149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:38]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þetta er alltaf svo fallegur söngur, ég átta mig eiginlega ekkert á því hvað hann var að segja fyrir utan það sem venjan er. 2.900 millj. kr., 2,9 milljarðar, hvernig nýtast þeir öryrkjum? Þeir nýtast öryrkjum til framfærslu ekki neitt, ekki ein einasta króna. Ef ég hef rangt eftir þá vil ég gjarnan spyrja stuttrar spurningar: Hvernig á það að nýtast hverjum öryrkja fyrir sig?

Í öðru lagi. Ungu drengirnir út að vinna, hvernig eigum við að vera viss um það? Við getum ekki verið viss um það, en við getum alveg verið örugg um að með því að gefa þeim kost á því að fara út að vinna og með því að reyna að efla það og gefa þeim möguleika á því að skerðast ekki króna á móti krónu, þá er sannarlega betur af stað farið en heima setið.

Í þriðja lagi er hafsjór á milli þess að tala um stýrihópinn sem hæstv. ráðherra er með, sem inniheldur engan einasta öryrkja, og þann hóp sem nú var smíðaður þverpólitískt í haust til þess að reyna að vinna úr þessu svokallaða starfsgetumati. Og kostnaðurinn, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) hann þarf ekki að vera neitt nema hagur fyrir okkur. Enginn kostnaður.