149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:22]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp og leggja áherslu á að stuðningskerfi okkar til húsnæðismála þarfnist endurskoðunar. Sú vinna er í gangi undir forystu fjármálaráðuneytisins þar sem m.a. er verið að skoða vaxtabætur, húsaleigubætur og aðra þætti í húsnæðisstuðningi í góðu samráði við félagsmálaráðuneytið og aðila vinnumarkaðarins.

Eins og fram hefur komið á samráðsfundum á milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins, sem nú eru hafnir aftur eftir forystuskipti innan verkalýðshreyfingarinnar, eru húsnæðismálin sá þáttur sem menn vilja ræða hvað dýpst í tengslum við kjarasamninga, sem allir losna í lok þessa árs og í byrjun nýs árs. Þar á meðal er stuðningur við þá sem eru á fasteignamarkaði, bæði við þá sem eru á leigumarkaði og eins við þá sem undirbúa sín fyrstu kaup.

Gagnvart breytingum á vaxtabótakerfi, húsaleigustuðningi og öðru sem þar er undir er í gangi endurskoðunarvinna sem gert er ráð fyrir að geti orðið í samfloti við kjarasamningsgerð og í samstarfi við aðila vinnumarkaðar, enda hafa þeir kallað eftir því og ég held að það sé jákvætt að stjórnvöld eigi gott samstarf þar.

Sú gagnrýni sem hv. þingmaður kemur með er að mörgu leyti algerlega réttmæt. Það er þess vegna sem unnið er að endurskoðun á þeim flokkum.