149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:36]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland, fyrir hennar spurningar. Við höfum oft rætt þetta mál áður. Ég vil ítreka það að frá núgildandi fjárlögum er 3,6% aukning frá og með 1. janúar. Það koma líka 2,9 milljarðar nýir inn í kerfið sem munu sannarlega nýtast þessum hóp, 2.900 milljónir, en það á eftir að útfæra það til hvaða þátta innan almannatryggingakerfisins þessir fjármunir renna. Ætlunin er að það verði gert samhliða niðurstöðu úr þeirri vinnu sem þegar er í gangi.

Hv. þingmaður segir að það eigi ekki að gera breytingar á svona kerfum nema hafa menn við borðið sem þar um ræðir og vitnar til orðanna: Ekkert um okkur án okkar. Það er einmitt þess vegna sem við höfum unnið að þessu samráði sem hefur verið í gangi og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson hefur verið í þessari vinnu fyrir (Gripið fram í.)hönd stjórnarandstöðunnar. Þegar niðurstaða kemur úr þessu, sem vonandi verður bara á næstu vikum, þá munum við vinna áætlanir um það hvernig almannatryggingakerfið þarf að þróast.

Við erum að tala um af hverju þarf að gera þetta og ég þreytist ekki á að segja það. Mig langar að velta því upp hér að í síðustu viku var umræða um unga drengi sem falla út af vinnumarkaði og m.a. var verið að tala um að væri vandamál í samfélaginu. Ég er ekki viss um að það að afnema krónu á móti krónu dugi þessum einstaklingum til að koma þeim af stað aftur í samfélaginu og út í atvinnulífið o.s.frv. Það er þess vegna sem við erum að skoða hvernig starfsendurhæfingarkerfið og allir aðilar þar innan þurfa að vinna þéttar saman. Við verðum sem samfélag (Forseti hringir.) að ná fram breytingum sem miða að því að þessir einstaklingar komi út á vinnumarkaðinn og taki virkan þátt í atvinnulífinu. (Forseti hringir.) Vinnan sem er í gangi snýr m.a. að þeim hlutum.