svartur blettur á þjóðvegakerfi landsins og fyrir það fólk sem býr á þessum svæðum er óásættanlegt annað en að reynt sé að hraða framkvæmdum þarna sem mest. Hvað sem kemur út úr því að leggja á einhverja vegtolla til að flýta framkvæmdum þar sem mest umferð er, hvað sem kemur út úr því dæmi öllu, vara ég við að það verði á kostnað þessara svæða sem þarna standa eftir, að flýtiframkvæmdir bitni á þeim stöðum þar sem ekki er hægt að sýna fram á gífurlega mikla umferð. Þarna býr fólk sem á sama rétt og aðrir á að komast á milli staða, til og frá heimili, sækja heilbrigðisþjónustu og sinna atvinnu, það sækir þjónustu um langan veg og þarf að hafa almennilega vegi til að fara um.

Þá vil ég nefna eitt sem er nýbúið að fjalla um, það er Vatnsnesvegurinn. Börn á því svæði, í Húnaþingi vestra, þurfa að hristast í klukkutíma á dag á holóttum vegum til og frá skóla og eru nánast sjóveik þegar þau koma í skólann að morgni til. Það var fjölmennur íbúafundur með samgönguráðherra til að fara yfir þessi mál á dögunum. Það er ekki hægt að bjóða upp á það að skólabörn þurfi að hristast á hálfófærum vegum til og frá í langan tíma upp á hvern einasta dag.

Það er verið að spýta í þennan málaflokk og þar hefði mátt gera enn betur. Við sjáum hvað setur með það í framhaldinu, það er líka ansi dýrt að vera með svo mikla fjárfestingu sem Dýrafjarðargöngin eru, þau séu kláruð en svo líði tvö, þrjú ár þangað til næsti áfangi um Dynjandisheiði hefjist. Þá er ekki farið vel með þá fjárfestingu sem þar liggur undir.

Allir vita að það er uppsafnaður vandi varðandi flugvelli og hafnir. En það er samt verið að bæta í þennan málaflokk, 14%, svo að viljinn er til staðar og við höldum bara áfram á þeirri leið. Samgöngur eru mjög mikil undirstaða undir byggð og möguleika á að atvinna byggist upp á viðkomandi svæðum, að allir landsmenn fái að njóta uppbyggingar eins og t.d. í ferðaþjónustu og að svæðin séu samkeppnishæf um fólk og fyrirtæki.

Samflokksmenn mínir hafa komið inn á umhverfismálin og farið vel yfir þau. Framlög til umhverfismála aukast á milli ára um 9% og sett er metnaðarfull áætlun í umhverfismálum. Í fyrsta skipti er farið í raunverulegt átak gegn plastmengun og þetta er í fyrsta skipti sem málaflokkurinn er fjármagnaður almennilega. Það er stórátak í skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Allt vigtar þetta þungt í loftslagsmálum og skiptir máli. Menn eru að græða, bæði í eiginlegum og óeðlilegum skilningi. Við græðum upp land og við sem samfélag græðum á endurheimt votlendis sem þýðir að við skilum inn í Parísarsamkomulagið hluta af okkar framlagi í loftslagsmálum.

Það er áframhaldandi uppbygging í innviðum fyrir orkuskipti í samgöngum. Þarna er mjög mikilvægt að þétta netið um allt land svo að allir hafi val um að hafa bíla með lægri rekstrarkostnaði. Það var mjög fróðlegur þáttur um þróun rafmagnsbíla nýverið í sjónvarpi allra landsmanna og við Íslendingar höfum alla burði til þess að vera fremst meðal þjóða í að hraða mjög uppbyggingu á innviðum svo að rafbílar verði raunhæfari kostur í notkun um allt land. Það er mikilvægt að verð á þeim lækki svo að venjulegt launafólk hafi efni á að eignast þessa bíla, sem eru umhverfisvænir og fylgir miklu lægri rekstrarkostnaður.

