149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég ætla fyrst að víkja að málefnum landbúnaðarins og því sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu tengt honum. Það verður að segjast eins og er að fjárlagafrumvarpið er ekki sérlega glæsilegt þegar kemur að málefnum landbúnaðarins. Er það miður og líka verður að segjast eins og er að það blasir við að ríkisstjórnin er sérstaklega áhugalaus um íslenskan landbúnað, svo eftir er tekið. Hún hefur ekki fært landbúnaðinum þann stuðning sem honum er nauðsynlegur og hann á skilið.

Nú gerist það í meðförum þingsins við 2. umr. að enn eru skorin niður fjárframlög til landbúnaðarins, um heilar 108 millj. kr. til stjórnunar landbúnaðarmála og auk þess er skorið niður um 25 millj. kr. til nýsköpunar innan landbúnaðarins. Þetta er að sjálfsögðu ákaflega dapurlegt. Þess má geta að nýverið hættu stjórnvöld við ráðningu skrifstofustjóra á skrifstofu landbúnaðar og matvæla í atvinnuvegaráðuneytinu þannig að þetta er allt á sömu bókina lært, lítill áhugi ríkisstjórnarinnar á landbúnaðinum. Hins vegar hafa ríkisstjórnarflokkarnir, hver í sínu horni, samþykkt ályktanir um mikilvægi landbúnaðarins. Ef við tökum dæmi verður ekki séð að ályktun Framsóknarflokksins um að tryggja sanngjörn starfsskilyrði landbúnaðarins sé í hávegum höfð þegar opnað er fyrir aukinn innflutning á landbúnaðarvörum. Hið sama á við um Sjálfstæðisflokkinn sem talaði fyrir því fyrir síðustu kosningar að viðhalda styrk íslensks landbúnaðar. Á sama tíma vilja þeir ekki hrófla við tollasamningi sem grefur undan landbúnaðinum.

Ef við ræðum aðeins í þessu samhengi tollasamninginn við Evrópusambandið er hann mjög óhagstæður íslenskum landbúnaði. Ég hef sagt áður úr þessum ræðustól að tollasamningurinn á að færa íslenskum bændum sömu möguleika í Evrópu og Evrópusambandið fær hér á landi. Það gerir samningurinn hins vegar ekki. Ég tel nauðsynlegt, og Miðflokkurinn hefur flutt breytingartillögu þess efnis, að þessum samningi verði sagt upp vegna brostinna forsendna. Úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu gerir það að verkum að okkar stærsta og besta markaðssvæði hverfur úr samningnum á næsta ári. Það verður því að semja upp á nýtt við Evrópusambandið um tollkvóta á landbúnaðarvörum.

Það er nauðsynlegt, herra forseti, að ráðast í mótvægisaðgerðir til að draga úr neikvæðum áhrifum samningsins á íslenska landbúnaðarframleiðslu. Í því sambandi kem ég að fjárlagafrumvarpinu. Í því er ekki að finna neinar fjárheimildir til að standa undir mótvægisaðgerðum, engan stuðning til handa bændum til að mæta verulega aukinni samkeppni frá Evrópusambandinu og því ójafnvægi sem ríkir milli samningsaðila, Íslandi í óhag.

Staða sauðfjárbænda og loðdýrabænda er erfið og það er brýnt að ríkisvaldið mæti erfiðleikum þessara greina. Því miður hefur ríkisstjórnin enga framtíðarsýn fyrir þessar greinar sem endurspeglast í fjárlagafrumvarpinu, engar fjárheimildir eru ætlaðar til að mæta þessum vanda.

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019–2023 undirstrikar áhugaleysi flokkanna á landbúnaðinum. Minnumst þess á 100 ára afmæli fullveldis að öflugur landbúnaður, íslensk matvælaframleiðsla og matvælaöryggi, er undirstaða fullveldis, þróttmikillar byggðar og mannlífs í landinu.

Herra forseti. Ég ætla næst að víkja aðeins að heilbrigðismálum og þá einkum niðurskurði til hjúkrunar- og dvalarheimila sem birtist okkur í þessu fjárlagafrumvarpi. Hækkun framlaga til heilbrigðismála milli 2018 og 2019 nemur um 12,6 milljörðum kr. að frátöldum launa- og verðlagshækkunum. Stór hluti af því fer í framkvæmdir við nýjan Landspítala en áætlað er að verja 7,2 milljörðum kr. til þeirra á næsta ári. Reyndar hefur ríkisstjórnin boðað að hægt verði aðeins á þessum framkvæmdum en engu að síður er hér um háar upphæðir að ræða. Miðflokkurinn hefur margsinnis bent á að bygging nýja þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut sé óskynsamleg framkvæmd af mörgum ástæðum. Flokkurinn hefur lagt áherslu á að byggt verði nýtt og glæsilegt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað og að gerð verði fagleg, óháð staðarvalsgreining á nýju sjúkrahúsi. Flokkurinn hefur flutt þingsályktunartillögu þess efnis.

Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þurfa enn að glíma við rekstrarvanda vegna þess að fjárveitingar fylgja ekki íbúafjölgun og vegna aukins álags vegna ferðamanna. Á þetta sérstaklega við um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og einnig má nefna Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sérstaklega þegar kemur að ferðamönnum, en viðvarandi rekstrarhalli hjá þessum stofnunum vegna vanáætlunar í fjárveitingum gerir stöðuna enn verri.

Brýn þörf er auk þess fyrir auknar fjárveitingar til tækjakaupa, eins og hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands, og á að styrkja þjónustu heilsugæslunnar á Akureyri. Auk þess er brýnt að fæðingarþjónusta í Vestmannaeyjum verði endurvakin en hún hefur legið niðri um nokkurra ára skeið sem hefur valdið mikilli óánægju meðal íbúa þar og dregið úr öryggi fæðandi mæðra af þessum sökum. Það er óásættanlegt og eins og ég segi er brýnt að þessi fæðingarþjónusta verði opnuð á ný. Ég vil meina og segi það hér að ég tel að Vestmannaeyingar hafi sannarlega unnið fyrir því.

Hjúkrunarheimilin gegna mikilvægu og vaxandi hlutverki í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Skortur á hjúkrunarheimilum hefur í för með sér að aldraðir einstaklingar ílengjast á sjúkrastofnununum sem er mun dýrara úrræði en hjúkrunarheimilin. Forsenda lausnar á þessum vanda er að heimilunum verði sköpuð raunhæf rekstrarskilyrði. Stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarheimila sem ríkisstjórnin boðar í stjórnarsáttmálanum verður að segjast að er hrein öfugmæli þegar horft er á rekstrargrunn hjúkrunarheimila í landinu sem stjórnvöld bera ábyrgð á. Enn er skorið niður hvað þennan málaflokk varðar og nýjasta breytingartillagan frá meiri hlutanum, ríkisstjórnarflokkunum, hljóðar upp á niðurskurð upp á 680 milljónir.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit í frumvarpinu eru málefnasviðin hjúkrunarrými og endurhæfing annars vegar og lýðheilsa, forvarnir og eftirlit hins vegar einu svið heilbrigðisþjónustunnar sem fá á sig aðhaldskröfu. Rekstur margra hjúkrunarheimila er afar erfiður og hafa þau verið rekin með halla um langt skeið. Hallareksturinn má rekja til þess að kröfulýsing sem hjúkrunarheimilunum er ætlað að starfa eftir er í litlu samræmi við þann tekjuramma sem þeim er markaður með daggjöldum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru fögur fyrirheit um að hugað verði að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila og jafnframt lögð áhersla á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu. Ekki verður séð að fyrir liggi auknar fjárheimildir til heimahjúkrunar, dagþjálfunar og endurhæfingar. Það verður líka að segjast eins og er að þessi þáttur er afar mikilvægur vegna þess að hann seinkar því að aldraðir þurfi að fara inn á hjúkrunarheimili. Þar með dregur úr álagi á þær stofnanir og biðlistar verða ekki með þeim hætti sem er í dag.

Aukning fjárframlaga til hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrýma, sem á eingöngu að ráðstafa til nýrra rýma, byggingar þeirra og rekstrar, virðist einnig vera vanreiknuð, eins og bent er á í umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu við fjárlagafrumvarpið og fjármálaáætlunina fyrir árin 2019–2023. Það er því alveg ljóst að það er brýnt að efla heimaþjónustu og heimahjúkrun og auka heilsueflingu aldraðra. Það hefur fjölgað á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum og hefur embætti landlæknis lýst yfir þungum áhyggjum af stöðunni. Biðtíminn hefur auk þess lengst. Í september biðu að meðaltali 411 manns eftir hjúkrunarrýmum. Fjölgun á biðlistum á landsvísu nemur um 20% og þeir sem bíða heima finna oft fyrir miklu óöryggi og vanlíðan. Þeim sem bíða á sjúkrahúsi finnst þeir jafnvel vera fyrir öðrum og vera hornreka. Þetta hefur veruleg áhrif á lífsgæði fólks.

Miðflokkurinn leggur ríka áherslu á að mæta þessum vanda. Skilvirkasta og fljótlegasta leiðin að mati landlæknis til að bæta stöðuna er að efla heimaþjónustu, heimahjúkrun og heilsueflingu aldraðra. Miðflokkurinn leggur fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um sérstaka fjárveitingu í þennan málaflokk upp á 270 millj. kr. og skiptist hún þannig að 200 milljónir fara til að styrkja sveitarfélögin við að efla heimaþjónustu og heimahjúkrun fyrir aldraða og 70 milljónir til heilsugæslunnar á landsvísu til að auka heilsueflingu aldraðra. Þetta eru nauðsynleg úrræði sem slá á þann vanda sem við blasir en niðurstaðan er að sjálfsögðu sú að það þarf að bæta verulega fjárheimildum í rekstrarfé þessara mikilvægu stofnana sem hjúkrunar- og dvalarheimilin eru.

Herra forseti. Ég vil næst víkja aðeins að mikilvægu starfi SÁÁ. Fjárhagsstaða margra aðildarfélaga innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu er nú þegar orðin alvarleg. Má þar nefna að árið 2018 er framlag ríkisins til meðferðarsviðs SÁÁ 278 millj. kr. lægra en árið 2009 á föstu verðlagi. Framlagið dugir ekki fyrir launakostnaði þrátt fyrir að stöðugildum á meðferðarsviði hafi fækkað um tæplega 11 frá árinu 2000. Í dag greiðir ríkið einungis fyrir 1.530 innritanir á Sjúkrahúsið Vog af 2.200 árlegum innritunum. Á árinu 2018 hefur biðlisti á Vog verið í kringum 580–590 manns að staðaldri.

Svipaða sögu má segja um Krabbameinsfélagið. Fjárveitingar til þess hafa minnkað undanfarin ár á sama tíma og laun og annar rekstrarkostnaður hefur hækkað verulega. Svo virðist sem enn frekari niðurskurður verði á fjárframlögum til Krabbameinsfélagsins árið 2019. Miðflokkurinn flytur breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um sérstakt aukaframlag til SÁÁ upp á 125 millj. kr. og 50 millj. kr. til Krabbameinsfélagsins.

Nokkur aðildarfélög innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu eru samningslaus við Sjúkratryggingar Íslands. Í tilfelli SÁÁ hefur staðan verið þannig í nokkur ár hvað varðar alla þætti rekstursins. Ríkið hefur ekki greitt fyrir göngudeildarþjónustu SÁÁ síðan samningur um þjónustuna við Sjúkratryggingar Íslands rann út í árslok 2014.

Það er mjög erfitt fyrir rekstraraðila að vera í slíkri stöðu, hvað þá til lengri tíma. Samningar Sjúkratrygginga Íslands hafa oft verið einungis til eins árs í senn og oft runnið út áður en aðilar ná saman að nýju. Það er mjög óheppilegt.

Aukin framlög ríkisins inn í heilbrigðiskerfið virðast helst renna til Landspítalans sem hefur fengið viðbótarfjármagn á hverju ári frá árinu 2013. Þrátt fyrir það er halli á rekstri Landspítalans á þessu ári upp á um 1,6 milljarða og stefnir einnig í svipaðan halla á næsta ári þannig að uppsafnaður halli verður rúmlega 3 milljarðar kr. Landspítalinn glímir við viðvarandi mönnunarvanda, sérstaklega hvað hjúkrunarfræðinga varðar. Þetta hefur í för með sér umtalsverðan kostnaðarauka vegna aukavinnu. Mönnunarvandinn í heilbrigðiskerfinu er einn stærsti bráðavandinn sem heilbrigðisþjónustan stendur frammi fyrir og er brýnt að leitað verði allra leiða til að fjölga hjúkrunarfræðingum. Setja verður aukið fjárframlag í það mikilvæga verkefni.

