149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:13]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hingað og gera grein fyrir máli sínu. Það er alveg sama hvernig á það er litið, alveg sama hvernig við orðum það; hin stóra og blauta tuska framan í þennan hóp var sú að dregið var úr framlögum til þessa hóps, úr fyrirhuguðum breytingum um 1.000 milljónir milli umræðna. Það er nokkuð einstakt í þingsögunni, held ég, að ríkisstjórnin sjálf ákveði að hrekjast frá fjárlögum sem byggðu á mjög veikum forsendum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra beint, af því að nú er meiri hlutinn af öllum niðurskurðaraðgerðum milli umræðna á hans ráðuneyti: Var virkilega ekki hægt að finna breiðari bök en þennan hóp til að leggja byrðar á, á sama tíma og verið er að lækka veiðigjöld? Hefur hæstv. ráðherra aftur tekið upp umræður í ríkisstjórninni um að bregðast við með að leggja á hátekjuskatt? Er hann búinn að gefast upp á því eftir enn eina ferðina til útlanda?

Og svo langar mig að spyrja, vegna þess að það skiptir dálitlu máli: Er verið að nota þennan niðurskurð núna milli umræðna til að setja öryrkja í skrúfstykki? Setja þá í vanda í samstarfshópnum og hóta þeim að ef þeir sætti sig ekki við það sem að þeim er rétt fái þeir ekkert?