149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:18]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég er alveg til í að grípa boltann varðandi forvarnirnar. Þær eru gífurlega mikilvægar. Kannski nýti ég bara tækifærið til að fagna þeirri vinnu sem hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra hefur farið í gang með til að endurskoða barnaverndarmálaflokkinn eins og hann leggur sig. Ég sit í þeirri þingmannanefnd og þar er einmitt mikil áhersla lögð á forvarnir og hvernig við getum komið í veg fyrir að vandamál komi upp seinna. Stór hluti af því eru fjölskyldur, barnafjölskyldur, og að börn hafi þennan tíma með foreldrum sínum sem vísindin sýna okkur að er gífurlega mikilvægur tími fyrir þroska barnsins. Þess vegna er eitt mikilvægasta skref í forvörnum sem við gætum tekið t.d. að styðja við barnshafandi konur, að það sé ekki mikil streita eða álag á þær, þær lifi ekki í mikilli fátækt og við höldum utan um þær og styðjum við þær. Svo þegar barnið kemur í heiminn að við tryggjum að börnin hafi þessa 12 mánuði með foreldrum sínum sem eru gífurlega mikilvægir. Í raun og veru væri mikilvægt að hafa orlofið lengra en 12 mánuði en 12 mánuðir er gott skref í áttina að því.

Við gleymum oft í þessu neysluhyggjusamfélagi sem við búum í að þetta snýst ekki allt um vinnumarkaðinn. Það er allt of mikil áhersla, finnst mér, lögð á það að koma fólki á vinnumarkaðinn þegar þetta snýst í raun og veru um velferð barnanna okkar, í hvernig umhverfi þau alast upp, að það sé stuðningur þar. Þá fáum við heilbrigðari einstaklinga út í samfélagið, sem er ótrúlega dýrmætt fyrir samfélagið allt.