149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:18]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Þau voru háleit, markmiðin hjá núverandi ríkisstjórn í upphafi sinnar vegferðar, og fróðlegt að skoða umgjörðina sem flokkarnir skópu. Ég leyfi mér að vitna í stjórnarsáttmálann, með leyfi forseta:

„Í nýrri ríkisstjórn munu flokkar sem spanna hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri freista þess að slá nýjan tón, einhenda sér í þau lykilverkefni sem koma Íslandi í fremstu röð og búa þannig um hnútana að hér verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna.“

Hvernig skyldi hljóðið vera í öldruðum eða forsvarsmönnum menntakerfisins, öryrkjum, ég tala nú ekki um þá sem starfa í heilbrigðisþjónustu? Hvað hafa þeir á tilfinningunni? Er unnið að því að koma landinu í fremstu röð velferðarsamfélaga? Ég er ekki viss, ég held að á ýmsa renni tvær grímur.

Við ræðum nú fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019 öðru sinni á þessu hausti og tíminn líður áfram. Þvert á drauma ríkisstjórnarinnar hafa orðið breytingar og hræringar í okkar samfélagi sem ekki voru taldar séðar fyrir, en einhverjir töldu þó fyrirsjáanlegar — gengið sígur. Ekkert stendur í stað, síst af öllu í hagkerfi sem rígheldur í gjaldmiðil sem er skotspónn á alþjóðavísu, gjaldmiðill sem helst má líkja við korktappa sem velkist um á úfnum sjó innan um verksmiðjutogara.

Ríkisstjórnin boðaði í upphafi stórsókn á flestum sviðum. Almenningur setti sig í stellingar — en stórsóknin lætur á sér standa. Almenningur bíður enn og það virðist hörfað fremur en sótt. Þeir sem hafa bestu möguleikana, þeir sem eru þegar í álnum, halda áfram að hreiðra um sig og efnast. Sem dæmi tóku 10% landsmanna til sín tæpan helming þeirra hreinu eigna sem til urðu á Íslandi árið 2016. Heildartekjur með fjármagnstekjum hjá hæstu 5% landsmanna voru tæpur fjórðungur af heildartekjum landsmanna. Öryrkjum er á hinn bóginn gefinn ádráttur um leiðréttingar á sínum kjörum sem eru svo dregnar til baka. Það er slegið úr og í.

Hið sama heldur áfram. Ísland er langneðst allra Norðurlanda á lista Oxfam þegar kemur að aðgerðum gegn ójöfnuði. Við þessu verður að bregðast og við treystum á félagslega hugsandi öfl í ríkisstjórninni að taka í bremsurnar ef þau eru þá á vaktinni.

Sú fjármálastefna sem fylgt hefur verið á Íslandi á undanförnum árum hefur leitt af sér aukin útgjöld ríkisins á sama tíma og án þess að stjórnvöld hafi hugað að styrkingu tekjustofna. Nefna má sem eitt dæmi ferðaþjónustugeirann allan. Tekjustofnar hafa verið veiktir með þensluaukandi áhrifum, t.d. skattkerfisbreytingum, eins og að fella niður auðlegðarskatt, lækka veiðigjöld, lækka neysluskatta, afnema tolla og vörugjöld og lækka tekjuskatta. Fyrir vikið hefur afkoma ríkisins verið í járnum en á sama tíma hefur aðhald m.a. falist í að ráðast ekki í velferðarumbætur heldur veikja stuðning í gegnum tilfærslukerfin og þar eru barna- og vaxtabæturnar. Þessi stefna mun bara leiða til þess að ójöfnuður verður meiri á Íslandi sem grefur undan félagslegum stöðugleika og er því ekki líkleg leið til að stuðla að sátt á vinnumarkaði.

Alþýðusamband Íslands gaf út skýrslu haustið 2017 þar sem skattbyrði launafólks var rakin frá árinu 1998. Helsta niðurstaða skýrslunnar, rauði þráðurinn, var sú að skattbyrði flestra hópa á vinnumarkaði hefði aukist yfir tímabilið og þar af langmest hjá lágtekjuhópum. Það sem olli þessu var misgengi launa og persónuafsláttar, auknar skerðingar og með því að draga máttinn úr vaxtabótakerfinu sem og auknar skerðingar í barnabótakerfinu, allt handstýrð pólitík.

Þessi þróun hefur ekki verið óvænt. Samfylkingin hefur stöðugt og endurtekið hamrað á þessu, varað við, spyrnt við fótum og lagt fram tillögur um viðsnúning. Það hefur verkalýðshreyfingin sömuleiðis gert. Menn sáu í hvað stefndi.

