149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:12]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þetta síðara andsvar hv. þm. Willums Þórs Þórssonar. Það er rétt að við höfum náð miklum árangri í því að byggja upp fiskveiðiflota okkar og erum með sjálfbæra starfsemi. Við eigum að halda í það. Við erum öfundsverð að því leyti til. En það kemur ekki því máli við hvernig við deilum tekjum af þessari auðlind sem er gríðarlega dýrmæt. Auðlindin er þjóðarinnar og það er eðlilegt að við njótum miklu meiri afraksturs en við gerum. Veiðigjöld held ég megi segja, ég vil nú varla nefna það, en ég held að við höfum svipaðar tekjur af því og af tóbaksgjaldi. Finnst mönnum það eðlilegt að tekjurnar af auðlindinni séu í námunda við þetta?

Varðandi kjör almennings og afkomu þá höfum við góð tæki sem eru jöfnunartækin í skattkerfinu. (Forseti hringir.) Við getum komið fram fleiri skattkerfisþrepum og skapað hér enn betra samfélag en við eigum í dag.