149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna og mér er ljúft að svarið henni: Komum strax á miðstöð endurhæfingar, náms og vinnumiðlunar. Köllum þessa einstaklinga inn, metum þá. Gerum eitthvað. Við þurfum ekki að bíða eftir einhverju kerfi. Þið getið gert þetta strax í dag. Við erum með Vinnumálastofnun. Það þarf ekki nema deild þar inn til að reyna að virkja hlutina, gera eitthvað. Það hefur verið rifist um starfsgetumatið í 20, 30 ár. Við getum rifist um það næstu 20–30 árin, en það er spurning um að gera eitthvað.

Síðan er það er króna á móti krónu skerðing. Af hverju í ósköpunum á að hanga inni með krónu á móti krónu skerðingu? Af hverju tökum við hana ekki bara út? Það eru allir búnir að lofa því. Hver er hindrunin? Er það spurning um að spara 12 milljarða? Það hafa sparast 25 milljarðar á því á tveimur árum. Allir flokkar lofuðu þessu.

Tökum skerðinguna út núna, ekki á morgun heldur núna. Tökum hana út og förum sænsku leiðina, segjum við fólk: Skapið ykkur störf. Búið þau til. Farið í nám. Þið megið gera hvað sem er án þess að detta út af bótum, án þess nokkurn tímann að detta út af bótum. Um leið erum við komin af stað með fólk sem er alveg tilbúið. Það vilja allir vinna, ég hef enga trú á öðru. Það er hins vegar fullt af fólki sem getur ekki unnið og það er skelfilegt, en það vilja allir geta unnið.