Varðandi sjávarútvegsmálin beinir fjárlaganefnd því til ríkisstjórnarinnar að fjalla ítarlega um áhrif veiðigjalda á byggðir landsins. Ég get svo sannarlega tekið undir það. Veiðigjöldin hafa verið til umfjöllunar í atvinnuveganefnd. Þar hefur komið fram að í veikari byggðum landsins eru miklar áhyggjur af áhrifum veiðigjalda á rekstrarmöguleika fyrirtækja og á samþjöppun í greininni. Það er mjög mikilvægt að þetta sé tekið mjög föstum tökum og skoðað í heildarsamhengi og það sé byggt undir að fjölbreytt flóra útgerða þrífist um landið, þetta safnist ekki allt á fárra hendur í stórum samstæðum útgerðarfélaga heldur hafi minni fyrirtæki möguleika á að byggja sig upp. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru burðarásar í fjölda byggðarlaga þar sem kemur aldrei til með að verða stórútgerð með stórum frystitogurum, uppsjávarskipum eða ísfiskstogurum. Sá tími er liðinn að slík skip séu í nær hverri höfn.

Þá bendir fjárlaganefnd á að bændur hafi ekki notið þeirra kjara sem margir aðrir þjóðfélagshópar hafa notið. Minni tollvernd sem skilar sér í lægra vöruverði er sótt í vasa bænda. Til lengri tíma hljótum við að velta því fyrir okkur hvort það sé sanngjarnt að íslenskir bændur dragist aftur úr öðrum hópum. Þetta er eitt af því sem er verið að skoða núna í starfshóp, að taka þann hluta út úr búvörusamningnum sem snýr að sauðfjárbændum og endurskoða hann með vilja sauðfjárbænda sjálfra. Ég bind vonir við að út úr því komi sú niðurstaða að við stöndum áfram vörð um öfluga sauðfjárrækt hér í landi og getum stýrt því þannig að við getum treyst því að það verði möguleiki á nýliðun í greininni og að þau svæði sem henta mjög vel til sauðfjárræktar haldi áfram að vera í búsetu og þau lönd í nýtingu því að matvælaframleiðsla er hverri þjóð gífurlega mikilvæg. Við þurfum að sjá lengra fram í tímann því að það skiptir okkur máli sem þjóð að við höfum í þessa fjölbreytni í matvælaframleiðslu, hvort sem það er í garðyrkju, nautgriparækt, sauðfjárrækt eða öðrum búskap, að við getum framleitt sem mest hér innan lands. Það er bæði til þess að styrkja byggðafestu vítt og breitt um landið og skapa fjölbreytni í atvinnu. Um 18.000 manns hafa með einum eða öðrum hætti atvinnu af landbúnaði í landinu svo að þetta er gífurlega mikilvæg grein sem er samt brothætt. Við sem samfélag verðum að sjá til þess að þessi grein geti þrifist áfram í eðlilegu rekstrarumhverfi og í sátt við neytendur. Þetta er líka umhverfismál því að það eru mörg vistspor sem fylgja því að flytja mikið af matvælum heimshorna á milli og geta ekki treyst á að stór hluti af innlendri matvælaframleiðslu mæti þörf innan lands.

Þá um byggðaáætlun og hvernig byggðaáætlun fléttast inn í fjárlögin. Ég fékk fyrir stuttu fréttir af því að það var verið að undirrita samning á milli landshlutasamtaka sveitarfélaga og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Þetta er samningur á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018–2024. Að þessu sinni voru settar 120 milljónir til sértækra verkefna í sóknaráætlun. Þar fékk styrk upp á 95 millj. kr. verkefni sem snýr að byggingu gagnavers á Blönduósi sem hefur lengi verið í kortunum. Það er mjög ánægjulegt að það verkefni sé að komast á það stig að við sjáum ekki fram á annað en að það verði að veruleika. Það mun styrkja þetta svæði mjög mikið því að lengi hefur verið kallað eftir því að fá einhverja iðnaðaruppbyggingu og fjölbreytni á svæðið og líka til þess að hægt sé að nýta þá orku sem er til staðar í Blönduvirkjun og að sú umframorka sem þar gæti verið verði nýtt til framtíðar og nýtist þeim svæðum sem næst eru þeirri virkjun. Það eru sem betur fer ánægjuleg tíðindi af landsbyggðinni á vakt þessarar ríkisstjórnar og er ekkert sjálfgefið, heldur er þessi ríkisstjórn með byggðamálin á sinni könnu og ætlar að gera góða hluti þar. Það skiptir svo miklu máli að við lítum á landið sem heild og gerum allt sem hægt er til að stuðla að öflugu mannlífi vítt og breitt um landið. Ég tel að þessi fjárlög sem slík séu jákvæð gagnvart landsbyggðinni og horfi þá í senn til heilbrigðismála, menntamála, velferðarmála og samgöngumála. Við erum þarna á réttri vegferð og munum halda áfram að bæta í.

