149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:10]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir andsvarið. Mér þykir leitt ef ég hef misboðið honum með orðbragði. Það var ekki ætlun mín. (KÓP: Ég hef breitt og loðið bak?) Hann hafði á orði að hann hygðist ekki elta ólar við það sem ég hefði að segja, en ég heyrði ekki betur en hann væri einmitt farinn að elta alls konar ólar út um allt í ræðu minni.

Spurningin snerist um veiðigjöld. Ég tel að veiðigjöld eigi að miðast við það sem vel reknar og stöndugar útgerðir eru í færum til að greiða fyrir afnot af auðlindinni hverju sinni. Ég er ósammála því að miða eigi veiðigjöldin við þá sem veikast standa, þá sem höllum fæti standa, við þá sem eiga í rekstrarerfiðleikum. Og ég minni á að rekstrarerfiðleikar minni útgerða eru ekki síst oft til komnar vegna þess að þessar útgerðir þurfa að greiða há veiðigjöld dýrum dómum, en þau greiða þau ekki til þjóðarinnar. Þau greiða jafnvel til stærri útgerða og eru að sligast undan þeim miklu gjöldum sem þau greiða. Ég tel að kannski væri hægt að létta einhverjum af þeim gjöldum af þessum minni útgerðum og afgjaldið rynni þá kannski frekar til eiganda auðlindarinnar, þ.e. þjóðarinnar.