149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:24]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir þetta góða andsvar sem hafði að geyma ótal spurningar. Ég verð að játa að ég er eiginlega ringlaður í öllu þessu spurningaflóði sem dundi á mér.

Varðandi undanfarnar ríkisstjórnir og framlög þeirra til velferðarmála þá held ég að ég verði að minna á það að sjaldan hafa ytri skilyrði í íslenskum þjóðarbúskap verið jafn hagfelld og þessar ríkisstjórnir hafa notið. Ekki aðeins hafði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, eins og ég vék að áðan í ræðu, á strandstað komið þjóðarskútunni á réttan kjöl og aftur á siglingu, heldur hafði — ég vil nú kannski ekki þakka þeirri ríkisstjórn stórfelldar makrílgöngur hingað til lands og ekki þakka þeirri ríkisstjórn nema kannski að litlu leyti stórfelldar göngur ferðamannsins til Íslands, en þetta tvennt ásamt fleiri þáttum varð náttúrlega til þess að hér ríktu óvenjuhagstæðar aðstæður í íslenskum þjóðarbúskap.

Ég reyni kannski í seinna andsvari mínu að víkja að hinum spurningunum sem hv. þingmaður vék til mín.