Það eru aðgerðir í fjárlagafrumvarpinu sem eru til stuðnings tekjulágum fjölskyldum. Þar má nefna barnabætur, þær hækka um 16% á milli 2018 og 2019. Þar er gert ráð fyrir að hafa tvenn skerðingarmörk, ein fyrir tekjulágar fjölskyldur og önnur fyrir tekjuhærri fjölskyldur, þ.e. skerðingarnar verða meiri við hærri tekjur en lægri. Sem dæmi má taka að barnabætur til einstæðs foreldris með 300.000 kr. í mánaðartekjur og tvö börn, þar sem annað þeirra er yngra en sjö ára, munu hækka um rúmar 114.000 kr. á ári. Það munar um þetta þó að þetta sé lág framfærsla, 300.000 kr. á mánuði, það hrópar enginn húrra fyrir þeirri upphæð, en vonandi tekst verkalýðsforystunni með sínu fólki að halda áfram að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Þessi ríkisstjórn leikur líka stórt hlutverk í komandi kjarasamningum varðandi t.d. húsnæðismálin sem er stór þáttur í framfærslu allra fjölskyldna. Þar þarf að gera átak, bæði varðandi fyrstu kaup ungs fólks og framboð á leiguhúsnæði. Þar þarf að spýta í, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur líka úti um landsbyggðina þar sem er uppsöfnuð þörf. Þar þarf að vera hægt að bjóða upp á húsnæði þegar fólk leitar sér að vinnu og er tilbúið til þess að vinna hvar sem er á landinu, skoða möguleika til þess. Þetta helst í hendur við það að fólk geti haft möguleika á að vera færanlegt. Með þeirri tækni sem við búum við í dag, fjarvinnslu og möguleikum á að vinna oftar en ekki hvar sem er með sína tölvu, verðum við að mæta því að fólk hafi tækifæri til þess að fá inni og komast í húsnæði þegar það vill skipta um starfsvettvang og máta sig við landsbyggðina.

Svo má nefna persónuafsláttinn. Hann hækkar umfram neysluvísitölu. Með því að hækka persónuafslátt nýtist þessi breyting best þeim sem hafa lægstar tekjur.

Svo get ég líka nefnt að bætt er í úrræði hjá VIRK. Það skiptir líka máli. VIRK hefur sýnt fram á að þar eru gerðir mjög góðir hlutir í endurhæfingu. Þar er vinnusamningur við öryrkja upp á 250 milljónir svo að þar þurfi ekki að vísa neinum frá. Það hefur verið meiri aðsókn í þetta úrræði en gert var ráð fyrir og stefnt er að því í fjármálaáætlun að styrkja það enn frekar um 660 milljónir.

