149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki verið lengi á þingi en ég held að ég hafi aldrei lent í því að ekki einni einustu spurningu sem ég spurði í andsvari hafi verið svarað. Það gerðist þó núna.

Þess vegna langar mig að endurtaka spurningarnar: Hvar telur hv. þingmaður að mörkin eigi að vera? Hver telur hann að afsláttarprósentan eigi að vera í veiðigjöldum? Telur hann að miða eigi við brúttótonn? Telur hann að miða eigi við prósentutölu í rekstri?

Hv. þingmaður talaði um að miða eigi við að vel reknar útgerðir greiði ákveðið gjald. Hvernig ætlar hv. þingmaður að reikna út hvenær útgerðir eru vel reknar?

Með öðrum orðum, hvaða kerfi er það sem hv. þingmaður og Samfylkingin leggur hér til að verði í stuðningi við minni og meðalstórar útgerðir sem standa illa, sem hv. þingmaður er búinn að lýsa hér í tvígang í pontu að hann vilji að komi?

Og svo að lokum spurningin sem ég fékk heldur ekki svar við: Hvað sér hv. þingmaður (Forseti hringir.) fyrir sér í því að styðja þá útgerðir jafnvel yfir í annan rekstur eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni?