149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:09]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er rétt að útgerðarfyrirtæki eiga í vanda, mörg þeirra, ekki öll. Minni útgerðirnar eiga það og við viljum ekki missa þær frá okkur. Við viljum halda áfram minni útgerð. Við viljum halda í alla flóruna. Við lögðum af stað í þá vegferð að koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir fyrir nokkrum mánuðum, en umræðan fór út um víðan völl og ekkert varð af.

Nú er komið nýtt frumvarp fram og við sjáum hvað setur. En því verður auðvitað að halda til haga að þessi fiskveiðistjórnarstefna er ekki í anda okkar flokks. Hún er ekki okkar. Við viljum gera breytingar, teljum það vera meira í þágu þeirra sem eiga þessa auðlind að við höfum meira um það að segja hvernig við ráðstöfum fé sem hvílir hjá öðrum eigendum en eiganda auðlindarinnar.

Varðandi jöfnuð. Ég tek nú ekki undir það að ég hafi orðað þetta þannig, að hér væri mikill ójöfnuður. Hann er talsverður. Hann er minni hér en mjög víða og það er gott. En það kemur fram að hér er ekki unnið að því að draga úr þessum ójöfnuði. Það kemur fram hjá Oxfam. Þar rekum við lestina.

En hvernig sköpum við jöfnuð? Þar höfum við ágætistæki. Það er skattkerfið okkar sem er gott jöfnunartæki og því eigum við að beita miklu meira.