Þetta fjárlagafrumvarp leynir á sér. Þar er víða farið í ýmsa útgjaldaliði sem eru til góðs og skipta miklu máli fyrir viðkomandi málaflokka. Þó að það hafi kannski tekið alla umræðuna núna að það hafi þurft að bregðast við hagspá hef ég ekki svo miklar áhyggjur af því að það reynist sá viðsnúningur sem sumir vilja meina. Ég tel að með mátulegu aðhaldi og ef við styðjum við þá vaxtarbrodda sem eru í landinu og stöndum með þeim atvinnuvegum í landinu sem hafa verið að vaxa og dafna og skapa gjaldeyri eigum við að geta haldið áfram að byggja upp eðlilegan hagvöxt. Hagvöxtur er ekki alltaf endilega af hinu góða. Ef hann er eingöngu drifinn áfram af mikilli einkaneyslu er kannski ekki innstæða fyrir honum. Það þarf að byggja upp jafnt og þétt, hagvöxturinn þarf að vera drifinn áfram af raunframleiðsluaukningu og innstæðu fyrir hagvexti, að bæði útflutningur og innflutningur standist á, að þetta sé í jafnvægi. Þá eigum við, þessi fámenna þjóð, 350.000 manns, að geta búið hvort sem er öldruðum, öryrkjum, ungu fólki og þeim sem vilja koma til Íslands, flóttafólki eða þeim sem vilja koma yfir höfuð og búa á Íslandi og takast á við það sem við erum að gera hér hverju sinni, hvort sem það er í atvinnuuppbyggingu, menningu eða almennt í okkar samfélagi, að geta búið vel að okkar fólki og samfélaginu og komið í veg fyrir að ójöfnuður aukist eins og hann hefur því miður verið að gera í gegnum árin. Ég tel að við séum að snúa af þeirri braut. Við erum að vinna gegn ójöfnuði og munum halda því áfram.

Þessi ríkisstjórn hefur verið við völd í 11 mánuði og hefur lagt meira inn í uppbyggingu en reiknað var með í stefnuskrá allra þessara flokka, svo að við höfum verið að gera góða hluti. Þó að kröfurnar frá samfélaginu séu stundum ansi miklar, að allt eigi að gerast á stuttum tíma, er góður hagvöxtur jafnt og þétt það sem skiptir öllu máli, að við séum ekki að taka miklar dýfur. Þess vegna hefði verið gott að við hefðum haft í fjárlagafrumvarpinu einhverja sveiflujöfnun, að við værum ekki algjörlega bundin við það viðmið að vera undir 1% af vergri landsframleiðslu. Í samfélagi eins og Ísland er þar sem við búum við það efnahagsumhverfi að það eru eðlilegar náttúrulegar sveiflur í grundvallaratvinnuvegum verður að vera eitthvert borð fyrir báru til að mæta því hverju sinni. Þegar við greiðum bæði hratt niður skuldir og byggjum upp sameiginlegar eignir þjóðarinnar á að vera hægt að sýna einhvern sveigjanleika til að mæta því við gerð fjárlaga hverju sinni án þess að taka einhverja gífurlega áhættu í þeim efnum. Við Vinstri græn vildum sjá að þar væri einhver sveigjanleiki til staðar þegar lög um opinber fjármál voru afgreidd á sínum tíma og við vöruðum við því að við værum alveg negld við þetta 1%. Núna reynir í fyrsta skipti á lög um opinber fjármál. Síðan þessi lög voru samþykkt hafa verið gerð tvenn fjárlög. Í bæði skiptin var vetrarspá Hagstofunnar bjartsýnni en sumarspáin og af því leiðir að þetta er í fyrsta skipti sem við tökumst á við það að vera niðri við þetta svokallaða afkomugólf sem ákveðið er í ríkisfjármálaáætlun, sem sagt 1% af vergri landsframleiðslu.

Ég hef reynt að fara um víðan völl í þessari tímamótaræðu minni hér um miðnætti. Ég veit ekki hvort það séu örlögin, ég þarf að fara að skoða það aftur í tímann, alltaf þegar eitthvað er í gangi finnst mér sem ég haldi ræðu um miðnætti. Ekki er ég nein Öskubuska samt. En það er svona, það verður alltaf einhver að ljúka umræðunni. Og þó að salurinn sé ekki fullur af fólki sitja hér lykilmenn eins og formaður fjárlaganefndar sem hefur verið dolfallinn yfir minni ræðu, sýnist mér. Ég lofa engu um að ég taki aftur til máls eftir helgi, það kemur í ljós ef andinn kemur yfir mig.

Ég held að við megum öll vera mjög ánægð með þessi fjárlög og við höldum áfram að gera vel. Þau eru vel þess virði að vera stolt af og ánægð með að við séum á réttri leið.