149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ókei, ég þakka þessi svör. Ef ég skil þetta rétt, og ráðherra getur bara sagt til ef ég skil þetta rangt, að þarna sé verið að tala um að ástæðan fyrir starfsgetumatinu áður — að áhyggjurnar séu þær að fólk fari ekki aftur út á vinnumarkaðinn og þar af leiðandi verði þetta allt of dýrt.

Þá er verið að segja að það eitt og sér að afnema skerðingar virki ekki nægilega mikið sem hvati fyrir fólk til að fara út á vinnumarkaðinn heldur þurfi líka að vera svipa, sem er þá mögulega starfsgetumatið.

Ég skil það alla vega þannig. Það eitt og sér að afnema þessar skerðingar mun skapa þann hvata sem til þarf til að fólk fari út á vinnumarkaðinn og mun skapa þá auknu velferð sem gerir það að verkum að fólk fer, mögulega og vonandi, af örorkubótum.

En ég spyr: Hefur hæstv. ráðherra sest niður með fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra og reiknað út aukinn heilbrigðiskostnað sem gæti orðið af því að halda öryrkjum áfram í fátæktargildrunni og með því að fresta nauðsynlegri innspýtingu í húsnæðismál til að skapa hér mannúðlegri húsnæðismarkað? (Forseti hringir.)

Er verið að skoða heildrænt hvaða víxlverkanir eru á milli kerfa við það að fresta þessum betrumbótum á réttindum örorkulífeyrisþega og fleiri?