Rammasamningur um hjúkrunar- og dvalarrými rennur út um áramótin og ganga viðræður um framlengingu samningsins mjög hægt. Er það áhyggjuefni hvernig stjórnvöld nálgast þennan mikilvæga málaflokk. Tryggja þarf meira fjármagn í þjónustuna og hækka daggjöld þannig að þau standi undir þeirri þjónustu sem veita á.

Herra forseti. Ég ætla næst að víkja aðeins að sjávarútveginum og mikilvægi þess að veiðigjaldið verði sjálfbært til framtíðar. Sjávarútvegurinn er burðarstólpi í íslensku efnahagskerfi og mjög mikilvægur mörgum samfélögum á landsbyggðinni. Um 79% atvinnutekna í fiskveiðum og -vinnslu koma frá launafólki á landsbyggðinni. Árið 2016 var hlutdeild atvinnutekna sem rekja má til sjávarútvegs 29% á Vestfjörðum, 20% á Austfjörðum, 18% á Vesturlandi, 15% á Suðurnesjum og 14% á Norðurlandi. Við sjáum hversu mikilvægur sjávarútvegurinn er, sérstaklega á landsbyggðinni. Sjávarútvegurinn er auk þess leiðandi í nýsköpun þar sem fjárfesting er lykilatriði. Mikilvægt er að stjórnvöld tryggi góð rekstrarskilyrði greinarinnar og horfi ekki fram hjá þeim miklu útflutningshagsmunum sem eru í sjávarútvegi. Veiðigjaldafrumvarpið horfir til bestu ára greinarinnar. Nauðsynlegt er að stilla veiðigjaldið af til framtíðar. Mikilvægt er að viðhalda fjölbreytileika í greininni og gjaldtakan þarf að taka mið af því. Veiðigjaldið þarf að vera sjálfbært til framtíðar og má ekki koma í veg fyrir eðlilegar fjárfestingar. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki keyptu afurðir af íslenskum tækni- og þjónustufyrirtækjum fyrir tæpa 50 milljarða á árinu 2016 og munar um minna. Þessu má ekki gleyma í umræðunni um sjávarútveginn. Auðlindagjaldið í sjávarútvegi ætti síðan að hluta til að renna til uppbyggingar í heimabyggð þeirra fyrirtækja sem greiða gjaldið.

Ég ætla næst að víkja aðeins að gjaldskrárhækkunum hins opinbera sem birtast okkur í þessu fjárlagafrumvarpi, bandorminum svonefnda. Það er fastur liður eins og venjulega í tengslum við fjárlagafrumvarpið að gerðar eru breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga. Til einföldunar er þetta nefnt gjaldskrárhækkanir og þær taka iðulega gildi um áramót. Þessar hækkanir hafa að sjálfsögðu verðlagsáhrif, hækka vísitölu neysluverðs, hækka lán landsmanna og kynda undir verðbólgu. Inn í komandi kjaraviðræður er þetta að sjálfsögðu óskynsamleg ráðstöfun og vil ég hvetja stjórnvöld til að falla frá þessum áformum. Miðflokkurinn hefur lagt áherslu á það í sínum málflutningi vegna þess að þetta kemur, eins og áður segir, til með að hafa áhrif út í samfélagið, sérstaklega nú þegar erfiðar kjaraviðræður eru fram undan. Það gæti haft jákvæð áhrif að hætta við þessar verðlags- og gjaldskrárhækkanir, t.d. þau að Seðlabankinn gæti jafnvel dregið nýlega stýrivaxtahækkun til baka og er þá til mikils að vinna.

