149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:07]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni varðandi það að styðja þá sem falla út af vinnumarkaði en ættu sannarlega að geta verið þar, þ.e. þá sem ekki eru með það alvarlegar líkamlegar fatlanir eða glíma við svo alvarleg andleg veikindi að við ættum að geta komið þeim til hjálpar þannig að það sé ekki varanlegt. Það er gríðarlega mikilvægt að þeir séu ekki hræddir við mistök og falli þess vegna út af kerfinu eða eitthvað slíkt — þær áhyggjur.

En ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki nóg eingöngu að búa til hvata í gegnum almannatryggingakerfið, heldur er umgjörðinni verulega ábótavant sem við höfum skapað varðandi endurhæfinguna, starfsendurhæfingarkerfið, þ.e. hvernig VIRK, Vinnumálastofnun og heilbrigðiskerfið vinna saman að þessu. Og það er það sem við erum að gera með breyttri hugsun, þ.e. að fá þessa aðila til að vinna betur saman og mynda sameiginlegan stuðning og aðstoða þessa einstaklinga út á vinnumarkaðinn, þannig að almannatryggingakerfið vinni í sömu átt. Ef við náum því tvennu í gegn eigum við að geta náð fram þessum breytingum. Þá eigum við að geta búið til stuðningskerfi til að aðstoða þetta fólk við að komast út. En ég hef áhyggjur af því að það dugi ekki eitt og sér að gera breytingar á almannatryggingakerfinu. Það er þess vegna sem við stöndum í þessum breytingum öllum til að ná að tengja þetta saman.

En ég ítreka spurninguna frá því áðan varðandi framboðsvandann í húsnæðismálunum, ég vissi að hv. þingmaður féll á tíma. Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þessa umræðu og þau skoðanaskipti sem verið hafa hérna í dag. Ég hlakka til samstarfs við velferðarnefnd um þau mál sem þar eru inni og lúta að málefnasviði félags- og jafnréttismálaráðherra.