Herra forseti. Núverandi ríkisstjórn boðaði snemma á sínum ferli breytingar á tekjuskattskerfinu og það þarf engum að koma á óvart að þau plön hefðu gagnast hinum efnameiri best og við það verður ekki unað. Það er þó jákvætt að áherslan hefur færst frá áformum um flata tekjuskattslækkun yfir í að hækka persónuafslátt. Það er vert að hafa í huga að skattar á hærri tekjur á Íslandi eru lægstir meðal Norðurlandanna. Það er fráleitt að við endurskoðun á skattkerfinu sé ekki samhliða horft til skattlagningar á arðgreiðslur, fjármagnstekjur og auðlegð og þessi atriði sett í samhengi við skattlagningu launatekna.

Yfirlýst skattafóbía Sjálfstæðisflokksins mun sennilega standa í veginum. Þetta eru að þeirra mati ekki réttu skattarnir á réttum stað. Þeim finnst í lagi að kreista skatta út úr öryrkjum og efnalitlu fólki sem lifir jafnvel við eða undir framfærslumörkum. Það var raunalegt þegar þær opinberuðust nöturlega við 1. umr. um frumvarp til laga um breytinga á tekjuskatti hér á dögunum, breytingarnar sem fela m.a. í sér að uppbætur á lífeyri hjá elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem tengdir eru við félagslega aðstoð verði ekki skattlagðar. Þar erum við að tala um umönnunarkostnað, sjúkra- og lyfjakostnað, kaup á heyrnartækjum o.fl. Og hvaða upphæðir skyldu stjórnvöld hafa verið að sækja í vasa lífeyrisþega? Jú, þessi sárafátæktasti hópur landsmanna var rukkaður um 500 milljónir í skatt og útsvar. Þetta finnst íhaldinu í lagi, en þetta er lágkúruleg skattheimta. Geta ekki þau 5% landsmanna sem eiga næstum jafn mikið og restin, 95%, lagt eitthvað af mörkum? Ég spyr: Eru þessar fjölskyldur ekki frekar aflögufærar?

Herra forseti. Stuðningur við barnafjölskyldur verður aukinn um 1,6 milljarða á næsta ári. Það eru góðar fréttir og lítið skref í rétta átt. Barnabætur skerðast nú við 241.000 kr. mánaðarlaun foreldris en markið hækkar nú í 300.000 kr. Það er jákvætt að ríkisstjórnarflokkarnir eru loksins sammála okkur í Samfylkingunni um að barnabætur eigi ekki að skerðast langt undir lágmarkslaunum. Það eru bara fáeinir mánuðir síðan ríkisstjórnarflokkarnir felldu slíkar tillögur frá okkur. Hjón sem hafa miðgildi launa fá hins vegar engar barnabætur, hjón sem hafa um 618.000 kr. Spurt er: Á hvaða vegferð er þessi ríkisstjórn? Hver er samfélagspólitíkin?

Við þurfum á öllu okkar að halda til að ná að fjölga Íslendingum. Við þurfum að leggja okkur í líma og það dugar ekki til. Stjórnvöld sýna sáralitla viðleitni í þá átt að koma til móts við ungar fjölskyldur sem vilja stofna heimili og eignast börn. Eftir fyrirhugaða hækkun eru barnabætur svipaðar að raunvirði og árið 2013 og 8% lægri en árið 2010.

Þrátt fyrir fyrirhugaðar breytingar á barnabótum er það t.d. álit BHM, sem við tökum undir, að barnabætur séu ekkert annað en fátækrastyrkur og þannig á það ekki að vera. Samfylkingin leggur því fram breytingartillögu þar sem barnabætur verða auknar um 2 milljarða kr. sem er tvöföldun miðað við það sem ríkisstjórnarflokkarnir líta á að ásættanlegt sé að bæta nú í kerfið.

Húsnæðismálin eru eitt helsta baráttumál verkalýðshreyfingarinnar sem og atvinnulífsins. Þessir aðilar hafa lýst því yfir að þessi mál séu hugsanlega lykillinn að því að samkomulag náist í komandi kjarasamningum. Alþýðusambandið hefur á undanförnum árum bent á þann alvarlega vanda sem ríkir á húsnæðismarkaði og undir það tekur Samfylkingin í orði og verki. Á leigumarkaði búa um 50.000 einstaklingar, í meiri hluta tekjulágir og ungt fólk. Samkvæmt mati og úttekt Íbúðalánasjóðs ná leigjendur síður að safna sparifé og tekjulágir leigjendur búa frekar við íþyngjandi húsnæðiskostnað á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Þeir þurfa að greiða yfir helming af ráðstöfunartekjum í leigu. Gylfi Zoëga, hagfræðingur og prófessor, bendir í nýlegri skýrslu á að leigjendur verja allt að þrisvar sinnum hærra hlutfalli af ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað en þeir sem eiga.

Í frumvarpinu er enn gert ráð fyrir 64 millj. kr. lækkun húsnæðisbóta til leigjenda. Leigjendur sitja því eftir, eru í ómögulegri aðstöðu til að kaupa fasteign, fastir í fátæktargildrum á óstöðugum leigumarkaði og búa langt fram eftir aldri í jafnvel foreldrahúsum, sumum foreldrum auðvitað til gleði og ánægju en öðrum til ama eins og gengur.

Í frumvarpinu eru stofnframlög til bygginga almennra íbúða aukin um 800 milljónir á milli ára. Þetta er viðleitnin til að standa við yfirlýsingu um byggingu 2.300 almennra íbúða á árunum 2016–2019 sem gefin var út í tengslum við kjarasamninga árið 2015. Þetta dugar engan veginn til að standa undir uppbyggingu á þeim fjölda íbúða sem lofað var, m.a. vegna vaxandi og stöðugt hækkandi byggingarkostnaðar. ASÍ telur að fjölga þurfi íbúðum í almenna íbúðakerfinu mun hraðar en áform eru um, um a.m.k. 1.000 á ári næstu árin, til að mæta uppsafnaðri þörf, mæta slæmum aðstæðum lágtekjufólks á leigumarkaði og slá á þenslu á húsnæðismarkaði. Undir þetta tekur Samfylkingin enn og aftur og hefur reyndar ítrekað áréttað þessa nauðsyn með þingsályktunartillögum. Stjórnvöld þurfa að koma að uppbyggingu í það minnsta 5.000 leiguíbúða á næstu árum til að finna þeim leigumarkaði sem er rekinn án hagnaðarsjónarmiða fótfestu. Í þessu leggjum við til breytingartillögu um að bætt verði inn 2 milljörðum kr. í stofnframlög til almennra íbúða.

Vaxtabætur halda áfram að lækka, á næsta ári um 600 millj. kr., um 15%. Helmingur þeirra sem ættu að vera þarna inni er dottinn út úr vaxtabótakerfinu, svo mjög hafa viðmiðunarfjárhæðir og eignamörk rýrnað án þess að nokkuð hafi verið aðhafst. Stuðningur í gegnum vaxtabótakerfið hefur rýrnað að raungildi um 70% frá árinu 2013 og heimilum sem fengu vaxtabætur fækkað um 19.000 á þessu tímabili. Tekjulágt barnafólk sem á lítið eigið fé í sínu húsnæði fær í dag lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið. Það er ekki tilviljun eða lögmál náttúrunnar sem þarna er á ferðinni, þetta er meðvituð og markviss pólitík. Þegar Samfylkingin var síðast í ríkisstjórn á erfiðum tímum setti hún 100 milljarða kr. í vaxtabætur og barnabætur á kjörtímabilinu sem er mun hærri fjárhæð en það sem sitjandi ríkisstjórn setur í málaflokkinn. Við leggjum til þarna aukningu upp á 2 milljarða kr.

Það þarf ekki að fjölyrða mikið um áherslur Samfylkingarinnar á nauðsyn þess að lengja og styrkja fæðingarorlof. Ríkisstjórnin hefur kynnt okkur fyrirheit sín í því efni en merkin eru ekki skýr í þessu frumvarpi. Sérstakt skoðunarefni og áhersluefni ætti að vera að hækka svokallaðan fæðingarstyrk gagnvart þeim foreldrum sem eru í námi eða utan vinnumarkaðarins. Gleðiefni er þó að frá næstu áramótum hækka hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi í 600.000 kr. Tillögur starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem lagði til að tekjur upp að 300.000 skertust ekki og að fæðingarorlof yrði lengt í 12 mánuði ná ekki fram að ganga. Niðurstöður hópsins lágu fyrir í mars 2016 og nú er svo komið að uppreiknuð er sú fjárhæð orðin 650.000 kr. árið 2018. Það er afleitt að þessi þróun endurspeglist ekki í frumvarpinu. Ástæða er til að benda á að þrátt fyrir hækkun á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í 600.000 kr. verður kaupmáttur hámarksgreiðslunnar enn um þriðjungi lægri en árið 2007.

Það er svo áfram sameiginlegt úrlausnarefni ríkis og sveitarfélaga að brúa umönnunartímabilið, tímabilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn kemst í tryggt dagvistunarúrræði. Þetta tímaskeið er bæði viðkvæmt og mikilvægt. Það hefur neikvæð áhrif á tekjumöguleika fjölskyldna og hefur verulega neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði.

Samkvæmt skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði eru það að megninu til mæður sem axla ábyrgð á umönnun barna sinna á þessu tímabili og má áætla að þær séu að meðaltali fjórfalt til fimmfalt lengur frá vinnumarkaði í kjölfar barneigna en feður. Þarna skiptir máli að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði sem allra fyrst — og virkja karlana.

Herra forseti. Hvað varðar menntamálin í þessu frumvarpi sér ríkisstjórnin ekki til sólar. Áður boðuð stórsókn virðist vera orðin að kyrrstöðu í besta falli. Háskólarnir fá enn helmingi minni fjármuni en fyrirheit voru gefin um í stjórnarsáttmálanum og framhaldsskólarnir fá meira að segja lækkun á milli ára.

