149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr góðum ásetningi hæstv. ráðherra í þessum mikilvæga málaflokki en ég verð að viðurkenna að ég er orðinn dálítið áttavilltur í yfirlýsingum ráðherra í þeim málum. Frá því að við hófum umræðu um fjármálaáætlun í vor hefur staðið til að setja 4 milljarða í einhverja breytingu á örorkulífeyriskerfinu. Þetta eitthvað, sem ekki var hægt að útskýra nánar hvað væri eða hvað myndi kosta, kom svo aftur inn í fjárlagaumræðuna í haust sem 4 milljarðar en áfram í eitthvað ótilgreint sem kæmi mögulega til framkvæmda einhvern tímann á næsta ári. Núna er búið að skera þetta eitthvað niður í 2,9 milljarða, sem áfram á að koma til framkvæmdar einhvern tímann á næsta ári, en enn er ekki hægt að svara neinu til um hvað það eigi að vera eða hvernig eigi að útfæra það. Ég veit að þetta stenst ekki neitt sérstaklega vel vinnubrögð okkar í lögum um opinber fjármál, að við höfum skýrt skilgreint í hvað áætluð útgjöld ríkisins á næsta ári fara. Þess vegna finnst mér blasa við að hæstv. ráðherra hafi einfaldlega verið skorinn niður með þessa 4 milljarða, af því að hann vissi ekki í hvað þeir ættu að fara.

Ég spyr hvort ekki hefði verið í lófa lagið að aðgreina þetta tvennt og segja einfaldlega: Hefjumst handa við að afnema krónu á móti krónu skerðinguna. Það er hægt að stíga fyrsta skrefið fyrir þá 4 milljarða sem áformaðir voru í þessar breytingar. Svo er hægt að tvinna það saman við áformaðar kerfisbreytingar þegar þær liggja fyrir og eru útfærðar. Við hljótum auðvitað að sýna þolinmæði gagnvart því.

Vissulega stóð til að við yrðum með frumvarp í höndunum í október en það liggur fyrir í svörum hæstv. ráðherra að þeirri vinnu er ekki lokið þannig að það er allt eins líklegt að við fáum ekki slíkt frumvarp í hendurnar fyrr en annað haust.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Af hverju (Forseti hringir.) í ósköpunum er ekki einfaldlega hægt að einfalda verkefnið og hefjast handa við að afnema krónu á móti krónu skerðingu?