149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Við verðum að átta okkur á því að upphæðin er svo lág. Við erum að tala um svo lítinn pening. Þetta er ekki í neinu samhengi við það sem þingmenn og aðrir hafa fengið, og það afturvirkt. Við erum að tala um smáaura, við erum að tala um 7–8 þús. kr., það er löngu búið að taka þetta af öryrkjum. Það er löngu búið að taka þetta af eldri borgurum með öllum hækkununum. Verðbólguhækkunin, og allt annað sem hefur komið, er löngu búin að taka þetta. Þar af leiðandi er þetta svona lágt. Þess vegna er alveg óskiljanlegt að við skulum ekki bara drífa í því í hvelli, án þess að hugsa okkur eina mínútu, að taka af krónu á móti, og koma hlutunum í lag. Við getum gert það, það myndi greiða leið fyrir alla. Ég er alveg með það á hreinu.

Það hefur nefnilega öfug áhrif að reyna alltaf að vera einhvern veginn að lemja fólk niður og þvinga einhvern að einhverju, starfsgetumati eða öðru. Við eigum að gleyma því. Við verðum bara að koma hlutunum á. Og breyta því líka eins og með sjúkraþjálfarana, hvernig það virkaði. Þetta þarf að gera við geðlækna, geðteymin. Það þarf að búa til einhverja miðstöð sem sér um þetta og auka aðgengi. Ég er alveg með það á hreinu að ef við gerðum það þá værum við búin að losa okkur við vandamálin. En ef við ætlum að halda áfram að tala alltaf í hringi og gera þetta eins og við höfum alltaf gert, þá verða þetta 90 milljarðar í framtíðinni, en sem betur fer getum við breytt framtíðinni. Við getum breytt þessu. Og við getum gert það strax. Ef við tökum okkur saman, tökum burtu krónu á móti krónu, setjumst niður, þá eru allir sáttir. Þá er ég með á hreinu að við leysum þetta mál. Alveg um leið. En um leið og farið er að klípa af 0,5%, ég meina, þetta eru svo litlar upphæðir. Og að hækka persónuafsláttinn um 533 kr. Ef það hefði verið 5.000 kall, þá hefði ég skilið það. En 533 kr., nei.