Það er mikill skortur á iðnmenntuðu fólki í landinu og staða ákveðinna hópa háskólamenntaðra á vinnumarkaði hefur þrengst verulega. Aukið fjármagn í menntun tryggir því ekki eitt og sér aukna verðmætasköpun, lykilatriðið er að fjárfesta í réttri menntun og færni. Í stjórnarsáttmála er boðað að iðn-, verk- og starfsnám verði styrkt í þágu öflugra samfélaga um allt land. Haustið 2016 gerðu stjórnvöld samkomulag við aðila vinnumarkaðarins og háskólana um þróun fagháskólanáms. Í samkomulaginu var viðurkennt að þróun fagháskólanáms væri eitt brýnasta verkefnið á sviði háskólamenntunar fyrir framtíðina, fyrir samfélagið allt. Hvað er verið að vinna í þessu? Það vantar sjáanlegar aðgerðir, þær birtast ekki í þessu fjárlagafrumvarpi.

Við í Samfylkingunni leggjum fram í nefndaráliti aukningu til framhaldsskóla upp á 400 millj. kr. og til háskólastigsins 1 milljarð kr.

Þá er gert ráð fyrir að framlög til framhalds- og vinnumarkaðsfræðslu fari lækkandi milli ára um sem nemur 60 millj. kr. Um 40.000 einstaklingar á vinnumarkaði hafa eingöngu grunnmenntun. Þar standa sérstaklega konur og fólk á landsbyggðinni höllustum fæti. Þá má nefna stöðugt vaxandi hóp innflytjenda sem þarf á markvissum en tímabundnum stuðningi að halda til að geta fótað sig og tekið þátt af fullu afli í íslensku samfélagi.

Ég leyfi mér að nefna í þessu samhengi að Samfylkingin hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að móta heildstæða stefnu í málefnum innflytjenda þar sem menntun, heilbrigðisþjónusta og félagsleg þjónusta vegur þungt. Mikilvægt er að þessum hópum sem hafa litla grunnmenntun en vilja efla færni sína og þekkingu verði boðin úrræði við hæfi. Það er forsenda þess að þeir geti haft færi á að blanda sér í þróun varðandi tækni og atvinnulíf sem þegar er hafin og mun aðeins aukast í næstu framtíð.

Fullorðinsfræðsla og símenntun býr við óvissu og stefnuleysi stjórnvalda. Starfsgrundvöllur símenntunarmiðstöðva er eiginlega ekki skiljanlegur, þ.e. reiknilíkan sem þessar miðstöðvar búa við og er ekki í neinu samhengi við verkefnin. Sérstaklega á þetta við um símenntunarmiðstöðvar sem starfa á landsbyggðinni og við mjög mismunandi kringumstæður, sumar mjög dreifðar og þurfa að veita þjónustu um stórt landsvæði. Aðrar eru staðbundnari.

Herra forseti. Ekki verður skilið við þennan þátt umræðunnar án þess að nefna hin takmörkuðu tækifæri ungmenna með þroskahömlun til náms og atvinnu þegar þau hafa lokið framhaldsskóla. Ýmsar upplýsingar hafa komið fram sem varpa skýru ljósi á mismunun og skort á tækifærum sem þessi ungmenni búa við vegna fötlunar sinnar. Vandinn er viðurkenndur og talað er um að ríkur vilji sé til að grípa strax til markvissra aðgerða til að bæta úr. Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð, veitir fólki með þroskahömlun tækifæri til margvíslegrar menntunar. Fjárveitingar til Fjölmenntar hafa þó farið hratt minnkandi að raunvirði mörg undanfarin ár. Nú er svo komið að þar er mun minna í boði fyrir fólk með þroskahömlun en var fyrir nokkrum árum. Ekki verður séð að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir að úr þessu verði bætt.

Herra forseti. Heilbrigðisþjónustan átti að vera flaggskip ríkisstjórnarinnar. Þar átti að styrkja og efla á öllum sviðum og reisa úr öskustónni laskað kerfi. Að ýmsu er unnið og vonandi miðar okkur í áttina. Langstærstan hluta aukningar á fjármunum til heilbrigðismála í þessu frumvarpi, að frátöldum launa- og verðlagshækkunum, má rekja til framkvæmda við nýjan Landspítala, um 60% af upphæðinni, og þó er dregið í land að nokkru leyti varðandi framlag til hans og þeir peningar lagðir til hliðar, eða hvað? Gufuðu þeir upp?

