149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:01]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og segja að við deilum þeirri sýn að bæta þurfi stöðu þeirra sem verst standa í íslensku samfélagi. Við höfum oft rætt það í þessum ræðustól og skipst á skoðunum um bæði hvaða aðferðum skuli beitt til þess og hvernig við gerum það innan þess ramma sem okkur er gefinn í fjárlögum og víðar.

Mig langar að koma sérstaklega inn á að talsverð aukning er í fjárlagafrumvarpinu til málefna sem lúta að félagsmálaráðuneytinu, af því að hv. þingmaður fjallaði mikið um þau mál. Við aukum fjármagn til þessa málaflokks um 14 milljarða, 7,5–8% af raunaukningu á milli ára núna og það er að frátaldri launa- og verðlagsþróun. Aukningin til örorkulífeyrisþega nemur 3,6% plús 2.900 milljónir sem eru inni í þeim tölum. Það er því mjög mikil aukning. Við getum auðvitað deilt um hvort það þurfi meira og í hvað fjármagnið eigi að fara. Þessir 14 milljarðar fara í ýmsa málaflokka.

En það sem mig langaði að koma inn á, af því að samflokksmaður hv. þingmanns var með mjög góða umræðu í síðustu viku um stöðu ungra drengja, er að fram kemur í úttektum að greiðslur í örorkulífeyriskerfið munu aukast mjög mikið ef engar breytingar verða gerðar, ef náttúruleg fjölgun heldur áfram með sama hætti. Hv. þingmaður talaði um prósentur áðan en í þessu tilfelli fer krónutöluaukningin úr 41 milljarði árið 2016 í 90 milljarða árið 2030. Þetta er bara eftir 11 ár og aukningin er upp á tæpa 50 milljarða. Hvernig eigum við að taka á því? Er nóg að gera það (Forseti hringir.) aðeins með krónu á móti krónu skerðingum? Þurfum við ekki víðtækari breytingar á öllu sem snýr að starfsgetu, virkni og öðru slíku?