149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:20]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður er sammála mér um að mikilvægt sé að ná saman um þessa kerfisbreytingu, en þessir 4 milljarðar voru einmitt áætlaðir í kerfisbreytingu. Ég vona innilega að við náum árangri fljótlega svo að hægt verði að greiða út í samræmi við það eins og gert er ráð fyrir í fjárlögunum.

Næsta spurning mín er tvíþætt. Ég held ég hafi heyrt rétt að hv. þingmaður talaði um að óvarlega væri farið, að fjárlögin hefðu verið uppsprengd og verulega hefði þurft að draga úr þegar ný þjóðhagsspá birtist. Ég man ekki alveg hvaða orðalag hv. þingmaður notaði en ég spyr: Man hún hver breytingin er í prósentutölum? Ef mínar upplýsingar eru réttar er nánast enginn munur á fjárlögunum sem lögð voru fram og því sem nú er þegar kemur að prósentum. Þetta er örlítil lagfæring. Ég held að við séum að tala um núll komma núll eitthvað í þeim efnum.

Þá langaði mig að spyrja hv. þingmann út í málefni aldraðra. Ég hjó eftir því að hún talaði um að henni fyndist ekki nóg að gert í þeim málaflokki, sérstaklega þar sem þetta væri jú kynslóðin sem hefði aðstoðað okkur við að öðlast fullveldi og lagt sitt af mörkum þar. Ég er svo sannarlega sammála henni í því. En nú er það svo að 49 milljarða raunaukning hefur orðið á útgjöldum í þennan málaflokk frá árinu 2010 eða 150%. Á þremur árum frá árinu 2016 nemur hækkunin 30,5 milljörðum eða 60%. Það er langt umfram öll önnur málefnasvið. Á sama tíma er að fjölga í þessum hópi um 7%. Útgjöldin hækka um 60%. Hvaða tillögur hefur hv. þingmaður í þeim efnum? Ég heyrði að hún nefndi krónuna í því sambandi. Er það raunverulega tillaga þingmannsins að ástæða sé til þess að ganga í Evrópusambandið og þá ættu eldri borgarar að hafa það mun betra en þeir hafa það í dag?