Hringinn í kringum landið eru heilbrigðisstofnanir í ófullnægjandi húsnæði sem er að grotna niður eða kallar á viðhald og endurbætur. Ef þessir peningar eru handbærir væri tækifæri til þess að verja þeim í þörf verkefni. Það er hægt að nefna hringinn í kringum landið; Akranes, Stykkishólm, Patreksfjörð, Tálknafjörð, Sauðárkrók, heilsugæsluna á Akureyri sem er í leiguhúsnæði, Austurland og Suðurland, að ógleymdum Suðurnesjum. Til þessa er ekki litið í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafa átt í erfiðleikum með að rækja hlutverk sitt á undanförnum árum, hafa skorið niður starfsemi sína, einfaldað þjónustuna til muna og búa við læknaskort, svo dæmi sé tekið, meira og minna allar. Sumar þeirra eru einfaldlega mannaðar frá einni viku til annarrar með farandþjónustu sem er slæmur kostur til lengri tíma. Stofnanirnar og íbúar á þessum landsvæðum trúðu því að þarna yrði gert stórátak í verki. Nei, það bólar ekkert á því. Það eru uppi stór og mikil orð en efndir og aðgerðir skortir, þær koma ekki fram í þessu frumvarpi.

Stofnframkvæmdir, viðhald og endurbætur á húsnæði sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana eru eitt og það er grundvallaratriði að því sé sinnt og að það sé í góðu horfi, fyrst og fremst í þágu skjólstæðinga og sjúklinga en einnig til að laða að gott og metnaðarfullt fagfólk til starfa og að viðhalda starfsánægju. Að starfrækja stofnanir og veita heilbrigðisþjónustu er svo annað, en í umræðunni leggur ríkisstjórnin þetta allt að jöfnu sem er dálítið villandi. Fjármagn í óbreytta starfsemi í kerfinu er ekki tryggt fyrir næsta ár. Það er t.d. útlit fyrir um 2 milljarða kr. halla á Landspítala einum og sér. Þá á eftir að taka tillit til starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri sem býr við sömu aðstæður í hlutfalli við umfang starfseminnar. Við leggjum því til að framlög til þessara tveggja sjúkrahúsa verði aukin um 2 milljarða kr. og trúum því að hv. fjárlaganefnd taki nú tillit til þess.

Í sameiginlegri yfirlýsingu heilbrigðisstofnananna á landsbyggðinni segir, með leyfi forseta, að annað árið í röð virðist aukningar til heilbrigðisþjónustu fara fram hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Það er mat þessara stofnana að rekstur þeirra þurfi að lágmarki 800 millj. kr. til viðbótar, bara til að þær geti sinnt grunnþjónustu sinni. Samfylkingin leggur til að komið verði til móts við heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni með þessum hætti í fjárlögum næsta árs.

En það má ekki gleyma sér í öllu því sem er neikvætt. Það á líka að nefna það sem er jákvætt. (Gripið fram í.) Það á að veita 200 millj. kr. til að endurnýja tækjabúnað á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Það er vel, en í mörgum tilvikum er unnið með löngu úrelt og úr sér gengin tæki. Þá er einnig og samhliða brýnt að hraða eins og kostur er að innleiða búnað sem styrkir fjarheilbrigðisþjónustu. Áform um það mun vera að finna í byggðaáætlun.

Herra forseti. Ráðherra heilbrigðismála vinnur að nýrri stefnumótun í heilbrigðisþjónustu og auðvitað hafa allir landsmenn væntingar um að það leiði til meiri jöfnuðar og að öryggi íbúa á landsbyggðinni verði tryggara hvað varðar heilbrigðisþjónustu. Það skiptir máli að hlutverk Landspítala sé vel skilgreint gagnvart sérfræðiþjónustu og almennri þjónustu við alla landsmenn, að Landspítali hafi það skilgreinda hlutverk að hnýta saman heildstæða þjónustu til allra landsmanna.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir viðbótarfé, herra forseti, til reksturs nýrra hjúkrunarrýma á næsta ári. Samkvæmt því sem fram kom í máli hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar síðla á föstudagskvöldi verða tekin í notkun á 160 ný hjúkrunarrými í Reykjavík á næsta ári. Rekstur þeirra kostar ekki undir 1,6 milljörðum kr. og ekki verður með góðu móti séð meðfram öðrum nýjum verkefnum að reksturinn hafi verið fjárhagslega tryggður á næsta ári, en við skulum sjá hvað setur.

Í stjórnarsáttmála koma fram fyrirheit um að hugað verði að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila og jafnframt lögð áhersla á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu. Þessa sér þó hvergi stað í frumvarpi til fjárlaga. Það er ekki að sjá að styrkja eigi rekstur þeirra hjúkrunarheimila sem starfandi eru, en þau eru flest í miklum rekstrarvanda. Reksturinn er á hendi ýmissa aðila, ríkis, sveitarfélaga, sjálfseignarstofnana og félagasamtaka. Sveitarfélögin fullyrða að þau greiði með þjónustunni um 1 milljarð kr. á ári og þau munu ekki sætta sig við það að óbreyttu sem von er.

Það er mat rekstraraðila að það vanti að lágmarki um 30% til að daggjöld dugi fyrir rekstri. Rekstraraðilar gera sér grein fyrir því að það verður ekki hækkað í einum áfanga en nauðsynlegt er að stíga skref í áttina til að minnka þennan mun, a.m.k. sé fráleitt að auka bilið líkt og gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Ofan í kaupið sé svo gert ráð fyrir hagræðingarkröfu upp á 0,5% við þessar aðstæður þegar það blasir við að endar nást ekki saman í rekstrinum. Þarna stefnir í hreint óefni. Þessu vill Samfylkingin svara og leggur til í nefndaráliti sínu breytingu þar sem framlög til hjúkrunarheimila hækka um 1 milljarð kr.

Dagdvalarrýmum hefur fjölgað hægt á umliðnum árum og allt frá árinu 2012 mun hægar en fjölgun eldri borgara hefur verið. Þetta er þjónusta sem rímar við þá stefnu að gera eldra fólki kleift að búa að sínu heima, veita stuðning við hæfi og tefja eða hindra vist á stofnun. Mikil eftirspurn er eftir þessari þjónustu og sveitarfélögum hefur ítrekað verið synjað um fjölgun dagdvalarrýma til að mæta eftirspurn. Afar brýnt er að fjölga dagdvalarrýmum, ekki síst fyrir hópa sem standa mjög höllum fæti og eru jafnvel í umsjá aðstandenda. Sem dæmi nefni ég fólk sem kennir heilabilunar, alzheimersjúklinga. Tryggja þarf enn betur að þróunin sé að lágmarki í samræmi við reiknaða þörf og í þessu sambandi má ekki gleyma þörfinni fyrir stuðning til aðstandenda sem eru iðulega undir miklu og langvarandi álagi sem leiðir jafnvel til alvarlegs heilsuvanda hjá þeim sjálfum.

Virðulegur forseti. Áfram er gert ráð fyrir að framlengja heimild til að nýta fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs hjúkrunarrýma sem er andstætt hlutverki hans. Það er mikið umhugsunarefni hvort þessu þurfi ekki að ljúka hið fyrsta. Þetta bitnar að sjálfsögðu á því skilgreinda hlutverki sem sjóðnum er ætlað að sinna, þ.e. að byggja upp og styrkja aðstöðu og efla umgjörð um þjónustu við eldri borgara almennt. Þau skilgreindu verkefni sitja á meðan á hakanum.

Það er við hæfi að fá sér einn lítinn. [Þingmaðurinn fær sér vatnssopa.] Málefni SÁÁ hafa verið ofarlega á baugi að undanförnu og ákall um aukinn stuðning til að fást við ávana- og fíkniefnavandann hefur ómað hátt enda ekki nema von. SÁÁ vinnur að mikilvægum verkefnum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti um landið. Til að tryggja viðgang starfseminnar leggjum við í Samfylkingunni til að komið verði til móts við beiðni samtakanna með raunhæfum hætti og bætt verði um betur sem nemur 150 millj. kr.

Herra forseti. Hlutskipti öryrkja hefur verið smánarlegt undanfarin ár. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Þróun skerðinga hjá tekjulægstu lífeyrisþegunum hefur aukist og munurinn á lífeyri til þeirra sem búa einir og með öðrum hefur farið vaxandi. Öryrkjar hafa verið skildir eftir í úlfakreppu og fulltrúum þeirra finnst viðræður við þá skilyrtar með kuldalegri nálgun. Stjórnvöld veifa sverði og skildi, það er starfsgetumatið, og öryrkjar eru tortryggnir. Þeim var gefin von í fjárlagafrumvarpinu með þriðjungsáfangagreiðslu upp í afnám krónu á móti krónu skerðingar sem síðan var dregin til baka.

Herra forseti. Leyfum umræðunni um starfsgetumat að þroskast og dafna, en leiðréttum kjör öryrkjanna strax. Afnemum þessar hamlandi skerðingar. Gefum öryrkjum tækifæri Ef ekki núna, þá hvenær? Það kostar en það er hægt, þetta er vinnandi vegur. Við viljum mæta þessu og leggjum til að upphæðin verði strax á árinu 2019 4 milljarðar kr. til viðbótar þeim 4 sem áætlaðir voru áður mínus 1 milljarður.

Hvað snertir ellilífeyrisþega hefur verið farin sú leið síðustu árin að hækka heimilisuppbót til þeirra sem búa einir umfram almenna hækkun ellilífeyris. Sú leið hefur líka aukið muninn á lífeyri þeirra ellilífeyrisþega sem búa einir og þeirra sem eru í sambúð. Það er ekki deilt um að kjör þeirra eldri borgara sem minnst hafa milli handanna eru í engu samræmi við almenn lífskjör í landinu og að stórir hópar þeirra draga fram lífið undir fátæktarmörkum. Þar eru verst settir þeir sem engar aðrar tekjur hafa en ellilífeyri almannatrygginga. ASÍ hefur lagt áherslu á að farin verði sú leið að almennt skerðingarhlutfall ellilífeyris verði lækkað úr 45% í 30% til að bæta kjör ellilífeyrisþega með heilbrigðara samspili milli almannatrygginga og lífeyrissjóða og setja þar með inn aukinn hvata til þátttöku á vinnumarkaði fyrir þann takmarkaða hóp sem möguleika hefur á því. Samfylkingin leggur til aukningu fjárveitinga með sama hætti og í þágu öryrkja.

