149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir að vera með okkur í dag. Ég er á svipaðri línu og hv. þm. Halldóra Mogensen. Mig langar samt að byrja á því að nefna það að þeir 4 milljarðar sem áður höfðu verið eyrnamerktir og öryrkjar halda að hafi átt að vera fyrir þá og þess vegna sé verið að lækka aukna framfærslu til þeirra um 1 milljarð núna — það er rangt. Það stóð aldrei til af hæstv. ríkisstjórn að setja eina einustu krónu í að bæta kjör öryrkja, ekki eina krónu. Þau 3,4% sem nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, og á í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar að hækka í 3,6%, eru í rauninni bara aum leiðrétting, lögbundin leiðrétting sem á að koma til 1. janúar ár hvert. Það er engin kjarabót fyrir öryrkja. Svo einfalt er það.

Og til þess að bæta aðeins um betur. Það er til eitt starfsgetumat fyrir öryrkja og það er öryrkinn sjálfur. Með því að gefa honum kost á því að reyna að hífa sig upp úr þessari manngerðu, rammgerðu fátæktargildru sem er endalaust verið að festa hann betur og betur í af sitjandi stjórnvöldum hverju sinni, með því að leyfa honum að fara út að vinna og gefa honum almennilegan aðlögunartíma, munum við uppskera mörgum sinnum fleiri krónur í okkar sameiginlega ríkissjóð en okkur hefði nokkurn tíma órað fyrir. Fyrir utan það að við þyrftum ekki að horfa upp á þessa 90 milljarða sem hugsanlega verða settir í almannatryggingakerfið árið 2030, ef fram heldur sem horfir.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað er til ráða? Ætlið þið virkilega að halda áfram að hamast í þessu starfsgetumati með aðilum sem í rauninni hafa ekkert um örorku að segja? Enginn þeirra er öryrki, nota bene, svo ég sletti nú, ég biðst afsökunar á því. Enginn þeirra er öryrki. Við öryrkjar segjum: Ekkert um okkur án okkar.