149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:20]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það sem átt er við varðandi ívilnun er gamalkunnugt umræðuefni, það er að ívilna starfsfólki sem tilbúið er að fara út á landsbyggðina, út úr höfuðborginni, upp fyrir Elliðaárnar, og bjóða því eitthvað betri kjör. Þetta þekkjum við frá Norður-Noregi og Finnmörku og víðar. Það eru búsetustyrkir, það eru skattaívilnanir og það eru ferðastyrkir. Þetta hefur gefist vel. Það er því miður þannig, af því að ég hef búið úti á landi og þykir það mjög gott, að það er eins og höfuðborgarbúum finnist þeir með einhverjum hætti vera að afplána vist sem ekki er góð og greiða þurfi þeim sérstaklega fyrir það að búa úti á landi. Það er alls ekki svo, það er mjög gott að búa á landsbyggðinni og ég hvet sem flesta til að flytja á landsbyggðina. (Forseti hringir.) Já, ég held að ég hafi ekki fleiri orð um það í bili.