Virðulegur forseti. Ég hef hér að framan drepið á örfá atriði sem við í Samfylkingunni teljum mikilvæg fyrir samfélag okkar. Andstæðingarnir gera lítið úr okkar sýn, segja að við sjáum ekkert annað en skatta og álögur. Þetta er rangt. Okkar markmið eru auðvitað að vinna að velferðarmálum alls almennings, ekki fámennra hópa, að allir hafi möguleika á þátttöku í samfélaginu, að allir séu með og öllum tryggð sæmandi lífskjör um leið. Við hvetjum líka til svigrúms til athafna og frumkvæðis og að þeir sem fram úr skara fái að njóta umbunar og ávaxta erfiðis án öfga og með samfélagslegri ábyrgð.

Það er kunnuglegt orðtak, líklega frá Afríku, sem oft er gripið til, að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Eins er það með okkar litla samfélag, það þarf allar vinnandi hendur til að taka þátt í að skapa velferðarsamfélag. Hver og einn þarf að leggja sitt af mörkum með sanngjörnum hætti, en svo er ekki í dag. Með breytingartillögum við þetta fjárlagafrumvarp leggjum við til tekjuöflunarleiðir sem allar eru raunhæfar og færar og við erum ófeimin við að segja: Þetta kostar og tökum á þessu saman með réttlátari hætti en verið hefur.

Herra forseti. Í þessu samhengi langar mig að vekja örlítið máls á því að í greinargerðinni með frumvarpinu er vakin athygli á því að fyrirhugað sé að stofna þjóðarsjóð sem fjármagnaður verði með tekjum af orkuauðlindum og orkuvinnslu á vegum hins opinbera, einkum arðgreiðslum frá Landsvirkjun. Það vekur upp spurninguna: Af hverju bara orkuvinnslu hins opinbera? Hvað með önnur orkufyrirtæki í einkarekstri? Og hvað með aðrar sameiginlegar auðlindir? Hvað heldur aftur af stjórnvöldum í þessu sambandi? Af hverju er ekki þetta stutta skref stigið fetinu framar og stofnaðir auðlindasjóðir sem fangi allar okkar sameiginlegu auðlindir til sjós og lands? Já, margs þarf búið við, herra forseti.

Svo ég víki aðeins að málefnum þess kjördæmis sem ég lifi og hrærist í, Norðvesturkjördæmi, má ýmislegt jákvætt segja um það góða samfélag. Það jákvæðasta er þó að í kjördæminu býr dugmikið fólk sem stöðugt vinnur að eflingu samfélaga sinna. Íbúaþróunin hefur á flestum stöðum verið jákvæð síðustu misseri. Íbúum fjölgar víða en þó ekki á öllum svæðum. Það sem íbúum kjördæmisins er efst í huga eru auðvitað sömu mál og víðast hvar á landinu. Ég nefni fyrst samgöngumálin. Enginn landshluti býr við eins hátt hlutfall malarvega og Norðurland vestra og Vesturland og raunar kjördæmið allt. Þrátt fyrir þetta er á ýmsum vegum landshlutans engu minni umferð en á malbikuðum vegum í öðrum landshlutum. Vegakerfið og samgöngur standa vexti ferðaþjónustunnar fyrir þrifum og sögusagnir eru um að rútufyrirtæki neiti að aka suma vegi á þessum landshluta. Jarðgangaframkvæmdir í Dýrafirði og Arnarfirði yrðu gleðiefni en vegagerð á Dynjandisheiði verður að koma til samhliða þeim miklu framkvæmdum. Samkvæmt núverandi áætlunum er ekki gert ráð fyrir að vegir verði komnir í ásættanlegt horf fyrr en árið 2026 og í kaffiskúrum tala menn nú um lengsta botnlanga sögunnar.

Nánast engin framlög hafa verið til stofn- og tengivega í kjördæminu, hvorki sunnan megin né norðan, síðasta áratuginn og eru vegir víðast hvar komnir að þolmörkum. Dæmi um það er vegurinn um Vatnsnes sem talsvert hefur verið til umfjöllunar og sömuleiðis Skagastrandarvegur.

Varðandi búsetuskilyrði nefna íbúarnir einkum þrjú atriði sem þeir eru óánægðir með og þar trónir ofarlega vegakerfið. Landshlutasamtökin hafa ítrekað áréttað og ályktað um samgöngumálin, verið samstiga um forgangsröðun en fengið litla áheyrn. Einungis eru áætlaðar um 550 milljónir í nýframkvæmdir á Vesturlandi á næstu fjórum árum. Vegur um Uxahryggi bíður, vegur um Skógarströnd sömuleiðis sem og mikilvæg varaleið um Laxárdalsheiði. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi krefjast þess að ríflegar fjárveitingar fari í tengivegi og telja að það þurfi a.m.k. 1.500 milljónir árlega á landsvísu og fara fram á 700 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til tengivega á árinu 2019. Íbúar fagna hins vegar áformum um vegabætur á Kjalarnesi og horfa vonaraugum á lagningu Sundabrautar.