Ríkisvaldið á að taka virkan þátt í þeirri viðleitni að draga úr hækkun verðlags og efna ekki til hækkana umfram það sem algjörlega nauðsynlegt getur talist. Verðbólga hefur verið lág undanfarin misseri og verður ekki séð að nauðsynlegt sé að ríkisvaldið gangi fram með þessum hætti. Það verður að gæta ýtrasta aðhalds við gjaldskrárbreytingar og eins og ég sagði áðan á það sérstaklega við nú í aðdraganda kjarasamninga.

Herra forseti. Næst vil ég víkja að áhersluatriði okkar í Miðflokknum sem kemur m.a. fram í nefndaráliti við fjárlagafrumvarpið, nauðsyn þess að efla starfsemi tollgæslu við fíkniefnaeftirlit. Fíkniefnavandinn er eitt af alvarlegustu og erfiðustu málum sem steðja að þjóðfélaginu öllu. Sterkari fíkniefni en áður hafa náð fótfestu hér á landi. Neysla ólöglegra fíkniefna veldur einstaklingum, fjölskyldum og samfélögum ómældum skaða og tengist margvíslegri glæpastarfsemi sem og heilsufars- og félagslegum vandamálum. Fíkniefnasala á netinu hefur mjög færst í vöxt og auðveldað aðgengi að fíkniefnum. Þessi þróun hefur að sumu leyti þyngt róðurinn í baráttunni gegn fíkniefnum. Aukið fíkniefnaeftirlit á landamærum skilar árangri. Miðflokkurinn leggur áherslu á að auka fjárveitingar til þessa mikilvæga málaflokks. Flytur flokkurinn breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þess efnis að sérstakt aukaframlag upp á 100 millj. kr. fari til embættis tollstjóra til að auka fíkniefnaeftirlit tollgæslunnar á landsvísu. Skiptist fjárveitingin þannig að 60 milljónir fari til þess að fjölga um fimm stöðugildi á Keflavíkurflugvelli, en þó er gert ráð fyrir færanleika þessara stöðugilda, tveir þjálfaðir fíkniefnahundar fái 2 milljónir, tvær bifreiðar fyrir fíkniefnahunda fái 8 milljónir og síðan fari tæpar 30 milljónir í tækjabúnað sem brýnt er að endurnýja svo ávallt sé notuð besta fáanlega tækni í þessum efnum. Hér er um mikilvæga málaflokka að ræða sem við leggjum brýna áherslu á að verði veitt aukið fé í til að stemma stigu við þeim aukna fíkniefnavanda sem við höfum orðið vitni að.

Ég vil næst koma að því sem við leggjum ríka áherslu á í Miðflokknum, að berjast gegn kennitöluflakki. Kennitöluflakk er meinsemd sem verður að uppræta. Miðað við rannsóknir sem gerðar hafi verið er áætlað að kostnaðurinn við þessa meinsemd fyrir íslenskt þjóðfélag sé á bilinu 6–20 milljarðar kr. árlega. Hún felst í misnotkun á reglunni um takmarkaða ábyrgð hluthafa. Líkindi eru fyrir því að íslenskt samfélag verði af tugum milljarða og flestallir eru sammála um að vandamálið sé til staðar og að ekki hafi náðst viðunandi árangur. Þrátt fyrir það hafa ekki átt sér stað neinar meiri háttar breytingar á lögum á undanförnum árum í því skyni að sporna gegn kennitöluflakki. Kennitöluflakki er hægt að lýsa þannig að viðkomandi félag deyr, ef svo má segja, en rekstur þess lifir af og heldur áfram í gegnum annað félag með nýrri kennitölu. Þá er það skilyrði kennitöluflakks að markmiðið með því sé m.a. að komast hjá einhverjum, eða öllum, lagalegum skyldum félagsins. Almenningur og aðrir sem ekki skoða kennitölur félaga þegar þeir eiga viðskipti við þau verða því oft og tíðum ekki varir við þessa breytingu. Nýja félagið rís úr ösku þess gamla og heldur áfram með rekstur eldra félagsins og sú háttsemi er ámælisverð og ólögmæt.

