149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:28]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka þetta tvíþætt. Í fyrsta lagi er með frumvarpinu, ef það verður samþykkt — Alþingi hefur lokaorðið varðandi fjárveitingar til allra málaflokka — gert ráð fyrir að bætur muni hækka um 3,6% frá og með 1. janúar. Það liggur algerlega ljóst fyrir að bætur munu hækka frá og með 1. janúar um 3,6%.

Síðan varðandi það hvernig við gerum breytingar á almannatryggingakerfinu er það algjörlega skýrt að við myndun þessarar ríkisstjórnar — og það var líka í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar — var ákveðið að unnið yrði að því að innleiða starfsgetumat til þess að koma í veg fyrir þá þróun sem verið hefur þar sem ungt fólk dettur út af vinnumarkaði, fólk sem við ættum alls ekki að missa út af vinnumarkaði. Það er þess vegna sem við erum að gera breytingar á þessu kerfi og þess vegna sem þetta hefur verið tengt saman.

Gert er ráð fyrir því, miðað við úttekt sem gerð var af KPMG og ég veit að hefur verið kynnt, alla vega fyrir fjárlaganefnd og örugglega líka fyrir hv. velferðarnefnd, að aukning til málaflokksins, ef ekkert væri að gert og við næðum ekki að gera breytingar, færi úr rúmlega 40 milljörðum í 90 milljarða bara á nokkrum árum. Það er gríðarlega alvarleg þróun.

Það gerir það að verkum að ef þetta heldur áfram með þessum hætti mun ríkissjóður hafa mjög lítið svigrúm til að auka framlög til þeirra hópa sem sannarlega þurfa á aukningu að halda. Þess vegna hefur ríkisstjórnin lagt ríka áherslu á að innleiða nýtt almannatryggingakerfi samhliða því að við innleiðum nýtt starfsendurhæfingarkerfi, sem miðar að því að aðstoða þetta fólk við að komast aftur út á vinnumarkaðinn.

Þess vegna tengist þetta saman með þessum hætti. Það er ekki til þess að setja skrúfstykki á neinn, enda höfum við hlustað (Forseti hringir.) á þær raddir sem komið hafa upp varðandi það sem varast þarf við breytt kerfi.