149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil koma aðeins inn á hjúkrunarheimilin, af því að okkur hefur verið tíðrætt um þau. Eins og þingmaður nefndi hefur komið fram í umræðunni að sum þeirra verða tekin í notkun síðar á árinu og þess vegna þarf ekki eins mikið í rekstur þeirra í upphafi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Komið hefur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og eftirfylgniskýrslu síðast árið 2015, þar sem þarf að skilgreina lykilupplýsingar um rekstur og starfsemi hjúkrunarheimila, að stærðin skilar ekki endilega hagkvæmni, ekki heldur nýjustu byggingarnar og annað slíkt. Það er eitthvað sem við þurfum að fara ofan í að mínu mati og meiri hluti fjárlaganefndar leggur áherslu á það. Ég spyr hv. þingmann hvort hann geti verið mér sammála um að í staðinn fyrir að setja fjármuni í eitthvað sem við vitum ekki alveg hvað er ættum við að taka þá niðurstöðu sem er verið að skoða að beiðni Ríkisendurskoðunar.

Svo vil ég líka segja að aðhaldskrafan er tekin algerlega í burtu (Forseti hringir.) með framlagi sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans varðandi hjúkrunarheimilin — algerlega.