Birtingarmynd kennitöluflakks getur verið með ýmsum hætti. Í grundvallaratriðum er hægt að flokka kennitöluflakk í tvo hópa eftir því hvort upprunalegur tilgangur félagsins eigi að vera að standa við allar lagalegar skuldbindingar sínar eða ekki. Sú birtingarmynd kennitöluflakks sem líklega kemur fyrst upp í huga margra er þegar félag sem sér fram á að geta ekki efnt skuldbindingar sínar við kröfuhafa er látið fara í þrot. Áður en það er gert er stofnað nýtt félag af stjórnendum eldra félagsins sem flytur til sín hluta eigna eða allar eignir eldra félagsins á undirverði eða án þess að borga neitt fyrir þær. Nýja félagið er oft starfrækt undir sama viðskiptanafni og hið eldra og heldur þannig viðskiptavildinni. Reksturinn getur því haldið áfram í nýja félaginu og skuldir eldra félagsins eru hreinsaðar. Hægt er að skilgreina kennitöluflakk sem vísvitandi og oft og tíðum kerfisbundið gjaldþrot félaga sem á sér stað með sviksamlegum eða ólögmætum ásetningi til að komast hjá sköttum og öðrum lagalegum skuldbindingum, m.a. gagnvart starfsmönnum, og halda áfram starfsemi arðvænlega hluta rekstrarins í gegnum nýtt félag. Kennitöluflakk getur einnig falið í sér að starfsemi sé haldið áfram undir sama nafni, stjórnendur nýja félagsins séu þeir sömu og í eldra félaginu eða nákomnir þeim. Starfsmenn eldra félagsins halda áfram að vinna hjá nýja félaginu og/eða gjaldþrot á sér stað í einu félagi samstæðu. Brotið er gegn samningsbundnum eða lagalegum skuldbindingum sem geta sætt einkaréttarlegum eða refsiverðum afleiðingum. Ekki hafa verið teknar saman tölur hérlendis um umfang kennitöluflakks né upplýsingar um hvert hlutfall kennitöluflakks sé af heildarfjölda gjaldþrota, en starfshópur á vegum ríkisskattstjóra áætlaði þó nýverið að skatttekjur væri rúmlega 80 milljörðum kr. lægri á ársgrundvelli en umsvif þjóðfélagsins gáfu vísbendingu um að þær ættu að vera.

Alþýðusamband Íslands sendi frá sér skýrslu í október 2013 þar sem lagt var mat á samfélagslegt tjón af völdum kennitöluflakks og komið með tillögur um aðgerðir gegn kennitöluflakki. Þar kemur fram að á tímabilinu 1. mars 2012 til 24. janúar 2013 voru lýstar kröfur í þrotabú félaga þar sem uppgjöri var lokið tæpir 166 milljarðar kr. Einungis innheimtust 5,2 milljarðar kr., 3,1%.

Hér er um verulega meinsemd að ræða og í rannsókn nemanda við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík frá árinu 2005 kemur fram að stjórnendur rúmlega 73% fyrirtækja sem voru tekin fyrir í rannsókninni telja sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum kennitöluflakks. Þar af taldi ríflega þriðjungur stjórnenda fyrirtæki sín hafa orðið fyrir tjóni vegna kennitöluflakks oftar en sex sinnum. Könnunin náði til 600 fyrirtækja. Niðurstaða þessi gefur sterka vísbendingu um að umfang kennitöluflakks sé umtalsvert hérlendis.

Miðflokkurinn leggur því fram breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að settar verði 120 milljónir í baráttuna gegn kennitöluflakki. Upphæðin skiptist þannig að 60 milljónir fari til skattrannsóknarstjóra og 60 milljónir til ríkisskattstjóra.

Herra forseti. Ég hef þá lokið máli mínu um fjárlagafrumvarpið og helstu áherslur Miðflokksins í þeim efnum. Ég vil geta þess að lokum að breytingartillögur Miðflokksins eru fullfjármagnaðar. Má þar nefna að lækkun á kolefnisgjaldi um 2,3 milljarða er fullfjármögnuð með arðgreiðslu í gegnum ríkisbankana og að framlag til öryrkja upp á 1,1 milljarð er fullfjármagnað með 800 millj. kr. framlagi sem kemur vegna seinkunar á Húsi íslenskra fræða (Forseti hringir.) og 300 millj. kr. vegna arðgreiðslu úr ríkisbönkunum. Aðrar tillögur eru fjármagnaðar með þeim upphæðum sem koma inn og nást vegna sérstaks átaks gegn kennitöluflakki.