149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:01]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að veita mér andsvör og setja ofan í við mig. Það er í lagi. Við höfum lifað sérstaklega gjöfula tíma undanfarin ár, undanfarin misseri, og þó það nú væri að við legðum til samfélagsins í samræmi við það. Við höfum bæði haft auknar tekjur og búið við þær aðstæður að komið hafa inn í sjóði okkar eingangsfjármunir sem hafa verið nýttir til að bæta hag okkar.

Ég náði ekki að fanga öll atriði þó að tíminn væri rýmri en oft áður. Það ber auðvitað að nefna ýmislegt annað og ég fagna sérstaklega átakinu í geðheilbrigðismálunum eða sálfræðiþjónustunni á heilsugæslustöðvunum, sem mun nýtast íbúum á landsbyggðinni jafnt sem öðrum og jafnvel nemendum líka sem eru í framhaldsskólum. Það er mikilvægt að við veitum góða þjónustu þar.

Varðandi vanda í heilbrigðisþjónustunni og hvort það sé eingöngu eða langmest launavandi er ég ekki sannfærður um það. En þetta ber hæst í umræðunni. Taka þarf tillit til fleiri atriða en það er þannig þarna, eins og á mörgum sviðum, að landsbyggðin fer halloka. Menn hafa, eins og hv. þingmaður veit, fjallað um einhverjar úrlausnir á því sviði, (Forseti hringir.) m.a. einhverjar ívilnanir.