149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirgripsmikla ræðu. Það er athyglisvert að hlusta á margt Samfylkingarfólk, sem fyrir kosningarnar 2017 lofaði útgjaldaaukningu á einu kjörtímabili upp á 40–50 milljarða, tala um 90 milljarða útgjaldaaukningu á tveimur árum eins og það sé ekki neitt neitt. Hægri svelti — ég veit ekki, svelti var nú ekki orðið sem hv. þingmaður notaði. En þetta sýnir vel hvaða list hv. þingmaður hefur numið á tíma sínum í þessum þingsal, það virðist einhvern veginn allt mega segja í pólitík. Ég ætla ekki að fara að elta ólar við hv. þingmann um það, eða að hann leyfi sér það, sem ég ætla nú að leyfa mér að kalla ósvífni, að láta eins og við í stjórnarmeirihlutanum höfum leitað sérstaklega uppi öryrkja til að við gætum örugglega klekkt á þeim. Hv. þingmaður verður að velja sín orð sjálfur, ég vel mín. En þetta er pólitík sem mér hugnast ekki.

Ég ætla hins vegar að leyfa mér að eiga orðastað við hv. þingmann um eitt sem hann kom inn á, þ.e. veiðigjöld. Mér fannst athyglisvert margt sem hv. þingmaður sagði um þau. Hann kom inn á að vinstrið, og væntanlega er Samfylkingin þar, liti svo á að styðja ætti við þau litlu, meðalstóru eða þannig reknu fyrirtæki sem ekki geta staðið undir veiðigjöldum. Eða þá jafnvel að styðja þau í að fara í annan rekstur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í hvaða tillögur hann er með í þeim efnum. Hvar vill hann að mörkin séu? Er hann ósáttur við þau mörk sem eru í núverandi kerfi? Finnst honum að þau eigi að hækka eða lækka? Finnst honum prósentutalan ekki nægilega há? Hvað finnst honum um þann afslátt sem hefur verið í því kerfi (Forseti hringir.) veiðigjalda sem við búum við í dag? Við höfum nú mörg talað um að það þurfi akkúrat að huga sérstaklega að litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Hvar eru mörkin?