149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri ekki betur en að margt af því ágæta fólki sem situr í þessari nefnd, og Öryrkjabandalagið og fleiri, hafi einmitt gagnrýnt þennan niðurskurð milli umræðna. Af hverju var þá ekki hægt að halda þessum peningum inni og greiða þá afturvirkt þegar samningar nást, eins og hefur margoft verið gert þegar um ívilnandi aðgerðir er að ræða?

Þá væri líka fróðlegt að heyra viðhorf ráðherra til þess hvort afnám skerðinga, þótt ekki sé nema í skrefum, og á endanum að afnema krónu á móti krónu skerðinguna, myndi ekki vera það sem myndi virkilega ýta undir virkni þessa hóps á markaði.

Hæstv. ráðherra sker líka niður um 80 milljónir til húsnæðismála, í málaflokki sem mun vera afgerandi til þess að einhverjir fletir náist á samningum á vinnumarkaði. Það er náttúrlega ömurlegt metnaðarleysi. Ég vil spyrja ráðherra hvort hann ætli virkilega bara að boða starfshóp og kalla það brýnar aðgerðir.