149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:25]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála hv. þingmanni um að við séum á toppi hagsveiflunnar, við erum á leiðinni niður eftir því sem ég best veit. En þegar kemur að þessu eina prómilli sem samdrátturinn hljóðar upp á þarf að taka það einhvers staðar. Við getum deilt um hvort það eigi að taka 500 millj. kr. af í samgöngum eða hvort það eigi að setja þær í heilbrigðismál eða hvað annað.

En ég ætla að koma að ferðaþjónustunni. 2,3 milljarðar eru í liðnum undir ferðaþjónustu, 9% aukning upp á 200 milljónir. Og í hvað fer þetta nú? 80 milljónir fara í aukna landvörslu og 354 milljónir í svokallaða landsáætlun til verndar náttúru og menningarminjum, þannig að þó að það sé niðurskurður í einum sjóði er verið að bæta í annað. Það er verið að færa peninga á milli því að þeir notast betur á einum stað en öðrum.

Þegar kemur að loftslagsmálunum hef ég haldið því fram að ríkisvaldið sé ekki aðalleikandinn í raun og veru í aðgerðum í loftslagsmálum. Það eru atvinnuvegirnir, það eru sveitarfélögin, það eru fyrirtækin og það erum við sjálf. Stjórnvöld liðka fyrir og styrkja, vissulega. En þegar kemur að sjálfum aðgerðunum snýr þetta alveg jafn mikið og enn frekar að þeim sem eru leikarar í samfélaginu umfram stjórnvöld. Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér í því.

Þegar verið er að lúsleita í fjárlögunum að niðurskurði í loftslagsmálum er jafnvel mikilvægara að sjá það sem þó er lagt fram og alla hvatninguna sem felst í því sem er á döfinni, eins og t.d. eitt sem ég veit að er í uppsiglingu, ívilnun til fyrirtækja til kolefnisbindingar í skógrækt og endurheimtar votlendis. Það eru slíkar aðgerðir sem skipta jafn miklu máli eða meira en bein framlög ríkisins í loftslagsmálum.