Herra forseti. Akraneskaupstaður hefur tekið forystu meðal sveitarfélaga sem eru á atvinnu- og búsetusvæði Suðvesturlands utan Reykjavíkur í uppbyggingu nýrra og fjölbreyttra íbúðavalkosta. 33 leiguíbúðir eru í byggingu í bænum í samvinnu við byggingarfélagið Bjarg og þær verða tilbúnar um mitt næsta ár. Þá er búið að skipuleggja nýtt íbúðasvæði á reitnum þar sem Sementsverksmiðja ríkisins stóð, í hjarta bæjarins. Verksmiðjan komst í eigu kaupstaðarins árið 2013 og bærinn tók þar með yfir 55.000 m² lóð og mannvirki sem voru yfir 20.000 m². Niðurrif mannvirkja á svæðinu er langt komið og í undirbúningi er fyrirkomulag á sölu lóða og bygginga allt að 368 íbúða. Í samningum um byggingu mannvirkja, líkt og Sementsverksmiðja ríkisins var, eru jafnan í dag ákvæði um skyldur eigenda við lok starfsemi til að taka niður byggingar og skila því landi sem byggt er á í sama ástandi og þegar tekið var við því. Ekki hefur verið komið til móts við þá eðlilegu kröfu bæjaryfirvalda að ríkið taki þátt í þessum kostnaði. Niðurrifið kostar líklega hátt í 300 millj. kr. eitt og sér og þann kostnað hefur Akraneskaupstaður borið einn. Faxabraut er skilgreind sem þjóðvegur í þéttbýli, liggur neðan við sementsbrautina í sjávarmálinu og er meginstofnleið flutninga að Akraneshöfn. Ljóst er að fyrirhuguð uppbygging í hjarta Akraneskaupstaðar getur ekki gengið eftir án nauðsynlegrar eflingar sjóvarna og hækkunar Faxabrautar. Þá eru menn með framtíðina í huga, hlýnandi veðurfar og hækkandi sjávarmál. Akraneskaupstaður óskar því eftir að ríkið tryggi þá fjármuni sem þarf sem eru á þessu stigi metnir um 510 millj. kr.

Það er rétt að árétta í þessu sambandi og í tengslum við alla þá umræðu sem á sér stað um erfiðleika á húsnæðismarkaði að fermetraverð á íbúðarhúsnæði í leigu og kaupum á Akranesi er 20–40% lægra en á höfuðborgarsvæðinu. Uppbygging á Akranesi gæti því hjálpað til við að leysa úr brýnum húsnæðisvanda og draga úr þensluáhrifum í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta á að vera hvatning til stjórnvalda um að leggja málinu kröftuglega lið.

Herra forseti. Það eru metnaðarfull og brýn áform sem Akraneskaupstaður hefur á prjónunum. Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem þarna eru uppi, hins mikla húsnæðisvanda sem landshlutinn stendur frammi fyrir og þeirra umhverfisvænu tóna sem þarna eru slegnir, skora ég á stjórnvöld, virðulegan þingheim og ríkisstjórn, að bregðast við og koma til móts við þetta viðamikla verkefni.

Ég hef nú rakið í nokkrum atriðum þau efni sem brenna á okkar fólki, almenningi í landinu, íbúum í Norðvesturkjördæmi og jafnaðarmannaflokki Íslands, Samfylkingunni. Ég hef stiklað á stóru í ljósi umfangs málaflokka og leyfi mér að vísa til nefndarálits 1. minni hluta um nánari útfærslur.

Virðulegur forseti. Eins og ég drap á í upphafi lagði núverandi ríkisstjórn mikla áherslu á umbótastarf á flestum sviðum, hafa sigur í hverri raun og gera hlutina líka öðruvísi. Það er ekki sanngjarnt að gera lítið úr þeim verkefnum sem sett hafa verið af stað. En betur má gera á ýmsum sviðum með annars konar forgangi og ríkari viðleitni til að afla aukinna tekna og skapa svigrúm, bæði til þess að gera betur, búa til framkvæmdatækifæri og búa sig undir hægari og svalari tíma í hagkerfinu. Það var mikið talað um stórsókn hér og stórsókn þar í upphafi vegferðarinnar en það er minna hjalað um þetta í seinni tíð.

„Þú komst í hlaðið á hvítum hesti“ orti Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Þar bregður fyrir hendingunni „ég heyri álengdar hófadyninn“. Mér er (Forseti hringir.) sem ég heyri álengdar óminn frá ríkisstjórninni breytast úr hrópum um stórsókn á öllum sviðum niður í lágstemmdan kór sem kyrjar: Við erum í því að vinna stóra varnarsigra.