149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn vegna þess að þetta er nefnilega grunnurinn. Við erum búnir að sjá árangur af því að gefa fleirum tækifæri til að komast í sjúkraþjálfun. Það sýnir hversu ofboðslega sniðugt það að mörgu leyti er. En það eru biðlistar eftir að komast í sjúkraþjálfun, gífurlegir biðlistar. Síðan hafa menn áhyggjur af því að nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar séu ekki nógu margir til að dekka í framtíðinni þá sem eru að detta út vegna aldurs. Við þurfum líka að taka þar á. En við þurfum líka að færa þessa sýn yfir á drengina okkar og alla þá sem eru í þessari örorkugildru með geðræn vandamál,

Það er auðvitað stórfurðulegt að viðkomandi sem er úrskurðaður með geðræn vandamál fær kannski tíma einu sinni í mánuði hjá geðlækni og það er verið að vinna með hann í samhengi við það. En stærsti aðilinn, Tryggingastofnun, ríkið, gerir ekki neitt. Það er ekki reynt að virkja hann, kalla á hann, vita hvort hann vilji koma, búa til einhverjar gulrætur, reyna að virkja hann. Það er ekkert. Það kemur ekki stafur frá ríkinu eða Tryggingastofnun eða neinum opinberum aðila til viðkomandi þar sem sagt er: Við höfðum áhyggjur af þér, ertu ekki til í að koma í nám? Ertu ekki til í að reyna að vita hvort þú getir ráðið þig í vinnu eða eitthvað? Ekkert. Heyrist ekki múkk frá ríkinu. Þessu eigum við einmitt að breyta. Þarna er okkar nálgun. Það er auðvitað ákveðið ofbeldi falið (Forseti hringir.) í því að láta einhvern eiga sig, gleyma honum.