149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:31]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, fyrir þessa mjög svo áhugaverðu spurningu. Ég held að við höfum nefnilega alls ekki horft nægjanlega mikið til nýsköpunar í landbúnaði og ég held hins vegar að gríðarlega mikil tækifæri séu þar. Eins og ég kom inn á er það ekki eingöngu í þessum hefðbundna landbúnaði heldur líka í, eins og ég eyddi reyndar stórum hluta umfjöllunar minnar í, að nýta betur auðlindirnar okkar sem eru heita vatnið og orkan.

Tökum sem dæmi land eins og Holland sem er að framleiða fyrir allan heiminn í gróðurhúsum með raforku sem er — ég ætla ekki að taka of stórt til orða — að mörgu leyti síðri en hreina raforkan okkar. Þar eru risastór gróðurhús þar sem verið er að framleiða alls kyns matvæli, og ekki má gleyma túlípönunum.

Ég held að það séu gríðarleg tækifæri fyrir Ísland og Íslendinga að horfa í þessa átt og líka til verðmætari afurða en gúrkur, tómatar og paprikur eru. Við höfum einmitt mjög skemmtilegt og flott dæmi um þetta á Egilsstöðum þar sem verið er að rækta wasabi með góðum árangri, sem er rót sem er alveg sérstaklega vel til þess fallin að vera ræktuð á Íslandi og kílóverðið er mjög hátt. Hún vill myrkur og fullt af vatni og við eigum nóg af hvoru tveggja. Mér finnst þetta alveg sérstaklega gott dæmi um hvernig nýsköpun í landbúnaði getur skilað mjög miklu til íslensks samfélags og efnahags.