149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:18]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið og góða spurningu. Einfalda svarið er: Alls ekki. En jafnmikilvægt er að leggja áherslu á að ekki þarf að setja allt á „hold“, frekar en ég geri ráð fyrir að ríkisstjórnin hafi ætlað að gera með því að leggja þessa 4 milljarða til þrátt fyrir að niðurstaðan væri ekki fengin. Það hefur ítrekað komið fram, af hálfu Öryrkjabandalagsins og annarra hagaðila í málinu, að auðveldlega er hægt að fara af stað með ákveðin verkefni sem allir eru sammála um að þurfi að setja í gang. Þau skemma ekki fyrir stóru myndinni. Króna á móti krónu skerðing er ágætisdæmi um það. Þeim fjármunum sem ríkisstjórnin ætlaði upphaflega að verja í þetta, 4 milljarðar sem nú eru orðnir 2,9 milljarðar, hefði sannarlega ekki verið varið til ónýtis þó að tíminn hefði verið nýttur og komið til móts við fólk. Þarna er vissulega fólk sem búið er að bíða gríðarlega lengi, það hefur ítrekað komið fram. Ég sit í velferðarnefnd og hef hlustað á fulltrúa þessara aðila segja að það muni alls ekki skaða stóru myndina þó að farið sé af stað með þetta. Ég varpa spurningunni til baka: Ætluðu forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, með sínum 4 milljarða kr. útgjöldum, að ganga fram fyrir þetta þverpólitíska samstarf?

Þetta er gríðarlega stórt viðfangsefni. Vinnan er í fullum gangi. Það er ekkert verið að byrja á núlli, það er verið að klára ákveðin atriði. Þessum fjármunum hefði sannarlega verið hægt að verja vel. En ég árétta enn og aftur að rétt eins og ég tel að það vanti nákvæma niðurlistun og útskýringar, markmiðssetningu og árangursmælingar á þeim fjármunum sem verja á í stóra og mikilvæga málaflokka þá vantar líka að menn sjái að það sé gegnsæi í því af hverju skorið er niður þar sem skorið er niður. Þegar það gegnsæi verður ljóst veltir maður öðrum hugmyndum upp.