149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:18]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef lagt áherslu á að það fjármagn sem samkomulag verður um að verði aukið til þessa málaflokks, örorkulífeyrisþega, á næsta ári — og við skulum ekki gleyma því að það er aukning frá yfirstandandi ári — verði nýtt til að styðja við þá hugsun sem kemur út úr þessari endurskoðun, að þar verði sérstaklega horft til skerðinga í því ljósi.

Það er eitt af því sem verður þar til umfjöllunar.

Varðandi húsnæðismálin og lækkun sem m.a. er til húsaleigubóta: Þar er almenn hagræðingarkrafa á milli umræðna en þó er hækkun milli ára. Í öllum tilfellum þar sem gagnrýni hefur verið höfð uppi, hvort sem er á húsnæðismál eða örorkulífeyrisþega, er boðuð hækkun á næsta ári.

Varðandi húsaleigubæturnar höfum við ekki náð að nýta það fjármagn sem áætlað hefur verið til þess liðar á hverju einasta ári vegna þess að annaðhvort þarf að gera efnislegar breytingar á uppbyggingu húsaleigubótanna eða kynna hana betur. (Forseti hringir.)

Það er m.a. til endurskoðunar núna í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins hvernig húsnæðisstuðningurinn nýtist betur þannig að ekki þurfi að skila honum í árslok.