149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:36]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir góða spurningu. Svarið er kannski það að við horfum ekki nægilega mikið til klasasamstarfs, en enn er tími til að breyta því. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að klasasamstarf er eitthvað sem við eigum sannarlega að horfa til, ekki síst vegna þess lærdóms sem getur falist í samstarfi, að læra af reynslu annarra og forðast mistök annarra. Út á við skiptir máli að fyrirtæki hafi tækifæri til þess að vinna saman og koma íslenskum afurðum og íslenskri framleiðslu á framfæri, sem mér finnst mjög spennandi dæmi.

Hv. þingmaður talaði einnig um tillögu meiri hluta fjárlaganefndar um 30 millj. kr. aukningu til Landbúnaðarháskólans, sem er mjög gott. Hv. þingmaður talaði einnig um aukið samstarf stofnana á þessu sviði. Í því samhengi langar mig að nefna tækifæri sem gætu falist í auknu samstarfi Landbúnaðarháskólans, Háskólans á Akureyri og Háskólans á Hólum — sem allir hafa byggt upp nokkra sérþekkingu á þessu sviði. Má þar nefna tilraunir háskólans varðandi bætta nýtingu á umframafurðum sem ekki eru nýttar í dag, sem eru gríðarlega spennandi. Ég veit að í Landbúnaðarháskólanum er þekking á ræktun og öðru sem væri gríðarlega mikilvæg inn í það samstarf. Ég held að hægt væri að búa til rosalega skemmtilega dínamík með auknu samstarfi stofnana. En því miður gengur það stundum svolítið illa, virðist vera, sérstaklega ef stofnanirnar eru í Reykjavík. Með fullri virðingu fyrir Reykvíkingum virðist oft gleymast að það eru líka stofnanir og þekking úti á landi sem vert er og mikilvægt að nýta.