149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:04]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þann sveigjanleika sem þingið hefur sýnt. Ég er ánægður að fá að taka þátt í umræðunni þar sem ég gat ekki verið viðstaddur 2. umr. um fjárlög síðastliðinn fimmtudag. Ég hef alltaf lagt áherslu á í öllum málum sem við vinnum að í félagsmálaráðuneytinu að sem best samráð sé við þingið og að hvenær sem er sé hægt að koma hingað til samtals og samráðs við þingmenn um þau mál sem við erum að vinna að.

Ég fylgdist með 2. umr. fjárlaga á fimmtudaginn þar sem m.a. voru ræddar þær breytingartillögur sem lagðar eru til við 2. umr. Ég skynjaði að það væri mikill vilji þingmanna að fá að eiga orðastað við félagsmálaráðherra um þau mál og þess vegna fagna ég því að fá að taka þátt í umræðunni í dag.

Það er kannski fyrst að segja að gríðarleg aukning er til málaflokksins á milli ára. Ef fjárlagafrumvarpið nær fram að ganga, jafnvel með þeim breytingartillögum sem lagðar eru til við frumvarpið við 2. umr., er veruleg aukning til málaflokksins á mjög mörgum sviðum og það er gríðarlega mikilvægt. Fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir því að 8,5% raunaukning væri á útgjöldum til félagsmála, eða um 15,6 milljarðar, og jafnvel þótt dregið sé eilítið úr þeirri aukningu á næsta ári, vegna aðstæðna sem eiga sér eðlilegar skýringar, er engu að síður aukning til málaflokksins, raunaukning að frátaldri launa- og verðlagsþróun upp á yfir 14 milljarða. Það er gífurlega jákvætt og ánægjulegt, sérstaklega í ljósi þess að það er aukning aftur, vegna þess að á yfirstandandi ári er aukning til málaflokksins.

Það sem hefur hins vegar verið mest til umræðu í tengslum við þetta eru breytingar á almannatryggingakerfinu og staða örorkulífeyrisþega í því ljósi. Það er alveg ljóst að skiptar skoðanir eru um hvernig framtíðarkerfi almannatrygginga og starfsendurhæfingar sé best til þess fallið að bæta lífskjör og lífsgæði fólks sem hefur ekki fulla starfsgetu. Það hefur alltaf verið áhersla þessarar ríkisstjórnar að ná sem breiðastri sátt um þau mál og þess vegna var ákveðið, eins og margoft var rætt í þessum sal á vordögum 2018, að efna til mjög víðtæks samráðs við alla þá aðila sem að því koma, bæði hagsmunasamtök, Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp og aðra, auk aðila vinnumarkaðar og fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu í þinginu, til að ræða þetta framtíðarfyrirkomulag.

Það var síðan skipaður samráðshópur um nýtt framfærslukerfi almannatrygginga í apríl 2018 þar sem allir þeir aðilar eiga sæti. Sú vinna hefur tekið lengri tíma en ráðgert var og það hefur komið fram í samtali, m.a. við velferðarnefnd, að ráðgert var að frumvarp um starfsgetumat væri á dagskrá í október, sem náðist því miður ekki. En það er ekki að ástæðulausu sem sú vinna hefur tekið eilítið lengri tíma. Það er m.a. vegna þess að við höfum lagt áherslu á að hlusta á þær raddir sem eiga sæti í starfshópnum og lagt kapp á að finna leiðir til að taka tillit til þeirra aðstæðna sem flestir búa við, sem búa ekki við fulla starfsgetu. Þetta er breiður hópur fólks og því ekki ein einföld leið í boði.

Ég held að við getum sagt að með því að hlusta á bæði þá sem eiga sæti í þeim hópi og eins þau orð sem hafa komið fram í salnum um breytt framfærslukerfi og hvað þurfi að varast við breytingar sem miða að því að feta okkur í átt að starfsgetumati þá sjáum við vonandi til lands í því ferli. Ég bind miklar vonir við að það geti tekist þrátt fyrir að vinnan dragist um einhverja mánuði.

