149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:03]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni velferðarnefndar fyrir ræðuna, sem var um margt athyglisverð og ég er sammála mörgu. En mig langar að koma aðeins betur inn á eitt og annað.

Við erum náttúrlega með aukningu til fjárlaga fyrir næsta ár, annars vegar 3,6% aukningu frá 1. janúar og svo 2.900 milljónir aukalega inn í kerfið ef fjárlagafrumvarpið verður samþykkt á Alþingi.

Við höfum verið að tala um ákveðna hópa í samfélaginu. Hér í síðustu viku var m.a. umræða um unga karlmenn í íslensku samfélagi sem einhverra hluta vegna hafa dottið út af vinnumarkaði og finna sig ekki í þeirri samfélagsgerð sem við erum búin að skapa. Ég veit að flokkur hv. þingmanns lagði ríka áherslu á mál varðandi skerðingar, og hún gerði það í ræðu sinni, á krónu á móti krónu skerðingu og það sem að því snýr. En telur þingmaðurinn að afnám skerðingarinnar dugi ein og sér? Hvernig getum við nálgast þann hóp fólks sem er að falla út af vinnumarkaði, fólk sem við viljum ekki að lendi á örorkubótum frá kannski 30–67 ára? Hvernig eigum við að nálgast þann hóp varðandi endurhæfingu, varðandi stuðning, varðandi fleiri þætti?

Síðan langaði mig að spyrja hv. þingmann út í húsnæðismálin, af því að þar höfum við verið og erum að vinna með aðilum vinnumarkaðarins. Hv. þingmaður kom vel inn á húsaleigubætur, vaxtabætur og fleiri þætti sem þyrfti að bæta, sem sagt aðstöðu fólks á leigumarkaði. Mig langar að spyrja hana varðandi framboðsvandann, vegna þess að því hefur verið haldið mjög stíft fram að einnig sé verulegur framboðsvandi á húsnæði. Hvernig sér þingmaðurinn fyrir sér að við getum gert breytingar á því?