149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:16]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir andsvarið og þetta innskot og þessar upplýsingar. Kostnaðarmat, það er mikil eftirspurn eftir því. Það er auðvitað kvíði yfir því, með þessi nýju hjúkrunarrými sem tekin verða í notkun, að það verði færri en fleiri sem vilja beygja sig undir það að starfrækja hjúkrunarheimili á þeim daggjöldum sem ætluð er í þetta. Það er gott ef vinna stendur yfir varðandi kostnaðarmat.

Við þekkjum söguna. Öldrunarþjónustuna hafa frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir byggt upp og hið opinbera hefur sloppið mjög vel við rekstur á þeim. Það er ekki fyrr en í seinni tíð, þegar sveitarfélögin fara að koma að þessu með þyngri og meiri hætti, að þau gera sér grein fyrir að þetta gengur ekki upp. Þau fá í fæstum tilfellum reiknað inn í daggjöldin kostnað við að reka húsnæði eða viðhalda því. Það una menn ekki við í samfélagi dagsins. Það er því fagnaðarefni ef menn eru að freista þessa að kostnaðarmeta og að greiðslur til stofnananna verði í samræmi við umönnunarþörf þeirra sem þar búa.