Eins og ég sagði liggur fyrir að innleiðing á nýju kerfi mun taka lengri tíma en áætlað var í upphafi. Eiginleg innleiðing á nýju mats- og framfærslukerfi mun ekki geta hafist fyrr en á árinu 2020, í stað 2019 eins og ráðgert var. Það hefur m.a. komið fram í óundirbúnum fyrirspurnum í þinginu sem ég hef svarað frá þingmönnum. Það er líka vegna þess að ákall hefur verið um það frá öllum aðilum að fara hægar í breytingarnar, undirbúa þær vel, svo að við gerum ekki sömu mistök og vitnað hefur verið til hjá nágrannaþjóðum okkar í því efni. Það er einnig til þess fallið að ná breiðari sátt um framtíðarfyrirkomulagið. Þegar við höfum svo skýrari mynd af því framtíðarkerfi sem við viljum sjá taka við verða stigin skref á árinu 2019 þannig að þeir fjármunir sem Alþingi og fjárlaganefnd gera ráð fyrir að fari í þennan málaflokk, sem verða að öllum líkindum samþykktir fyrir jól, nýtist þá með þeim hætti að það styðji við þá vegferð sem við erum á varðandi breytingar á starfsgetumati, breytingar sem eiga að styðja við nýja kerfið

Við höfum reynt að gera grófar áætlanir um hvaða skref sé raunhæft að taka miðað við að stefna nýju kerfi 2020 og gera þetta þar af leiðandi á aðeins lengri tíma. Ég held að of snemmt sé að fara mjög ítarlega út í þær útfærslur, áður en niðurstöður samráðshópsins sem þegar er starfandi um þau mál liggur fyrir. Mér finnst rétt röð að gera það þannig. Fyrst fáum við niðurstöðu úr vinnunni sem þegar er í gangi og liggur fyrir, og hefur dregist af ákveðnum ástæðum, og er vonandi að klárast. Í framhaldi af því, og það hefur verið sagt, getum við ráðist í skref sem styðja við þá vegferð. Það hefur til að mynda verið horft til þess að draga úr skerðingum og til annara athugasemda sem hafa komið fram um almannatryggingakerfið.

Að því sögðu vil ég segja um fjárlagafrumvarpið, af því að það virðist hafa verið einhver misskilningur í umræðunni, að frá því sem nú er á árinu 2018 er gert ráð fyrir því að 1. janúar 2019 verði 3,6% hækkun í þessum málaflokkum. Við erum þar að auki, ef þetta verður niðurstaða Alþingis, vegna þess að ég ítreka að það er Alþingi sem hefur fjárveitingavaldið, með 2,9 milljarða af nýju fjármagni til ráðstöfunar. Þetta er auðvitað aukning frá síðasta ári.

Það er þannig, svo að ég ítreki það aftur, að aukning er til málaflokksins á næsta ári sem nemur rúmlega 14 milljörðum kr. að raunaukningu. Það er gríðarlega mikilvægt. En við vitum líka, og það hef ég aldrei dregið neina fjöður yfir, að veita þarf fjármagn í auknum mæli til þeirra málaflokka sem standa höllustum fæti í íslensku samfélagi. Við þurfum þó einnig að huga að því hvernig við nýtum það fjármagn og leggja áherslu á að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir, hvort sem er gagnvart þeim sem detta út af vinnumarkaði, hvernig við styðjum betur við þá, eða gagnvart börnum og öðrum málaflokkum, þannig að við getum sem samfélag unnið að því í sameiningu að sem flestir geti tekið virkan þátt í íslensku samfélagi og leiðist ekki út af braut.

Ég legg áherslu á að eiga gott samstarf við þingið áfram og hlakka til að eiga skoðanaskipti á eftir. Til þess var þetta hugsað, þess vegna óskaði ég eftir því að fá að koma hér og halda ræðu, til að við gætum átt skoðanaskipti. Þau eru gríðarlega mikilvæg og ég hlakka til þeirra.